Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra.
Fréttir 5. apríl 2018

Stjórnvöld í viðræður við ESB um viðbótartryggingar vegna salmonellu

Höfundur: smh

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) 2018 var settur í hádeginu í dag. Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra upplýsti í sínu ávarpi að stjórnvöld hefðu hafið undirbúning að viðræðum við Evrópusambandið þar sem óskað yrði eftir viðbótartryggingum fyrir salmonellu í kjölfar EFTA-dómsins frá í nóvember vegna hráakjötsmálsins svokallaða. Ágúst Torfi Hauksson formaður Landssamtaka sláturleyfishafa talaði í sínu erindi fyrir fækkun sláturleyfishafa og mögulegu samstarfi þeirra í framtíðinni.

Oddný Steina Valsdóttir, formaður LS, setti fundinn og flutti setningarræðu. Síðan tóku við ávörp gesta, þeirra Kristjáns Þórs, Sindra Sigurgeirssonar formanns Bændasamtaka Íslands og Ágústar Torfa Haukssonar.  

Markaðsjöfnunarsjóður sauðfjárbænda

Oddný ræddi vanda sauðfjárbænda í sinni ræðu. Hún sagði að í löndunum í kringum okkur væri skilningur á því að því fylgi efnahagslegt og samfélagslegt tap þegar miklar og skyndilegar sveiflur verða á afurðaverði til bænda. Samfélagið tapi vegna fjölda gjaldþrota bænda í niðursveiflu og það væri fólginn kostnaður í uppbyggingu þegar betur áraði. Engin hagræðing væri fólgin í slíku fyrirkomulagi. Í nágrannalöndum okkar væri almennur skilningur á því að hagkvæmara sé að grípa til sveiflujöfnunar til skemmri tíma en að láta hrunið verða stjórnlaust.

 


Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Oddný sagði að Kristján Þór hefði á nýliðnu Búnaðarþingi 2018 kallað eftir tillögum sauðfjárbænda sjálfra um lausnir á þeirra vanda og sagði hún að ekki hafi staðið á þeim. Sauðfjárbændur hafi nýlega kynnt tillögur um markaðsjöfnunarsjóð sem byggður væri upp á fjármunum sem kæmi úr greininni sjálfri. Slíkir sjóðir væru þekktir víða um heim. Markaðsjöfnunarsjóður gæti tekið á stöðunni núna og gegnt hlutverki til sveiflujöfnunar til lengri tíma.

Óskir um undanþágur vegna salmonellu

Kristján Þór sagði að hann væri tilbúinn til að taka hugmyndirnar um markaðsjöfnunarsjóðinn til ítarlegrar skoðunar, en forsendan fyrir því að þær geti orðið að veruleika væri að sátt myndi nást um þær meðal sauðfjárbænda. Hann sagði líka að hugmyndin um þennan sjóð yrði illa fær nema einhver trygging fengist hjá sláturleyfishöfum um að þeir gæti mætt hugmyndum þeirra um hærra afurðaverð í framtíðinni.

Kristján Þór vék síðan talinu að öðrum brýnum úrlausnarefnum sem ríkisstjórnin stæði frammi fyrir gagnvart landbúnaðinum. Hann sagði að unnið væri að aðgerðaráætlun um hertara og skilvirkara eftirlit vegna áðurnefnds EFTA-dóms sem heimilar innflutning á ófrystu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólk til Íslands. Einnig væri unnið að umsóknum um viðbótartryggingar fyrir innfluttar búvörur vegna smithættu á salmonellu og að aðgerðum vegna þeirra kampýlóbaktersýkinga sem geta borist til landsins með auknum innflutningi.

Viðbrögð ríkisins vegna EFTA-dómsins verða, að sögn Kristjáns Þórs, kynnt á næstunni.

Kristján Þór sagði að hann hefði beint þeim tilmælum til forystu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga að hraða vinnu við endurskoðun á samningnum um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Hefur hann óskað eftir því að tillögur hópsins verði tilbúnar, fyrir stjórnvöld og Bændasamtök Íslands að kynna sér, innan nokkurra vikna. Hvatti Kristján Þór aðalfund LS að leggja afrakstur fundarins inn í samráðshópinn til umfjöllunar. Þá nefndi hann að von væri á skýrslu KPMG, vegna úttektar á sláturleyfishöfum, í síðasta lagi 1. maí næstkomandi. Markmið þeirra úttektar hefði verið að leita leiða til að lækka sláturkostnað og auka hagræðingu í greininni; bændum og neytendum til hagsbóta. Á hún einnig að taka á og meta framlegð af útflutningi kindakjöts.

Fækka þarf sláturhúsum verulega

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, tók við formennsku í Landssamtökum sláturleyfishafa þann 1. febrúar af Ágústi Andréssyni forstöðumanni Kjötafurðarstöðvar KS. Hann sagði í sínu ávarpi að vandi sláturleyfishafa hefði verið mikill á undanförnum árum, sérstaklega þeirra sem hafa einbeitt sér að sauðfjárslátrun. Þau sláturhús hafi verið rekin með tapi um árabil, áður en þau fóru í þær sársaukafullu aðgerðir síðastliðið haust að lækka verulega afurðaverð til bænda. Hann sagði að við vandann myndi svo bætast áhrif tollasamningsins við Evrópusambandið, sem mun taka gildi 1. maí næstkomandi og hefði í för með sér verðlækkun á kjöti – í það minnsta – og líklega magnaukningu. Það muni óhjákvæmilega hafa áhrif á innlendar kjötvörur, sauðfjárafurðir og aðrar.

Hann sagði að viðbrögð sláturleyfishafa væru að halda áfram að þróa vörur og vinna í gæðamálum innan sinna raða – til að bregðast við samkeppninni. Afurðastöðvarnar gætu gert betur og lært af öðrum kjöttegundum og fæðutegundum.

 


Ágúst Torfi Hauksson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa.

Síðan sé það hagræðingin. Mikið hafi verið hagrætt á árum áður en lítið hafi verið gert róttækt á undanförnum árum. Nú sé tími til kominn að gera taka annan snúning á slíkri hagræðingu. Ágúst sagði að það væri hans mat að það væri ekki þörf á fleiri en þremur sumarsláturhúsum á Íslandi. Þau séu allt of mörg - allt of mikið fé bænda sé bundið í húsunum. Bændur þyrftu að hafa frumkvæðið að þeirri þróun.

Til að hagræðingin gæti svo fyllilega náðst, þá þyrfti að verða einhvers konar hliðrun á samkeppnislögum gagnvart sláturleyfishöfum. Það þyrfti að leyfa þeim að hafa með sér einhvers konar verkaskiptingu.

Loks sagði Ágúst Torfi að hluti vandans væri einnig sá að verið sé að framleiða of mikið af lambakjöti; of mikið til að hægt sé að selja það á ásættanlegu verði.

Tíu ára starfsafmæli
Fréttir 3. febrúar 2023

Tíu ára starfsafmæli

Tíu ár eru síðan Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var sett á laggirnar. Af ...

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis
Fréttir 3. febrúar 2023

Innlend fóðurframleiðsla gæti nýtt jarðhita sem fer til spillis

Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. hefur unnið að skýrslu í samstarfi við verkfræð...

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma
Fréttir 2. febrúar 2023

Markaðssetning utan hefðbundins sláturtíma

Nýlega var Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi veittur styrkur úr markaðssjóði s...

Úrskurður MAST felldur úr gildi
Fréttir 1. febrúar 2023

Úrskurður MAST felldur úr gildi

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi úrskurð Matvælastofnunar sem hafði stöðva...

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...