Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Stöðvum SÍS
Mynd / Stöðvum sóðaskap í sveitum á Facebook
Lesendarýni 19. ágúst 2016

Stöðvum SÍS

Höfundur: Hólmar Svansson
Sem ungur drengur leit ég alltaf á bændur sem útverði umhverfisverndar og virðingar fyrir náttúrunni, enda ætti þessi stétt allt sitt undir því að náttúran sé ávallt hrein og hafi þannig jákvæð áhrif á heilsufar búpenings og ímynd afurða þeirra. Því miður skjátlaðist mér, nú er svo komið að aðgerða er þörf ekki seinna en strax. Stöðvum sóðaskap í sveitum (hér eftir SÍS) fyrir fullt og allt.
 
Það sem hefur nú endanlega fyllt mælinn er hugsunarleysi margra bænda í umgengni við rúllubaggaplast. Mjög víða má sjá óuppgerða enda af rúlluplasti, blakta í vindinum eins og litlar sætar veifur sem tákna að góðu dagsverki er nú lokið við að binda inn hey í nokkra tugi metra af rúllubaggaplasti. „Veifurnar“ eru í raun upphaf á miklum sóðaskap og hugsunarleysi sem mun bera óhróður sinn víða um sveitir jafnvel árum saman. Það er nefnilega svo merkilegt að þetta seiga plast, sem ekki er auðvelt að slíta í höndunum, slitnar af rúlluböggunum á nokkrum vikum og berst þá yfir á næstu gaddavírsgirðingu eða tré þar sem óhroðinn blasir við öllum sem fara um landið okkar. Líta menn svo á að þetta fjúki svo bara á endanum til hafs og þannig sé þetta ekki neitt vandamál? 
 
Plastið fýkur um allt
 
Það er kaldhæðnislegt að plastið endi í hafinu þar sem útgerðarmenn og sjómenn hafa á síðustu 10–15 árum gerbreytt hugsunarhætti varðandi að henda rusli í sjóinn. Þar þekkist ekki lengur að henda drasli fyrir borð og segja „lengi tekur sjórinn við“. En eru einhverjir bændur sem hugsa þannig? Nýlega hefur umfang plasts í sjó verið rannsakað, NCEAS hefur reiknað út að plast sem berst frá landi út í sjó nemi um 8 milljónum tonna árlega. Það ígildir um fimmtán fullum haldapokum af plasti á hvern metra af strandlengju í heiminum! Það sem verra er að vegna „framþróunar“ ýmissa þróunarlanda í Asíu, þar sem aukin plastnotkun fer ekki saman við uppbyggingu skilvirkrar söfnunar úrgangsplasts, mun árlegt plastmagn í sjó aukast upp í 30 poka á hvern metra strandlengju strax árið 2025! 
 
Hvað verður um plastið?
 
En hvað verður svo um plastið þegar það svo „brotnar niður“ eins og sagt er. Niðurbrotið er í raun bara meira uppbrot en ekki efnafræðilegt niðurbrot. Ekki ósvipað og glerbrot. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að litlu plastagnirnar eru alls ekki  skaðlausar þegar þær berast í hafið. Sjávardýr og fuglar éta þessar agnir og afleiðingar af slíku framandi efni í meltingarkerfi dýra er í besta falli ófyrirséð. Plastfylltar lífverur geta með tíð og tíma haft áhrif á alla fæðukeðju hafsins og hvað verður þá um verstöðina Ísland?
 
Blaktandi rúlluendar eru engum til sóma
 
Annað vandamál í umgengni bænda við rúllubaggaplast er þegar bændur henda gömlum rúllum út í næsta skurð eða út á næsta mel, í öllu plastinu. Smátt og smátt slitnar plastið upp og losnar í sundur og plastfjúkið hefst á nýjan leik. Nýlega sá ég líka heilu rúllurnar bornar fyrir sauðfé án þess að fjarlægja plastið og skepnurnar tættu plastið utan af til að komast að heyinu. Það sér hver maður að svona vinnubrögð eru forkastanleg. Ég er ekki að alhæfa hér um alla bændur á Íslandi, langt því frá. Víða má sjá heyrúllur þar sem endar eru vandlega vafðir inn í rúlluna, áður mátti oft sjá endana límda niður en þetta sést varla lengur. Sárgrætilegt er svo að sjá plasttætlur á girðingum á slíkum fyrirmyndarbúum sem er til komið frá tillitslausum nágrönnum þeirra. Ég var á ferð um Þýskaland síðasta haust og ég sá hvergi svona blaktandi rúlluenda né tætlur af plasti á girðingum eða gróðri. Er það tilviljun? Hvernig fara þeir að þar? Ég starfa hjá fyrirtæki sem framleiðir plastvörur og við verðum oft fyrir gagnrýni vegna neikvæðra umhverfisáhrifa tengdum plasti og plastrusli. Vandamálið okkar er að langoftast er framleiðslan sjálf ekki uppspretta vandamálsins heldur eru notendur sem losa sig ekki við plastvörur eftir réttum leiðum þeir sem valda þessum umhverfisskaða. 
 
