SS stækkar við sig
Fyrirhugað er að byggja nýja afurðastöð vestan og norðan við núverandi sláturhús SS en gert er ráð fyrir að stækkunin geti orðið allt að 6.000 m2, þar sem 2000-2500 m2 verða byggðir í fyrsta áfanga.
„Það er verið að undirbúa byggingu á nýju stórgripasláturhúsi með möguleika á að byggja síðar við sauðfjárlínu.Verkið er í vinnslu. Það liggur ekki fyrir kostnaðaráætlun, tímaáætlun eða þess háttar. Við eigum stóra lóð á Selfossi og það sem fer í þessa byggingu nýtir einnig annað sem er á lóðinni,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri SS, aðspurður um fyrirhugaðar framkvæmdir á Selfossi.
Skipulagsnefnd Árborgar tók nýlega fyrir erindi frá Landform á Selfossi fyrir hönd Sláturfélags Suðurlands þar sem lögð var fram skipulagslýsing, sem tekur til breytingar á aðalskipulagi Árborgar 2020–2036, ásamt nýju deiliskipulagi fyrir iðnaðarlóð í landi Fossness. Skipulagsnefnd mælist til þess við bæjarstjórn Árborgar að samþykkja framlagða skipulagslýsingu til kynningar og umsagna í samræmi við skipulagslög.
