Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Staðið á aliöndinni
Á faglegum nótum 24. október 2016

Staðið á aliöndinni

Höfundur: Vilmundur Hansen

Menn hafa alið endur í nokkur þúsund ár vegna kjötsins, eggjanna og fiðursins. Pekingendur eru algengasti aliandastofninn og mest er neytt af andakjöti í Asíu. Samkvæmt opinberri talningu finnast innan við 800 aliendur á Íslandi.

Önd er samheiti á nokkrum tegundum vatna- og sjófugla af ættkvíslinni Anas og ætt andfugla sem gæsir (Anser), og svanir (Cygnus) tilheyra einnig. Endur, bæði villtar og aldar, hafa breiðan flatan gogg sem þær nýta við fjölbreytt fæðuval eins og vatnagróður, skordýr, fisk og skelfisk. Kafendur geta kafað djúpt eftir æti en buslendur láta sér nægja að stinga höfðinu í vatnið í leit að æti. Kafendur eru þyngri en buslendur sem gerir þeim kleift að kafa dýpra en jafnframt erfiðara að hefja sig til flugs.

Flestar aliendur í Asíu

Erfitt er að henda reiður á fjölda alianda í heiminum en flestar munu þær vera í Kína, Víetnam, Indónesíu, Indlandi, Frakklandi, Bangladess, Malasíu, Taílandi, Suður-Kóreu og Filippseyjum.

Afkomendur stokkanda

Fjöldi ræktunarafbrigða alianda í heiminum er vel yfir eitt hundrað og hvert og eitt þeirra hefur sín sérkenni. Sum eru ræktuð vegna kjötsins, önnur vegna eggjanna og enn önnur fyrir hvort tveggja. Auk þess sem fiðrið er nýtt.

Nánast öll ræktunarafbrigði anda eiga sameiginlegan forföður í stokköndinni Anas platyrhynchos.

Þrátt fyrir að ræktunarafbrigði og landsortir alianda séu mörg telja sum þeirra einungis tugi fugla og í útrýmingarhættu. Af ræktunarafbrigðum má nefna enskar Aylesbury-endur sem eru hvítar með bleikan gogg og Buff-endur í Kent sem eru rauðbrúnar og aldar vegna eggja og kjöts. Silfraðar Appeleyard-endur finnast í einhverjum hundruðum í Bandaríkjunum en evrópskar Magpi-endur eru hvítar með svörtum skjöldum. Hvítar Pekingendur sem upprunalega koma frá Kína eru langaalgengustu aliendur í heiminum í dag. Aliendur geta orðið mun stærri en villtar.

Orðsifjar

Karlendur eru kallaðar steggur eða bliki á íslensku, en kvenfuglar ýmist önd eða kolla.

Orðið önd er komið af frumgermönsku orðunum anuð, anið og anað sem kom úr indóevrópsku, anet. Orðið er samstofna í mörgum Evrópumálum, til dæmis færeyska orðið ont, and á nýnorsku, sænsku og dönsku, ant á miðlágþýsku, anut, anat og anit á fornháþýsku, ente á nýháþýska. Á fornensku er það ænid og enid en eend í hollensku, anas í latínu og antas í litháísku.

Enska orðið duck er komið af sögninni „to duck“, að beygja sig niður eða undir eitthvað. Samanber „að dúkka“.

Endur fyrir löngu

Steingervingar sýna að frumendur hafi verið uppi fyrir 50 til 80 milljón árum ásamt forneðlum og endur hafi lifað af hamfarirnar sem útrýmdu risaeðlunum.

Ríflega tíu þúsund ára hellaristur í Norður-Afríku sýna fólk veiða endur og í indverska helgiritinu Rig-Veda, sem var skrifað 1500 fyrir Krist, er sagt frá önd sem verpir gulleggi í hreiður sem hún byggði sér á höfði þjófs.

Ekki er vitað fyrir víst hvenær andaeldi hófst en vitað er að Egyptar notuðu þær við fórnarathafnir og ólu þær til matar. Vitað er að endur voru aldar í Kína 2000 árum fyrir upphaf okkar tímatals og að Rómverjar voru hrifnir af grilluðu andakjöti.

Pekingönd varð hirðréttur kínversku keisarahirðarinnar þúsund árum eftir Krist en indíánar Norður-Ameríku ófu gerviendur úr sefi sem tálbeitur við andaveiðar á svipuðum tíma.

Fram á nítjándu öld voru endur nær eingöngu aldar vegna kjötsins en lítið vegna eggjanna. Í dag er andadúnn og andafiður dýrt og vinsæl fylling í sængurfatnað. Endur eru einnig ræktaðar sem skrautfuglar.

Aliendur geta lifað góðan áratug í góðu yfirlæti en líftími þeirra er að öllu jöfnu fimm til sjö ár.

