Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fjallað er um Raufarhöfn í ritverkinu, en þar var ein af helstu söltunarstöðvum landsins á síldarárunum.
Fjallað er um Raufarhöfn í ritverkinu, en þar var ein af helstu söltunarstöðvum landsins á síldarárunum.
Á faglegum nótum 14. nóvember 2016

Sléttunga – Safn til sögu Melrakkasléttu og Raufarhafnar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Nýverið kom út ritverkið Sléttunga – safn til sögu Melrakkasléttu og Raufarhafnar, sem er þriggja binda ritverk eftir Níels Árna Lund. Höfundurinn er fæddur og uppalinn á Miðtúni á Melrakkasléttu en hefur sl. 30 ár starfað í Stjórnarráðinu, því ráðuneyti sem hefur farið með landbúnaðarmál. 
 
Níels Árni hefur unnið að þessu verki sl. sex ár í frístundum sínum og útkoman er verulega fallegar og fróðlegar bækur um þetta hérað þar sem byggð hefur dregist mjög saman á síðustu áratugum og fjöldi bújarða nú einungis nýttar til sumardvalar.
 
Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins, og höfundurinn Níels Árni Lund með þriggja binda ritverk sitt sem hann mætti með í Bændahöllina. Mynd / smh
 
Í Sléttungu eru yfir 1000 ljósmyndir með myndatextum af öllum gæðum og gerðum og segja meira en mörg orð. Þá fylgir bókunum ítarleg nafnaskrá þannig að fólk á að geta flett upp nöfnum sem koma fyrir.
 
Það vantaði að skrifa um hina bæina á Sléttu
 
− Níels Árni – hver var kveikjan að þessu ritverki þínu?
„Að stórum hluta má rekja það til þess að fyrir 6 árum skrifaði ég bókina Af heimaslóðum – brot af sögu foreldra minna, Helgu og Árna Péturs í Miðtúni og samfélagsins við Leirhöfn á Melrakkasléttu“. Þótt saga foreldra minna væri í fyrirrúmi, var ég að segja frá lífinu eins og ég upplifði það, á Leirhafnartorfunni þar sem voru um tíma tíu heimili, nú aðeins eitt. Margir þökkuðu mér bókina –  sögðu hana góða – en bættu svo við „það vantar að skrifa um alla hina bæina á Sléttu“.
 
Ég þekkti byggðina á Sléttunni meðan hún var og hét upp á sitt besta og ég óttaðist að nú, eftir að búskap hefur verið hætt á nær öllum bæjum, myndi sagan hverfa ef ekkert yrði að gert og það gat ég ekki horft upp á aðgerðarlaus.
 
Fjölmargir leggja leið sína um þessa nyrstu byggð landsins – virða fyrir sér umhverfið og náttúruna í öllu sínu skarti; jafnt flóru sem fánu – en vantar söguna – og sagan, saga hvers héraðs, er uppistaða menningu okkar lands.“
 
Mikið verk − en ég fékk líka mikla hjálp
 
− Þetta er mikið verk – þrjú bindi með mörgum myndum. Þetta hefur verið mikil yfirlega.
„Vissulega var þetta mikið verk en ég fékk líka mikla hjálp. Í upphafi leitaði ég til fólks af Sléttunni og Raufarhöfn með beiðni um skrif og aðstoð og sömuleiðis til sérfræðinga um kafla um jarðfræði, veður, ár og vötn, gróðurfar, fuglalíf, heilsugæslu, skólamál og fleira og allir tóku mér vel; söguðu einfaldlega já. Fyrir það er ég þakklátur og margir skrifara minna fá þá umbun að hafa ritað kafla um sín æskuheimili. Ég skipti ritinu í þrjú bindi. Í því fyrsta er því að finna fróðleik sérfræðinga um hin ýmsu atriði er varða Melrakkasléttu og þar er einnig sagt frá fjárbúskapnum, fiskveiðum, skipsströndum og hernámsárunum þar nyrðra. Þá ritaði ég ítarlega leiðarlýsingu fyrir ferðamenn sem aka fyrir Sléttu en sífellt fleiri fara þar um og dásama það sem fyrir augum ber. Lifandi frásögn; nöfn bæja, fjalla, kennileita og fólks með blandi af þjóðsögum og öðru slíku festir slíka ferð í huga ferðamannsins.“
 
Fjölbreyttar frásagnir
 
Í öðru bindi er 200 ára saga jarða á Sléttu – það er nokkuð langur tími.
„Já, og ég er ekki viss um að slík saga sé til annars staðar á landinu, Tvö hundruð ára saga er nokkuð langur tími og þessa sögu skrifa ég ekki einn. Ég leitaði í handrit Kristins Kristjánssonar (1885–1971), afa míns frá Nýhöfn á Melrakkasléttu, sem skrifaði um jarðirnar á 19. öld og er einstök heimild um lífið á Sléttunni og þá sem þar bjuggu. Um 20. öldina og fram til þessa dags, fékk ég til liðs við mig gjörkunnugt fólk og bað það að skrifa um sína  jörð; rétt eins og rúta væri að koma í hlað og ferðalangar vildu fræðast um viðkomandi jörð; helstu atburði, vinnubrögð, skemmtanir og daglegt líf.
 
