Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Smá pistill um landnámshænur
Á faglegum nótum 15. mars 2017

Smá pistill um landnámshænur

Höfundur: Björk Bjarnadóttir umhverfisþjóðfræðingur
Í Brennholti í Mosfellsdal búa menn og skepnur og þar á meðal eru átta landnámshænur sem heita: Rauður, Pönkí, Rósa, Dama, Vofa, Brussa, Brúska og Gýpa.  Pönkí er okkar uppáhalds hæna vegna þess að hún er einstaklega gæf og mjög klár. 
 
Við höfum haft hænur í fjögur ár. Það var mikið ævintýri að fá hænur fyrst í Brennholt. Við fengum stofninn upphaflega frá móður minni, Huldu Leifsdóttur á Blönduósi, sem er með vottaðar landnámshænur.  Ég tók einnig þá stefnu að rækta einungis fugla eftir gildandi reglum um viðurkennd útlits- og atferliseinkenni landnámshænsna. Þann 8. janúar árið 2015 fengum við svo vottun frá Eigenda- og ræktendafélagi landnámshænsna um að okkar fuglar væru íslenskar landnámshænur. Þeir sem vilja lesa sér meira til um íslensku landnámshænuna er bent á vefsíðuna www.haena.is og þar er einnig hægt að nálgast upplýsingar um þá sem selja hænur og frjóvguð egg. 
 
Pavarottí, Lukka og Kókoshneta í sumarblíðunni að spóka sig.
 
Fóður og matarsóun
 
Hænur borða ekki allt en flest það sem er mjúkt undir gogg eða bragðgott rífa þær í sig. Okkar hænur ganga lausar um svæðið sumar sem vetur og borða fjölbreytt fæði úti við, síðan gefum við  þeim t.d. lífrænt vottað fóður, matarafganga heimilisins en súkkulaðikökur og gamall þeyttur rjómi eru efst á óskalistanum. Matarsóun er mikið í umræðunni þessa dagana. Við eigum gott samstarf við grænmetisveitingastað í Reykjavík sem gefur okkur afganga og grænmetisafskorninga sem fara til hænsnanna og það sem þær borða ekki fer í safnhauginn, sem síðan umbreytist í næringarríka mold. Það fylgir því mikil gleði að geta lagt eitthvað af mörkum sem kemur öllum til góðs, sem er t.d. minna sorp hjá veitingahúsinu, fjölbreytt næring fyrir dýrin og auðgun jarðvegs.
 
Hænsnakofinn
 
Þegar hænsnakofinn var byggður var ákveðið að kaupa sem minnst af hráefninu en nota það sem til væri. Sem var gamalt en gott bárujárn, steinull, naglar og timbur, hins vegar þurfti að kaupa tjörupappa, skrúfur og hænsnanet. 
 
Hænsnakofinn er vel einangraður og hafa þær eina hitaperu sem gefur mikið ljós og góða hlýju. Einn dallur er inni í kofanum fyrir fóður, annar fyrir skeljasand, þriðji fyrir vatn og sá fjórði fyrir matarafganga. Prikin sem þær sofa á eru úr stórum trjágreinum sem komu við grisjun þeirra trjáa sem vaxa hjá okkur.
 
Dagur í lífi hænsnanna í Brennholti
 
Á morgnana er opnað fyrir þeim, egg tekin, vatnsdallur þrifinn og allir fá nóg að borða. Mjög mikilvægt er að hafa dallana þeirra hreina. Yfir veturinn fá þær að vera í heitu gróðurhúsi á daginn sem er mikill kostur fyrir þær því þar geta þær valsað um, borðað skordýr og farið í moldarbað, svo þegar tekur að dimma þá rölta þær yfir í hænsnakofann. Á sumrin eru þær frjálsar úti um allan garð en gróðurhúsið er lokað. Hænur geta skemmt fögur blómabeð, tætt í sig girnilega salathausa og rifið upp lauka sem nýbúið er að setja ofan í jörðina. Þannig að við girðum fyrir þá staði sem þær mega ekki snerta. 
 