Foie gras

Í Frakklandi og eflaust víðar eru endur ræktaðar til framleiðslu á foie gras, eða andalifur. Dæmi eru um að fóðri sé neytt ofan í endur sem aldar eru vegna foie gras með trekkt til að fita lifrina á sem skemmstum tíma. Slíkar aðferðir eru bannaðar í flestum löndum Evrópu nema Frakklandi þar sem hún er leyfð á grundvelli þess að eldisaðferðin byggi á gömlum hefðum.

Í Víetnam er andablóð notað í rétt sem kallast tiet canh.

Andaregg

Stærð eggja alianda er mismunandi milli stofna en í flestum tilfellum eru þau eilítið stærri en meðalstórt hænuegg. Litur skurnarinnar er einnig breytilegur og getur verið allt að því svartur en er yfirleitt ljósblágrænn. Skurnin er þykkari en skurn hænueggja og rauðan í andareggjum er hlutfallslega stærri en rauða hænueggja.

Meðalvarp Pekingandarkollu er 200 egg á ári.

Útlit og hegðun

Skrokkur anda er í grófum dráttum ílangur og breiður og með langan háls. Vængirnir eru stuttir. Goggurinn breiður og stundum er sagt að fólk sé með andanef sé nefið á því framstætt og flatt. Í goggi anda eru skíði sem þær geta síað fæðuna með líkt og skíðishvalir. Fæturnir, sem eru stuttir en sterkir, eru aftarlega á skrokknum og með sundfit.

Flestar villiandategundir verða tímabundið ófleygar vegna þess að þær fella flugfjaðrirnar. Leita þær þá uppi örugg svæði þar sem nægt æti er að finna. Fjaðrafellir er venjulega undanfari fars hjá farfuglum.

Margar andategundir sem verpa á norðurhveli jarðar eru farfuglar en aðrar staðfuglar. Sumar tegundir, þar sem regn er ótryggt, lifa flökkulífi og leita uppi tímabundin vötn og polla sem myndast við staðbundið regn.

Hljóð anda kallast kvak og samkvæmt þjóðtrú bergmálar andakvak ekki.

Frægar endur

Endur koma víða við í málverkum bæði sem lifandi fuglar eða bráð og flestir Íslendingar þekkja sögu H. C. Andersen um litla ljóta andarungann sem reyndist vera svanur þegar hann varð stór.

Tvær endur bera af þegar kemur að frægð, Andrés og Daffy. Andrés Önd og fjölskylda hans, Rip, Rap og Rup, komu fyrst fram í teiknimyndum Walt Disneys og nutu síðar og njóta enn gríðarlegra vinsælda hér á landi í samnefndum skrípóblöðum. Daffy kom fram á sjónarsviðið sem persóna sem Tex Avery teiknaði fyrir Warner Bros. Munurinn á þessum persónum er að Andrés er fremur seinheppinn og á köflum geðstirður heimilisfaðir en Daffy er hreint út geðveikur.

Gúmmíendur

Framleiðsla á gúmmíöndum sem leikfangi hófst skömmu eftir að Goodyear fann aðferð til að herða gúmmí. Fyrstu gúmmíendurnar voru gegnheilar og svo þungar að þær sukku í vatni.

Módelgerðarmaðurinn Peter Ganine bjó til fyrstu plast-gúmmíöndina sem flaut skömmu fyrir 1940. Hann fékk einkaleyfi á henni sem fljótandi baðönd og seldi yfir 50 milljón slíkar meðan hann lifði og efnaðist vel.

Í janúar 1992 fór fjörutíu feta gámur með 29.000 gulum plastöndum fyrir borð á flutningaskipi þegar verið var að flytja þær frá verksmiðju Kína til Bandaríkjanna. Auk plastandanna voru í gámnum grænar plastskjaldbökur og bláir plastfroskar. Um það bil tveir þriðju leikfanganna rak á land við strendur Indónesíu, Ástralíu og Suður-Ameríku þremur mánuðum síðar. Einn þriðji þeirra, um 10.000 endur, skjaldbökur og froskar ráku hins vegar með straumum norður á bóginn í átt að Beringssundi þar sem þær frusu í heimsskautaísnum. Með ísnum bárust plastdýrin frosin í íshafinu meðfram norðurheimsskautinu yfir í Atlantshafið. Við bráðnun íssins hafa plastfígúrurnar losnað og fundist við strendur Grænlands, Kanada, Bretlandseyja og hér á landi.

Haffræðingar sem rannsaka hafstrauma sýna leikföngunum mikinn áhuga þar sem fundarstaður þeirra sýnir hvernig hlutir geta borist um heiminn með hafstraumum.

Árið 2007 bjó hollenski myndlistarmaðurinn Florentijn Hofman til tröllvaxna uppblásna gula plastönd, 32 metrar á hæð, 20 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd, stærstu plastöndina í heimi á þeim tíma. Síðan hefur hann búið til nokkrar slíkar sem hafa verið sýndar í höfnum, á vötnum og stórám víða um heim.

