Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
„Ég er alsæl með að vera komin norður aftur, þannig að betra gerist það varla, að vera í skemmtilegri vinnu með frábæru fólki og hafa fjölskylduna í næsta nágrenni.  Þetta er bara draumur í dós,“ segir Erna Kristín sem stendur hér við afgreiðsluborðið.
„Ég er alsæl með að vera komin norður aftur, þannig að betra gerist það varla, að vera í skemmtilegri vinnu með frábæru fólki og hafa fjölskylduna í næsta nágrenni. Þetta er bara draumur í dós,“ segir Erna Kristín sem stendur hér við afgreiðsluborðið.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 22. september 2015

Spennandi verkefni að byggja upp nýtt hótel

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Erna Kristín Hauksdóttir er hótel­stjóri á Hótel Kjarnalundi, nýju hóteli sem opnað var fyrir gestum 22. júní síðastliðinn í Kjarnaskógi við Akureyri. 
 
„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur frá því við opnuðum og það er ekki síst að þakka góðum og samhentum hópi starfsfólks. Það er mikið lán að hafa á að skipa svo frábæru starfsfólki, hér er valinn maður í hverju rúmi og það skiptir sköpum,“ segir Erna.
 
Starfsemin fer vel af stað, hótelið er vel bókað út sumarið. „Staðsetningin skapar okkur nokkra sérstöðu, við erum umvafin fallegri náttúru sem gestir kunna vel að meta, þeir endurnærast á sál og líkama í námunda við afslappað umhverfi skógarins.“
 
Erna Kristín flutti til Akureyrar á liðnu vori til að taka að sér stjórn hins nýja hótels. Segja má að hún sé að leita í heimaslóðir á nýjan leik eftir nokkurra ára fjarveru, en hún ólst upp á Skeiði, næst innsta bænum í Svarfaðardal. Þar var í hennar barnæsku rekið loðdýrabú, bæði með refi og minka. Samhliða því var einnig rekið sauðfjárbú eða þar til riðuveiki kom upp í dalnum sem olli því að fé var skorið niður, m.a. á Skeiði, og bændur þar tóku upp nýja búgrein, loðdýrarækt. Síðar þegar halla fór undan fæti í þeirri grein brugðu foreldrar hennar búi og fluttu til Dalvíkur.
 
Beið ekki skaða af dvölinni á heimavistinni
 
„Þegar ég horfi til baka var þetta yndislegur tími og ég er þakklát fyrir að hafa alist upp í sveit, en man samt að mér þótti það ekki sérlega skemmtilegt á miðju gelgjuskeiði. Þá fannst manni þetta dálítið of afskekkt,“ segir Erna Kristín. 
 
Á þeim tíma sem hún var að alast upp sóttu börnin grunnskólanám í Húsabakkaskóla. Heimavist var þá enn við lýði og börnin dvöldu í skólanum frá mánudegi til föstudags. „Ótrúlegt en satt, flestir komu heilir út úr þeirri vist,“ segir hún, en heimavistir hafa nú verið aflagðar alls staðar á landinu. „Mér líkaði bara vel að vera á heimavist og hlaut ekki skaða af, þvert á móti kenndi það mér margt, eins og að fylgja reglum og taka tillit til annarra, það er ágætt að læra það ungur.“
 
Með bleikt naglalakk í fæðingarorlofið
 
Erna Kristín segir að hún hafi sterkar taugar til sveitarinnar.
 
 „Það blundar alltaf í mér svolítil sveitastelpa, ég velti því oft fyrir mér að gaman væri að prófa á ný að búa í sveit. Besta vinkona mín býr í Reykjadal og þangað kemst ég á hverju vori í fæðingarorlof eins og við köllum það þegar ég mæti í sauðburðinn. Háannatíminn í sauðfjárbúskap, sauðburður, göngur og réttir er tími sem ég kann vel að meta og reyni hvað ég get að taka þátt í. Síðasta vor mætti ég í hótelgallanum með bleikt naglalakk og svissaði mér beint inn í fjárhús eftir að hafa skipt um föt. Það er mjög hressandi og endurnærir hvern mann sem tækifæri hefur á að vera með.“
 
Flestir krakkar úr Svarfaðardal fóru í 10. bekk til Dalvíkur, en sá bekkur var ekki kenndur í Húsabakkaskóla. Erna Kristín valdi hins vegar að ljúka grunnskólagöngunni austur á Laugum í Reykjadal, en þá leið hafði bróðir hennar áður valið. Þar tók hún einnig fyrsta árið í framhaldsskóla, en lauk stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Húsavík árið 1995.
 
„Mig langaði að prófa eitthvað nýtt, flestir fór til Dalvíkur og þaðan til Akureyrar í skóla, en með því að fara austur má segja að ég hafi hoppað yfir Akureyri og hef aldrei átt þar heima fyrr en ég flutti núna í vor. Mér líkaði vel á Húsavík, þetta voru frábær ár, við leigðum saman nokkrir krakkar og skemmtum okkur prýðilega öll framhaldsskólaárin,“ segir Erna Kristín.
 
Lærði bæði mannfræði og sálfræði
 
Eftir stúdentspróf vann hún eitt ár í Reykjavík, en hafði lítið haft af höfuðborginni að segja fram að því, farið þangað í heimsóknir 4–5 sinnum áður. Erna Kristín skráði sig síðan í nám í mannfræði við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi í greininni.
 
„Mannfræðin er áhugaverð og skemmtileg grein, en ég vissi alltaf að ég myndi ekki starfa við hana, hún er hins vegar ágætis veganesti út í lífið,“ segir hún. Því tók hún þá ákvörðun að læra líka sálfræði og sá fyrir sér að starfa sem sálfræðingur. 
 
