Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakjöts­fram­leiðenda kemur fram að samkvæmt afkomuspám stefnir í að reiknað tap af nautaeldi á nautgripabúum á þessu ári verði um 525 krónur á hvert framleitt kíló.

Í skýrslunni segir að lágt afurðaverð síðustu ára hafi komið mjög illa við nautakjötsframleiðendur og þegar ásetningur nautkálfa sé skoðaður blasi við samdráttur í framleiðslu þótt hlutfall holdagripa hafi aukist. Innflutningur hafi aukist mjög og markaðshlutdeild íslensks nautakjöts dregist verulega saman, þannig að nú stefni í að hún verði komin undir 50 prósent á næsta ári.

Afurðatekjur mæta ekki kostnaði

Í skýrslunni er farið yfir rekstrarafkomu 30 framleiðenda á árunum 2019 til 2022. Um framhald á verkefni er að ræða sem hófst árið 2020 með því markmiði að greina rekstur búanna og safna hagtölum í leiðinni. Samanlögð hlutdeild þessara framleiðenda var um 16,3 prósent af landsframleiðslu ungnautakjöts árið 2022.

Niðurstöður skýrslunnar leiða því í ljós að afurðatekjur af nautaeldi ná ekki að mæta framleiðslukostnaði en engu að síður eru jákvæðar horfur hvað varðar þróun á afurðaverði og bættan árangur í eldinu.

Fjármagnskostnaður hækkar

Framleiðslukostnaður á hvert kíló nautakjöts, án afskrifta og fjármagnsliða, hækkar einungis um 10 prósent frá árinu 2019, úr 1.160 kr./kg í 1.271 kr./kg árið 2022. Í skýrslunni segir að það lýsi vel þeirri hagræðingu sem hefur orðið á búunum enda hafa almennar verðhækkanir á aðföngum og aðkeyptri þjónustu verið umtalsvert meiri en það.

Fjármagnskostnaður búanna á árunum 2019-2021 var svipaður en hækkar um 46 prósent á árinu 2022 og ljóst er að hann hækkar enn frekar árið 2023. Verðbótaþáttur verðtryggðra lána og hátt vaxtastig mun setja verulegt mark á afkomu þessara búa, sérstaklega þeirra sem hafa verið í uppbyggingu.

Mikilvægt er talið að snúa þróuninni við með áframhaldandi ræktunarstarfi, hækkun á afurðaverði, tollvernd og opinberum stuðningi samhliða því að huga áfram að hagræðingu inni á búunum með tilliti til bættrar fóðurnýtingar og lægri fóðurkostnaðar á hvern grip. Jákvæð þróun sé greinileg í kjötmati, fallþunga og auknum vaxtarhraða gripa. Þá hafi aukið vægi Angus-gripa í ræktunarstarfinu komið fram á árinu sem endurspeglast í meiri vaxtarhraða og bættri fóðurnýtingu.

Góð mynd af grafalvarlegri stöðu

„Það er afar jákvætt að skýrslan sé komin fram og að fleiri framleiðendur séu að taka þátt í rekstrarverkefni RML, en skýrslan gefur mjög góða mynd af þeirri grafalvarlegu stöðu sem er uppi,“ segir Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

„Það er ljóst að mjólkur- og nautgripabýlin eru að jafnaði mjög skuldsett. Eiginfjárhlutföll eru lág og getan til að takast á við áföll er ekki mikil. Er þetta þó afleiðing nauðsynlegrar hagræðingar og þegar lagt var af stað í þessa vegferð voru yfirstandandi efnahags­örðugleikar ekki í sjónmáli. Ef ekki hefði verið farið í aukna fjárfestingu í nautgriparækt til að mynda, hefði staða íslensks landbúnaðar í samanburði við samkeppnislönd dalað mun meira að ég tel. Hér þarf að snúa við þróuninni og m.a. finna til fjármuni sem brúa þetta bil, það er að bændur greiði 525 krónur með hverju framleiddu kílói. Það er óviðunandi að bændur stórtapi á framleiðslu nautakjöts svo árum skipti.

Sjá má fyrir mikil tækifæri og mikinn uppgang nauta­kjötsframleiðslu á Íslandi verði henni sköpuð rekstrarskilyrði,“ segir Vigdís.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...