Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Epla- og brómberjahröngl.
Epla- og brómberjahröngl.
Matarkrókurinn 16. desember 2016

Spennandi jurtafæðisréttir á jólunum

Sífellt fleiri vilja bæta meira grænmeti við mataræði sitt og sumir fara alla leið og taka upp vegan mataræði sem er án allra dýraafurða. Ástæðurnar eru margar, hjá sumum er það umhverfisvernd, aðrir bera hag dýra fyrir brjósti og svo eru það þeir sem líður hreinlega betur líkamlega af jurtafæði. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að ungt fólk fylgi vegan lífsstíl og hafa foreldrar oft áhyggjur af því að börnin þeirra fái ekki nóg prótein, kalk og járn sem flestir sækja sér úr dýraafurðum auk þess sem þá skortir hugmyndir til að elda góða og einfalda rétti úr jurtaríkinu. 

Ein þeirra sem skipti algerlega yfir í glútenlaust jurtafæði af heilsufarslegum ástæðum er Ella Mills sem fékk lausn á sínum veikindum með breyttu mataræði, en hún þjáðist af stöðubundinni hjartsláttartruflun sem lýsir sér með auknum og óreglulegum hjartslætti og algjöru orkuleysi og vanlíðan. 
 
Hún rekur einnig veitingastaði í London og framleiðir vörur undir eigin nafni og heldur úti bloggi á slóðinni deliciouslyella.com.
 
Í bókinni hennar, Ómót­stæðileg Ella, sem er nýkomin út á íslensku í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur, deilir hún uppskriftum að ýmsum gómsætum réttum og eyðir mýtunni um að grænmetismatur sé bragðlaus og óspennandi. 
 
Hér eru uppskriftir að ljúffengum grænmetisréttum úr smiðju Ellu sem myndu sóma sér vel á hvaða hátíðarveisluborði sem er. Með þeim má að sjálfsögðu bera fram kjöt fyrir þá sem eru ekki tilbúnir að sleppa alveg takinu á því. Verði ykkur að góðu!
 
 
Fylltir kastaníusveppir
Fyrir fjóra
 
Það besta við þennan rétt er hvernig sólþurrkaða tómata- og furuhnetufyllingin bráðnar inn í sveppina þegar þeir bakast, það er himneskt.
 • 12 kastaníusveppir 
 • 1 stór bolli sólþurrkaðir tómatar (180 g) 
 • góð handfylli af ferskri basilíku 
 • ¾ stór bolli furuhnetur (100 g) 
 • 2 msk. tahini 
 • safi úr 1 límónu 
 • salt og pipar
Aðferð
Hitið ofninn í 200°C (blástur 180°C).
Fjarlægið stilkana úr sveppunum og raðið þeim á bökunarplötu.
Brytjið sólþurrkaða tómata og basilíku, blandið þeim síðan saman við furuhnetur, tahini, límónusafa, salt og pipar.
Fyllið sveppina með blöndunni og stráið afganginum ef einhver er í kringum sveppina.
Stingið sveppunum í ofninn og bakið í 15-20 mínútur þar til þeir eru mjúkir og gómsætir. 
Gott ráð
Prófið að nota sólþurrkuðu tómatablönduna fyrir pastasósu í staðinn fyrir að fylla sveppina með þeim – það er stórkostlega gott!
 
Kryddlegið grænkálssalat
Fyrir fjóra
 • stór poki grænkál (250 g) 
 • 2 límónur 
 • 4 msk. tahini 
 • 3 msk. tamarisósa 
 • 2 msk. ólífuolía 
 • ½ stór bolli granateplafræ (120 g) 
 • salt og pipar
Aðferð
Rífið grænkálslaufin af stilkunum í salatskál.
Kreistið safa úr límónum og bætið honum út í skálina ásamt tahini, tamarisósu og ólífuolíu.
Nuddið salatsósunni vel inn í grænkálið. Eftir nokkrar mínútur ættirðu að finna grænkálið gefa eftir og mýkjast.
Bætið nú við granateplafræjum. 
 
