Sláturfélag Suðurlands greiðir 2% viðbót á allt afurðainnlegg
Sláturfélag Suðurlands hefur tilkynnt að það muni greiða 2% viðbót á andvirði afurðainnleggs ársins 2018 til bænda 8. mars næstkomandi. Í heild nemur viðbótin með virðisaukaskatti 40,9 milljónum króna.
Í frétt á vef SS segir að afkoman hafi verið ágæt á síðasta ári. „Í samræmi við stefnu félagsins um að tengja saman ávinning bænda af góðum hag SS er með þessum hætti miðlað hluta af hagnaði félagsins til innleggjenda. SS sýnir í verki samvinnuhugsjónina með þessum hætti og leggur áherslu á mikilvægi þess að bændur beini viðskiptum til félagsins til að styrkja áfram grundvöll fyrir því að félagið geti greitt viðbót á afurðaverð,“ segir í fregninni.
Fjórar afurðastöðvar hafa áður tilkynnt um viðbótargreiðslur fyrir dilkakjöt úr síðustu sláturtíð; Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga (KS), Sláturhús KVH ehf. (SKVH), SAH Afurðir og Sláturfélag Vopnfirðinga.