Frásagnirnar eru því fjölbreyttar að gerð – lengd og framsetningu, en það gerir lesefnið skemmtilegt og fjölbreytt að mínu mati. Telja má upp um 50 skráð býli sem skrásett voru á Sléttu. Nú er aðeins stundaður búskapur á tveimur. Vissulega er um brothætta byggð að ræða og fróðlegt að velta fyrir sér ástæðum þess.“ 
 
Raufarhöfn með sína sérstöðu
 
− Er síðasta bókin þá tileinkuð Raufarhöfn?
„Já, Raufarhöfn var í gegnum aldirnar venjuleg bújörð og frá henni og ábúendum jarðarinnar er sagt með sama hætti og aðrar jarðir Sléttunnar. Raufarhöfn hafði hins vegar þá sérstöðu að þar var góð höfn frá náttúrunnar hendi og þangað lögðu kaupmenn snemma leið sína. Raufarhöfn fékk verslunarleyfi konungs 1833 og þangað var flutt frá Þýskalandi feiknarleg bygging og reist þar 1835 – eitt það stærsta ef ekki það stærsta á landinu þá. Þetta hús átti sér langa sögu en brann í miklum eldsvoða 1956. Rakin er saga verslunarinnar og þeirra sem að henni stóðu allt fram á þennan dag. Síðast en ekki síst er sögð saga þorpsins; fiskveiðum, síldarárunum og þeim miklu umsvifum sem síldinni fylgdi, mannlífinu og kaflar eru um skólamál, kirkjuna, félög og þjónustustarfsemi og öðru því er skapaði Raufarhöfn – nyrsta þorp landsins; stað sem malaði gull í ríkiskassann í áratugi en berst nú fyrir framtíð sinni.“
 
Stóð tæpt að safna örnefnum frá staðkunnugum
 
− Örnefnakortin vekja athygli og varla hefur verið sjálfgefið að halda þeim til haga?
„Örnefnakortin í Sléttungu eru sér kapítuli. Þannig var, að til var á hverjum bæ „örnefnaskrá“ þar sem talin voru upp öll helstu örnefni hverrar jarðar. Hins vegar voru þau hvergi skráð á kort. Ég fékk til liðs við mig kortagerðarmann, Hans Hjálmar Hansen, og hjá honum stórt útprentað kort af Melrakkasléttu eins og það er í flestum gagnagrunnum. Þetta kort sendi ég svo fólki sem þekkti best örnefni sinna jarða og niðurstaðan varð sú að í heildina voru kortsett 800–1000 örnefni á Melrakkasléttu sem aldrei hafa verið staðsett áður á kort. Þetta verk stóð tæpt og get ég nefnt að einn heimildarmaður minn lést 10 dögum eftir að hann hafði staðsett 40 nöfn í Rifslandi sem ég fullyrði að enginn annar hefði vitað um nú.“
 
Þakklátur og svolítið stoltur
 
− Ertu sáttur við verkið?
„Já, ég hlýt að vera það; þakklátur svo mörgum og svolítið stoltur yfir að hafa gert þetta verk – sem ég er reyndar sannfærður um að enginn var á leiðinni að gera. Ég náði líka því markmiði mínu að taka saman og skrá og varðveita þannig heilmikla sögu og fróðleik af Melrakkasléttu. Ég er sannfærður um að bókin mun nýtast mörgum, lifa lengi eins og sagt er – því þótt búskap sé hætt að mestu og Raufarhöfn megi muna fífil sinn fegurri – þá er ég viss um að margir munu leggja leið sína um þetta fallega og sérstæða landsvæði og vilja vita sögu þess – nefni ég að mjög margir tengjast héraðinu; eru þaðan ættaðir en einnig höfðar verkið til venjulegra ferðamanna og alls áhugafólks um sögu lands og þjóðar.“
 
Ég á þessu héraði skuld að gjalda
 
− Og hvernig hafa viðtökurnar verið?
„Í einu orði sagt – frábærar. Ég ætlaði mér að selja bækurnar sjálfur og geri það enn á netfanginu lund@simnet.is, en sá fljótt að mér var ómögulegt annað en að setja bækurnar einnig í almenna dreifingu. Þá er ég víða beðinn að koma og segja frá bókunum – eða öllu heldur Melrakkasléttu og Raufarhöfn og það er mér ánægjan ein. Ég á þessu héraði skuld að gjalda – þar fæddist ég – ólst þar upp og hefði hvergi annars staðar viljað hafa átt rætur,“ segir Níels Árni Lund. 

Skylt efni: Byggðasaga | Sléttunga

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...