Gott ráð
Prófið að gera salatið matarmeira með því bæta við ofnbökuðu grænmeti eins og sætum kartöflum, eggaldin eða gulrótum. Þið getið líka bætt við avókadó til að fá með svolitla viðbót af mjúku lostæti, eða graskers- eða sólblómafræjum fyrir meira prótein og eitthvað stökkt undir tönn.
 
Epla- og brómberjahröngl
Fyrir fjóra
 
Yfirlagið
 • 1 stór bolli möndlur (200 g) 
 • 1 ½ stór bolli hafrar (180 g) 
 • 3 kúfaðar msk kókosolía 
 • 1/3 stór bolli hlynsíróp (100 ml) 
 • 2 tsk. kanill 
 • Undirlagið 
 • 6 rauð epli 
 • 2 stórir bollar brómber (400 g) 
 • 1 msk. hlynsíróp 
 • 1 tsk .kanill
Yfirlagið 
Malið möndlur í matvinnsluvél í nokkrar mínútur þar til þær verða að mjöli, setjið það síðan í skál ásamt höfrum.
Hitið kókosolíu, hlynsíróp og kanil hægt og rólega í potti þar til allt hefur bráðnað vel saman. Hellið yfir hafra- og möndlublönduna og hrærið þar til öll þurrefnin eru þakin. Undirlagið Þegar yfirlagið er tilbúið afhýðið þið eplin og skerið kjarnana frá, skerið þau síðan í litla bita. Setjið þau í pott ásamt brómberjum, hlynsírópi, kanil og sjóðandi vatni sem hylur botninn í pottinum, um einn sm.
Setjið lok á pottinn og leyfið ávöxtunum að krauma í um 10 mínútur þar til þeir eru mjúkir og fínir. Hitið ofninn á meðan í 200°C (blástur 180°C).
Færið ávextina í ofnfast form og stráið hrönglinu yfir. Bakið í 25–30 mínútur þar til það er orðið fallega brúnt. Berið fram og njótið! 
 
Gott ráð 
Prófið að borða afgangana af hrönglinu í morgunmat með smá kókosjógúrt eða möndlumjólk – það er svo ljúffengt! 
 
Bananaís - fyrir fjóra
Eins-hráefnis bananaís er mesta töfrauppskrift sem ég hef nokkru sinni búið til. Í fyrsta skipti sem ég lagaði hann dansaði ég í alvörunni um í eldhúsinu og söng af gleði því að hann bragðast nákvæmlega eins og ís. Raunar er hann kannski enn ljúffengari þar sem áferðin er mýkri og rjómakenndari. Ég veit að það er erfitt að trúa því að frosnir bananar geti orðið að ís án þess meira að segja að nota ísvél en trúið mér – þið verðið svo hrifin! Mér finnst gott að gera hefðbundnu útgáfuna en þið getið líka lífgað upp á ísinn og bætt við frosnum berjum til að búa til berjabragð, eða döðlum og möndlusmjöri fyrir karamelluútgáfuna. 
 • 8 mjög þroskaðir bananar (1,3 kg) 
Afhýðið bananana og skerið þá í þunnar sneiðar.
Setjið sneiðarnar í skál inn í frysti í að minnsta kosti sex klukkustundir.
Takið þá út úr frystinum þegar þið eruð tilbúin að búa til ísinn og leyfið þeim að standa við stofuhita í fimm mínútur eða svo.
Blandið bananana í matvinnsluvél í mínútu eða tvær, þar til þeir eru orðnir alveg mjúkir og dásamlegir. Þá bætið þið frosnum berjum saman við ef þið viljið, eða döðlum og möndusmjöri ef þið viljið, og blandið.
 
Gott ráð 
Látið bananana verða virkilega ofþroskaða áður en þið frystið þá – það gerir ísinn enn mýkri. Þetta er frábær leið til að nota gamla banana því að þeir geymast í frysti vikum saman svo að þeir bíða þín þegar íslöngunin vaknar! 
 
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi
Fréttir 29. nóvember 2021

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfsstæðisflokks og Vi...

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2021

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun fimmtudaginn 21. október en l...

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...