Að fela eggin
 
Hænurnar okkar hafa tekið upp á því að fela eggin sín og helst yfir sumartímann. Okkur er það hulin ráðgáta hvernig þær komast að samkomulagi um felustaðinn og seinustu fjögur sumur höfum við leitað að eggjum. Við höfum fundið allt upp í 25 egg falin undir trjám, inni í plastfötum eða inni í blómahafi. Þegar við finnum eggin tökum við þau flest og merkjum þau sem skilin eru eftir en hænurnar eru naskar og sjá að hruflað hefur verið við staðnum þeirra og finna sér nýjan felustað. Að finna eggin krefst þess að fylgjast með þeim laumast á felustaðinn sem getur tekið tíma því þær eru mjög varkárar og fela egg helst þegar engin mannvera er í augsýn. 
 
Óvinurinn
 
Mesti óvinur okkar hænsna er minkurinn. Við lentum í því sumarið 2015 að missa allar tíu fallegu hænurnar okkar, sem var mikill skaði. Læða með hvolpa fannst sem hafði búið sér til greni rétt við hænsnakofann í árbakka. 
 
Við höfðum gert mistök í byggingu kofans með að hafa ekki sett hænsnanet í gólfið, en minkurinn hafði grafið sig inn í kofann, úr þessu var bætt strax og kofinn gerður minkheldur.
 
Við ákváðum að fá okkur aftur hænur því sjaldan hefur Brennholt verið tómlegra en þegar vantaði hanagalið og litlar hænur að skjótast um garðinn og njóta lífsins úti í náttúrunni. 
 
Að fá sér hænur
 
Að fá sér íslenskar landnámshænur hefur ótal kosti í för með sér. Þú hjálpar til við að styrkja fornan hænsnastofn og kynnist alls kyns fólki sem hefur áhuga á landnámshænum. Einnig geta hænur  unnið með okkur í því að minnka matarsóun, þær færa skemmtilega viðbót í útistörfin, eggin þeirra eru dásamleg á bragðið og síðast en ekki síst þá eru þær stórkostlega fyndnar og skemmtilegar.
 
Engin hæna er eins hvað varðar útlit eða persónuleika. Við mælum með því að fólk fái sér íslenskar landnámshænur frá þeim sem eru vottaðir ræktendur.
 
Með von um gott sumar fyrir alla ræktendur á Íslandi.
 
Björk Bjarnadóttir
umhverfisþjóðfræðingur.
Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi
Fréttir 8. júní 2023

Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi

Fjárveitingar til viðhalds á tveimur varnarlínum sauðfjársjúkdóma milli Miðfjarð...

Nýr lausapenni
Fréttir 8. júní 2023

Nýr lausapenni

Umfangsmeira Bændablað kallar á mannafla og er Þórdís Anna Gylfadóttir nýr liðsf...

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts
Fréttir 8. júní 2023

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts

Samdráttur í nautakjötsframleiðslu nú er afleiðing lægra afurðaverðs árið 2021 a...

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá
Fréttir 8. júní 2023

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá

Nú er ljóst að eina staðfesta riðuveikitilfellið á Urriðaá í Miðfirði var í kind...

Ályktað um innflutning og upprunamerkingar
Fréttir 8. júní 2023

Ályktað um innflutning og upprunamerkingar

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga, sem haldinn var á Sauðárkróki þann 6. júní s...

Eftirmál riðuveiki
Fréttir 8. júní 2023

Eftirmál riðuveiki

Sauðfjárbændurnir á Urriðaá og Bergsstöðum í Miðfirði standa saman í erfiðum sam...

Óvissa um starfsemi BÍL
Fréttir 7. júní 2023

Óvissa um starfsemi BÍL

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga (BÍL) lýsir yfir vonbrigðum með drátt ...

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...