„Ég ætlaði að opna stofu, mér fannst það heillandi tilhugsun að reka eigin sálfræðistofu og vinna frá 10 til 2,“ segir hún og brosir við tilhugsunina. 
 
Eftir að hafa einnig lokið BA-prófi í sálfræði fór Erna Kristín í meistaranám í félagssálfræði í Amsterdam í Hollandi.
 
„Ég sótti þar um, fékk inngöngu, pakkaði niður og fór út,“ segir hún, en þetta var árið 2007. Allt á uppleið og búið að fullvissa hana um að næg verkefni á hennar sviði biðu á Íslandi að námi loknu. Það fór á annan veg, efnahagshrun haustið 2008 hafði í för með sér að hvarvetna var skorið niður og fátt um atvinnutækifæri fyrir nýútskrifaða sálfræðinga.
 
„Menn hvöttu mig nú bara til að halda mig úti, vera ekki að koma heim, þangað væri ekkert að sækja. Ég fór eftir þeim ráðum og leitaði að vinnu úti,“ segir hún en m.a. starfaði hún á írskum bar í Amsterdam og líkaði vel. Ákvað svo að halda áfram námi og komst að sem doktorsnemi við háskóla í Leuven í Belgíu þangað sem hún hélt í febrúar 2010.
 
Doktorsnámið átti ekki við mig
 
„Fljótlega eftir að ég hóf vinnu við doktorsverkefnið fann ég að þetta átti ekki alls kostar við mig, ég var hvorki alsátt við verkefnið sjálft né leiðbeinandann. Ég sá því sem betur fer fljótlega að mér líkaði ekki nægilega vel til að vilja sinna þessu í fjögur ár bara til að ljúka náminu. Þannig að ég ákvað að hætta fremur en að halda áfram með hálfum huga. Ég er sátt við þá ákvörðun,“ segir Erna Kristín. Hún dvaldi þó áfram í Belgíu og vann m.a. við að byggja upp nýtt Park Inn hótel þar í landi ásamt fleira fólki.
 „Ég kom heim og fékk vinnu á dvalarheimili í Reykjavík, það er yndislegt að starfa með gamla fólkinu og mjög gefandi, nema hvað það gefur ekki mikið í vasann,“ segir hún. Hugurinn leitaði norður yfir heiðar þar sem fjölskyldan býr og hún var að skima eftir starfi á þeim slóðum þegar hún rakst á auglýsingu þar sem óskað var eftir starfsfólki á nýtt hótel, Kjarnalund, sem var að hefja starfsemi.
„Ég sótti um, fór í viðtal og út úr því kom að ég var ráðin í stöðu hótelstjóra. Ég pakkaði því niður í snarheitum og flutti norður.“
 
25 ný herbergi fyrir næsta sumar
 
Hótel Kjarnalundur er 46 herbergja hótel, í jaðri Kjarnaskógar, vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa, ein svíta er á hótelinu en annars eru misstór herbergi, frá 12 fermetrum upp í 25, þannig að gestir geta valið á milli herbergja í ólíkum verðflokkum. Gott aðgengi er fyrir fatlaða á hótelinu og eru 6 herbergi sérútbúin fyrir hjólastóla.
 
Á annarri hæð hússins er veitingasalur sem tekur 80 manns í sæti, morgunverður er þar í boði og sjá starfsmenn um hann, en Kaffi Torg sér um kvöldverðarhlaðborð fyrir gesti. „Það samstarf hefur gengið ofsalega vel,“ segir Erna Kristín, en til framtíðar er fyrirhugað að opna veitingasalinn fyrir almenna gesti. 
„Við erum smám saman að byggja upp, tökum þetta skref fyrir skref,“ segir hún. Í náinni framtíð stendur einnig til að koma upp heilsulind á hótelinu með heitum pottum, infrarauðum saunaklefa, nuddherbergi og líkamsræktarsal. Þegar er byrjað að bjóða upp á nudd á hótelinu.
 
„Við höfum ýmislegt á prjónunum og eigum eftir að gera fleiri breytingar. Það stendur til að taka úr umferð innisundlaug sem er á fyrstu hæð hússins og koma þar upp herbergjum. Líkast til verður unnið við það í vetur og þá bætast a.m.k. 12 herbergi við hjá okkur næsta sumar,“ segir Erna Kristín. 
„Við erum ekki aðilar að neinni hótelkeðju, þetta er nýtt og sjálfstætt hótel og skapar okkur svigrúm til að þróa starfsemina eftir eigin höfði.“
 
Spennandi verkefni að byggja upp frá grunni
 
Hótelið verður opið allt árið og segir hún að ýmsar hugmyndir séu í gangi til að laða að gesti á þeim árstíma. Fjölmargir leggi leið sína norður til að fara á skíði og þá eru fyrir hendi í Kjarnaskógi troðnar skíðagöngubrautir sem vel eru nýttar. Jólahlaðborð eru á döfinni, tekið verður á móti starfsmannafélögum og fyrirtækjum sem vilja halda árshátíðir svo eitthvað sé nefnt. „Það eru margar hugmyndir á lofti og við munum vinna úr þeim á næstu vikum,“ segir hún.
 
„Þetta er spennandi verkefni og ég er þakklát fyrir það tækifæri sem bauðst við að byggja upp þennan hótelrekstur frá grunni. Og ég er alsæl með að vera komin norður aftur, þannig að betra gerist það varla, að vera í skemmtilegri vinnu með frábæru fólki og hafa fjölskylduna í næsta nágrenni. Þetta er bara draumur í dós.“ 

3 myndir:

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...