Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Staðreyndir
Skoðun 1. júní 2016

Staðreyndir

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Það er staðreynd að sauðfé hefur fækkað mjög á Íslandi síðustu 33 árin. Það er líka staðreynd að með fækkun sauðfjár hefur beitarálag stórminnkað samfara hlýnun jarðar og aukinni gróðurþekju af þeim orsökum. Það þýðir þó ekki að hægt sé að leyfa sér eitthvert kæruleysi í umgengni við náttúruna.
 
Á undanförnum árum hafa íslenskir sauðfjárbændur verið að innleiða gæðastýringu í sinni framleiðslu. Hún felur m.a. í sér að þeir sem undirgangast það kerfi verða að tryggja að ekki sé verið að ofbeita land. Þá hafa bændur verið mjög öflugir í uppgræðslu á landi á liðnum áratugum og án þeirrar vinnu væri svipur landsins á mörgum stöðum talsvert dapurlegri en hann er í dag. 
 
Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru sauðfjárbændur undir stöðugri gagnrýni og meira að segja má sjá virta vísindamenn saka þá um að ofbeita land. Slík orðræða hlýtur að vekja efasemdir meðal almennings um trúverðugleika sauðfjárbænda. Hefðbundin viðbrögð „andstæðra“ fylkinga, sem eru þó í raun að berjast fyrir sömu hagsmunum, eru að fara í skotgrafahernað og reyna að kaffæra andstæðinginn í orðræðunni. Þá skiptir oft ekki máli hvort menn fara með satt orð eða ekki, því gengið er út frá að tyggir þú ósannindin nógu oft, þá fari fólk að trúa lyginni. 
 
Það er deginum ljósara að svona umræða skilar okkur ekkert fram á veginn. Skítkast fram og til baka gerir ekki annað en að óhreinka alla sem taka þátt í því um leið og þeir glata virðingu meðal almennings. Það hljóta að vera til aðrar leiðir. 
 
Á gosbeltinu, sem liggur þvert í gegnum landið, eru viðkvæm og síbreytileg landsvæði sem eru undir stöðugum áhrifum af eldvirkni. Á afmörkuðum svæðum á gosbeltinu eru líka þau svæði sem mest er deilt um. Á áðurnefndum viðkvæmum svæðum, ekki síst við norðanverðan Mýrdalsjökul, eru vinsælar slóðir tugþúsunda ferðamanna. Þetta er líka það svæði sem hvað mest áhrif hefur haft á neikvæða umræðu í garð bænda vegna sauðfjárbeitar á undanförnum árum. Myndir af uppblásnum moldarbörðum á þessu svæði eru líka oftast látnar fylgja oft ómaklegri gagnrýni á bændur fyrir að ofbeita land. Þar eru sannarlega uppblástursflákar. Samt hafa bændur verið duglegastir við að græða þetta svæði upp ásamt Landgræðslu Íslands. Í þeirri vinnu hefur þó minna sést til þeirra sem hæst hafa gagnrýnt bændur fyrir illa umgengni um landið. 
 
Lagalega eiga bændur á þessu svæði sögulegan rétt til landnýtingar. Úttektir vísindamanna sýna einnig að óhætt er orðið að beita það land, en í takmörkuðum mæli. Spurningin er, hvort það sé þá endilega sjálfgefið að menn nýti landið bara af því að þeir eiga rétt á því? 
 
Það er ljóst að þetta svæði er eins konar tákngervingur umræðu um landnýtingu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Það er líka ljóst að nýting þess, þó í mjög takmörkuðum mæli sé, skapar neikvæða umræðu gagnvart öllum sauðfjárbændum í landinu, hvar sem þeir búa. 
 
Vissulega er þetta afar viðkvæmt í umræðunni. Væri samt ekki skynsamlegt í ljósi reynslunnar að reyna að ná sátt og hefja víðtæka samvinnu um gerð landnýtingaráætlunar? 
 
Hafa verður í huga, að það er fleira en sauðfé sem bítur gras á landinu. Álftum og gæsum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Þessar afkastamiklu grasætur halda sig oft á viðkvæmustu svæðum landsins, en ekki eru þær gerðar út af bændum. Svo hafa blessaðir ferðamennirnir líka vaxandi áhrif á landið. Er ekki kominn tími til að skríða upp úr skotgröfunum og horfa á heildarmyndina? 
Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum
Fréttir 5. mars 2024

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum

Enn er opið fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum sbr. regluger...

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...