Hvað er til ráða? 
 
Ekki má bara benda á vandann en hafa engar skoðanir um hvernig megi bregðast við. Byrjum á stjórnvöldum. Lagt er skilagjald á rúllubaggaplast sem á að tryggja að tekið sé við öllu plasti sem til fellur endurgjaldslaust sem á að verða til þess að það skili sér til úrvinnslu. Af þeim 1.500 tonnum af rúllubaggaplasti sem er flutt inn árlega er langstærstum hluta safnað með skilvirkum hætti (oft í samstarfi við sveitarfélögin) en það þarf bara svo fá tonn til að valda þessum vaxandi umhverfisvanda. Sveitarfélög geta sett í gang hreinsunarátak í málaflokknum, enda eiga sveitarfélög í síauknum mæli mikilla hagsmuna að gæta í ferðatengdum greinum, ekki bara rekstur sundlauga og slíkt heldur kemur vaxandi hluti tekna sveitarfélaga frá ferðaþjónustutengdum rekstri. Það má setja reglur og sekta við brotum á þeim reglum ef sektarheimildir fást. Almennt er ég ekki talsmaður sekta en það gæti orðið neyðarúrræði ef almenn hugafarsbreyting virkar ekki.
 
Aðhald samfélagsmiðlanna
 
Einnig er hægt að nota mátt samfélagsmiðlanna, fara inn á Facebook og leita að Stöðvum SÍS-síðunni eða #sodaskapurisveitum og birta þar myndir af slæmri umgengni og bæjarnöfnum næsta bæjar. Gott og vel, slíkar myndir sýna einhver bæjarheiti sem ekki eru endilega sjálf uppspretta sóðaskaparins. En þeir sem þar búa geta þá beitt sér í sínu nærumhverfi til að hafa áhrif á bætta umgengni. Einnig mætti líka birta hrós þarna um jarðir þar sem þessi mál eru til fyrirmyndar. Svo má taka þetta á næsta plan í svona háðungarútsvarskeppni og sæma það sveitarfélag sem inniheldur flesta sóðana Höfuðstöðvar SÍS-verðlaununum.
 
Koma svo. Lausir endar eru aldrei til gagns. Hvorki í stjórnmálum né landbúnaði!
 
Hólmar Svansson, 
rekstrarverkfræðingur MBA.
Áhugamaður um hreint og fallegt land.
 
Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri
Fréttir 27. janúar 2023

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri

Samkvæmt niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) úr skýrsluhaldi na...

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar
Fréttir 27. janúar 2023

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar

Skeljungur og Fóðurblandan hafa birt verðskrá fyrir þær tegundir af áburði sem f...

Ekkert veiðibann á döfinni
Fréttir 26. janúar 2023

Ekkert veiðibann á döfinni

Veiðibann á grágæs hefur ekki tekið gildi á Íslandi og ekki stendur til að banna...

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt
Fréttir 26. janúar 2023

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt

Stakkhamar 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hefur skotist á toppinn ...

Niðurtröppun greiðslumarks að hefjast
Fréttir 25. janúar 2023

Niðurtröppun greiðslumarks að hefjast

Niðurtröppun á greiðslumarki í sauðfjárrækt hefst á þessu ári, samkvæmt núgildan...

Úrræði sem eigi að nýtast ungum bændum
Fréttir 24. janúar 2023

Úrræði sem eigi að nýtast ungum bændum

Ungir bændur hafa verið að kalla eftir því að þeir geti nýtt öll fasteignakaupsú...

Útgáfa fyrstu vottuðu kolefniseininganna
Fréttir 23. janúar 2023

Útgáfa fyrstu vottuðu kolefniseininganna

Yggdrasill Carbon hefur fengið útgefnar fyrstu íslensku vottuðu kolefniseiningar...

Vinnsla á próteini úr grasi
Fréttir 20. janúar 2023

Vinnsla á próteini úr grasi

Þörf heimsins fyrir prótein er alltaf að aukast og sífellt er leitað leiða til a...