Smala vegna hættu á flóðum
Bændur í Öxarfirði smöluðu í gær og í fyrradag fé af Austur-Sandi í Öxarfirði en fari að gjósa í Bárðarbungu er talin hætta á að hlaup fari niður farveg Jökulsár á Fjöllum. Ef svo yrði væri hætta á að fé á svæðinu lokaðist inni vegna vatns. Um 200 lambær eru voru á svæðinu, einkum af bæjunum Ærlæk og Ærlækjarseli.
Jón Halldór Guðmundsson bóndi á Ærlæk í Öxarfirði segir að ekki hafi verið um neitt annað að ræða en að smala svæðið. „Um hádegi í fyrradag hækkuðu Almannavarnir viðbúnaðarstig og þá fórum við í að smala á því svæði sem mest er hætta á að fari undir vatn. Það þarf í raun ekki mikið gos til að það verði ógjörningur að ná fénu. Jökulsá á Fjöllum breytti um farveg í nálægt aldamótunum þar síðustu en áður hafði hún runnið austar í þremur kvíslum. Féð gat því lokast af ef kæmi hlaup og áin færi að renna í gömlu kvíslunum líka. Ef það kemur mikið flóð gæti fé orðið undir vatni en jafnvel þó að að flóðið yrði ekki stórt þá væri féð innilokað.“
Ef byrjar að gjósa í Bárðarbungu er gert ráð fyrir að það taki um tíu tíma fyrir vatn að berast til byggða í Öxarfirði svo úr verði flóð. „Ef það byrjar að gjósa að kvöldlagi yrði hreinlega of seint að bregðast við þannig að það kom ekki annað til greina en að smala núna. Það er líka orðið það áliðið árs að það er ekkert stórmál að taka féð heim.“
Bændur í Ærlækjarseli voru nú í morgun að smala fé í heimalandi og hyggjast flytja það upp í sveit en Ærlækjarsel er á svæði þar sem ætla má að vatn flæði komi til goss.
Í morgun funduðu fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Almannavarna og landbúnaðarráðuneytisins þar sem farið var yfir stöðu mála. Á fundinum voru ekki teknar ákvarðanir um neinar aðgerðir en áfram verður fylgst grannt með gangi mála.