Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Héraði.
Eymundur Magnússon, bóndi í Vallanesi á Héraði.
Fréttir 13. júní 2016

Skýrslur teknar af sjálfboðaliðum í Vallanesi

Lögregla tók skýrslur af sjálfboðaliðum við störf hjá Móður Jörð í Vallanesi á fimmtudaginn var. Samkvæmt tilkynningu frá AFLi Starfsgreinafélagi, kvaddi fulltrúi frá Vinnumálastofnun lögregluna á staðinn þegar ljóst var að einhverjir sjálfboðaliðar á staðnum voru hvorki með kennitölur né ráðningasamninga.

Auk fulltrúa frá AFLi og Vinnumálastofnun voru í heimsókninni fulltrúar frá Ríkisskattsstjóra og var tilgangur hennar að kanna skráningu starfsmanna og ráðningakjör hjá Móður Jörð í Vallanesi. Í tilkynningunni frá AFLi segir að við störf hafi fimm sjálfboðaliðar verið við garðyrkjustörf og nokkrir launaðir starfsmenn – flestir erlendir og tiltölulega nýkomnir til landsins. „Tveir starfsmannanna voru með kennitölur en aðrir þrír áttu von á kennitölu næstu daga enda búið að sækja um. Enginn starfsmanna var með undirritaðan ráðningarsamning.

Ekki hefur verið sótt um kennitölur fyrir sjálfboðaliðana - og voru einhverjir þeirra frá löndum utan EES og hafa ekki sjálfkrafa heimild til að sinna störfum á Íslandi án atvinnuleyfis.

Í bréfi Ríkisskattstjóra til Alþýðusambands Íslands 11. mars sl. […] kemur skýrt fram að sjálfboðaliðar sem þiggja hlunnindi - þ.e. fæði og húsnæði eru sjálf skattskyld af verðmæti þeirra hlunninda og fyrirtæki sem tekur við „gjafavinnu“ er skattskylt um sem svarar verðmæti þeirrar vinnu sem er gefin,“ segir í tilkynningunni

Viðurkennd sjálfboðaliðasamtök

Í yfirlýsingu frá Móður Jörð kemur fram að búið hafi notið krafta sjálfboðaliða frá WWOOF samtökunum (World wide opportunities on Organic Farms) til starfa við ræktunina í stuttan tíma í senn.  „WWOOF er alþjóðlegur félagsskapur sem nær til landa allt frá Nýja Sjálandi til Íslands þar sem markmiðin eru að hjálpa bændum að byggja upp lífrænan landbúnað, leyfa ungu fólki að fræðast um lífræna ræktun og efla meðvitund um umhverfisvænan lífsstíl, matarsóun og matvælaframleiðslu.  Íslendingar á ferðalagi erlendis hafa einnig notað þennan ferðamáta í öðrum löndum og teljum við að hér sé tækifæri á mikilvægum menningartengslum. […] Í Vallanesi eru nú 4 starfsmenn, fyrir utan forráðamenn, og þar af eru 3 útlendingar.  Líkt og menn þekkja er  vegna mannfæðar  innlent starfsfólk ekki að finna á svæðinu.  Allt starfsfólk er með  undirritaða ráðningarsamninga.   Einn bíður enn eftir kennitölu en biðtíminn eftir kennitölum hefur verið 6-8 vikur í mörgum tilfelllum.  Starfsmanni AFLS á að vera það ljóst að undirritaðan starfssamning þarf til að sækja um kennitölu og frábiðjum við okkur dylgjur um að hér sé starfsfólk án samninga þó það gangi ekki með þá uppá vasann. […] Við viljum auk þess undirstrika að samtökin sem um ræðir eru viðurkennd sjálfboðaliðasamtök í þágu lífræns landbúnaðar og markmið þeirra eru samfélagslega viðurkennd  m.a. í löndunum í kringum okkur.  Skýrt er kveðið á um skyldur gestgjafa og sjálfboðaliða, sem og vinnufyrirkomulag, áður en til ferðalagsins kemur og dvelur fólkið í stuttan tíma (2-3 vikur að jafnaði) við störf við ræktunina og fegrun staðarins. Skýrt er tekið fram að sjálfboðaliðar eiga ekki að koma í staðinn fyrir launaða starfsmenn og er þess vel gætt enda gæðakröfur við framleiðslu matvæla þess eðlis.  Engar peningagreiðslur mega fara á milli sjálfboðaliða og gestgjafans skv reglum WWOOF, heldur leggur gestgjafi til fæði og húsnæði.  Sjálfboðaliðarnir standa sjálfir straum af ferðakostnaði til landsins enda er hér  um að ræða  fróðleiksfúsa ferðamenn en ekki fólk í atvinnuleit.  Hugtakið svört atvinnustarfsemi á því ekki við hér að nokkru leyti. […]

Þó einhverjar reglur þurfi enn að skýra á Íslandi er það eðlileg krafa  að slíkt sé rætt og mótað af yfirvegun.  Móðir Jörð í Vallanesi mun fara þess á leit við þar til bær  yfirvöld að starfsemi WWOOF  verði viðurkennd hér líkt og í öðrum löndum.  Samtökin veita mjög mikilvægan stuðning við lífrænan landbúnað  og  hvetur ungt fólk til að leggja fyrir sig lífræna ræktun, huga að heilbrigði umhverfis og temja sér umhverfisvænni lífsstíl. […]

Sjálfboðaliðastarf er almennt viðurkennt í flestum löndum og reglum hagað þannig að þær séu skýrar og almennt litið svo á að hér sé um að ræða virkjun ungs fólks til góðra verka og sjálfsagðan kafla í skóla lífsins.  Það væri mikill sjónarsviptir af þessu fólki á Íslandi og leitt ef Ísland getur ekki eins og önnur lönd boðið þá upplifun og lærdóm sem samtök á borð við WWOOF gefa kost á.   Við teljum mikilvægt að þessari tegund sjálfboðaliðastarfs sé fundinn farvegur innan kerfisins,“ segir í yfirlýsingunni.

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.