Endur á Íslandi

Um hundrað villtar andategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa sautján þeirra og sextán til viðbótar hafa greinst hér sem slæðingar.

Argrímur Jónsson lærði segir í Íslandslýsingu sinni, Crymogæa, frá því, skömmu fyrir aldamótin 1600, að aligæsir eða heimagæsir séu á einstaka bæjum en að almennt þekki Íslendingar ekki aðra alifugla en hænsni og að þau finnist einungis á efnaheimilum.

Ekki er minnst einu orði á alifuglarækt í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því í byrjun átjándu aldar. Alifuglarækt er sögð fátíð í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem kom fyrst fyrir sjónir manna 1772.

Fjölgun og fækkun

Fyrsta opinbera talning alianda hér á landi var gerð 1932 og samkvæmt henni töldust þær 833. Líklega er um vantalningu að ræða því ári eftir eru aliendur á landinu sagðar vera 1.224 og komnar í 2.187 árið 1934 samkvæmt opinberum skýrslum. Árið 1939 teljast aliendur á landinu 1.370. Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar hefur þeim fækkað um næstum helming og árið 1945 teljast þær 777 og enn fækkar þeim, því 1949 er fjöldi þeirra kominn niður í 349. Á sjötta áratugnum er fjöldi alianda á bilinu 200 til 366.

Lengst af og enn í dag eru endur einungis aldar til heimabrúks og fjöldi þeirra takmarkaður hjá hverjum ræktanda. Kjöt af öndum sem hér fæst í verslunum er innflutt og kemur af fuglum sem aldir eru innanhúss í lausagöngu eða í búrum.

Fyrsta andabúið

Í Sögu alifuglaræktar á Íslandi segir að á árunum 1958 til 1964 hafi verið  starfrækt andabú í Álfsnesi á Kjalarnesi og fjölgaði aliöndum á landinu talsvert við það.

Endurnar á búinu klöktust úr eggjum sem fengin voru af dönsku Pekingandakyni. Þegar best gekk var slátrað 200 til 300 fuglum á viku.

Búið skipti um eiganda í miðjum rekstri og við því tók Sigurbjörn Eiríksson, sem oftast er kenndur við veitingahús sem var í Reykjavík og hét Klúbburinn. Hann rak búið til 1964 en þá var rekstrinum hætt.

Skömmu fyrir 1960 flutti Helga Larsen á Engi, sem stóð við Vesturlandsveg, inn endur til kjötframleiðslu. Um svipað leyti voru ræktaðar endur á Litlu-Grund við Grensásveg í Reykjavík, á búi Þorvaldar Guðmundssonar á Minni-Vatnsleysu og hjá Alifuglabúi bakarameistarans.

Taugaveikibróðir greindist í andakjöti

Andakjöt er einstaklega góður matur og bragðið af því engu líkt og hátíðarmatur á fjölda heimila. Kjötið er fremur dökkt og mest er af því á bringunni og leggjunum. Andakjöt hentar vel til ofnsteikingar og á grillið. Auk þess sem lifrin er lostæti. Kjötið, hvort sem er af villtum eða öldum fuglum, er vandasamt í meðförum og við eldun vegna þess hversu algengar sýkingar í því eru. Ráðlegast er að meðhöndla það gætilega og elda rétt.

Árið 2000 greindist taugaveikibróðir (Salmonella typhimurium) í innfluttum andabringum og andaleggjum hér á landi. Varan var ekki farin í sölu í matvöruverslunum en var á boðstólum á veitingahúsum. Innflytjandinn hafði aflað tilskilinna leyfa til innflutnings á um 200 kílóum af andakjöti en þegar teknar voru stikkprufur af því til rannsókna kom sýkingin í ljós.

Tveir greindust með sýkingu árið 2011 eftir að hafa neytt andakjöts sem smyglað hafði verið til landsins frá Hollandi. Sýkingin stafaði af Salmonellu enteritidis sem getur valdið mjög alvarlegum sýkingum og jafnvel dauða.

Með góðum vilja og votti af gálgahúmor má segja að menn hafi hér sloppið vel eftir að hafa staðið fárveikir með öndina í hálsinum.

Síðasta andabúið

Reynir Sigursteinsson bóndi rak andabú að Hlíðabergi á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu í áratug en brá búi 2013 af heilsufarsástæðum. Reynir segir endur skemmtilega fugla og gaman að rækta þær hafi menn til þess góðan tíma.

„Þegar mest var vorum við með um 3.000 endur í húsi og slátruðum milli 400 og 500 fuglum á viku og eftirspurnin var mikil. Stofninn var hvít Pekingönd sem við klöktum úr eggjum frá Cherry Valley á Bretlandi en eftir að ræktunin var komin af stað klökum við ungum líka úr eigin eggjum. Eftir klak er fuglinn alinn í um það bil sjö vikur í sláturstærð.“

Samkvæmt haustskýrslum Matvælastofnunar 2015 var fjöldi alianda á landinu 794.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...