Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Skylt er að hafa það heldur er sannara reynist
Lesendarýni 28. apríl 2015

Skylt er að hafa það heldur er sannara reynist

Höfundur: Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri.
Aðkoma Landgræðslu ríkisins að landnýtingarþætti gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu hefur að undanförnu verið gagnrýnd opinberlega í ræðu og riti. Landgræðslan og starfsemi hennar er ekki yfir gagnrýni hafin en í þessu máli telur stofnunin gagnrýnina alls ekki réttláta og jafnvel á misskilningi byggða.  
 
Sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra hefur með höndum yfirstjórn gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu og framkvæmd hennar er í höndum Matvælastofnunar. Landgræðsla ríkisins sér samkvæmt samningi við Matvælastofnun um verkþætti sem snúa að landnýtingarhluta gæðastýringarinnar. Hér má nefna mat á ástandi beitarlands samkvæmt matskala þar um, er umsagnaraðili um landbótaáætlanir, fylgist með framkvæmd þeirra og leggur mat á þann árangur sem framkvæmd þeirra skilar. 
 
Þátttakendur í gæðastýringunni þurfa að uppfylla skilyrði um sjálfbæra landnýtingu sem og standast viðmið um ásættanlegt ástand lands. Viðmiðin felast í því að land þátttakenda þarf samkvæmt ástandsflokkun að flokkast þannig að 67% þess þarf að vera í sæmilegu eða betra ástandi. Sé ástandið hins vegar metið þannig að meira en 33% beitarlandsins sé í slæmu eða lakara ástandi þarf að gera landbótaáætlun til úrbóta til allt að 10 ára.
 
Landbótaáætlanir bárust seint
 
Samkvæmt reglugerðinni þurfti að uppfæra þágildandi landbótaáætlanir til samræmis við efni nýrrar reglugerðar fyrir árslok 2014. Landgræðsla ríkisins sendi gögn og leiðbeiningar í júní 2014 til þeirra u.þ.b. 300 sauðfjárbænda sem þurftu að uppfæra áætlanir sínar ásamt áréttingu um það að starfsmenn stofnunarinnar myndu veita aðstoð eins og þeim væri stjórnsýslulega heimilt. Jafnframt voru bændur hvattir til að gera athugasemdir við ástandsflokkun beitarlands ef einhverjar væru og þeir beðnir um að senda landbótaáætlanir sínar til umsagnar hjá stofnuninni fyrir 1. október sl. til að svigrúm gæfist til umsagnarinnar og fyrir hlutaðeigandi bændur til að bæta úr ágöllum ef um það yrði að ræða. 
 
Mjög fáar landbótaáætlanir bárust stofnuninni til umsagnar fyrir 1. október sl.eins og óskað hafði verið eftir. Meginþorri þeirra barst í lok árs 2014 og um áramótin höfðu nokkrar landbótaáætlanir enn ekki borist til umsagnar, þ.e. innan tilskilins frests. Því miður kom það í ljós að mörgum landbótaáætlunum var ábótavant í innihaldi og framsetningu og ekki í samræmi við kröfur í fyrrnefndri reglugerð. Auk þessa voru lagðar fram áætlanir sem ekki fólu í sér að kröfum um sjálfbæra landnýtingu og/eða viðmiðum um ástand lands yrði náð á gildistíma þeirra. Aðrar  áætlanir voru vel úr garði gerðar, framsetning í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og þær stuðla að því að viðmið um sjálfbæra landnýtingu og ástand beitarlands nást á gildistíma þeirra, gangi þær eftir. 
 
Landbótaáætlanir verður að vinna samkvæmt reglugerð
 
Að undanförnu hefur verið uppi meðal nokkurs hóps sauðfjárbænda gagnrýni á Landgræðslu ríkisins vegna umsagna um landbótaáætlanir og einhverjir hafa sagt að stofnunin hafi túlkað reglugerðina vitlaust. Öðrum finnast umsagnir Landgræðslu ríkisins óvægnar og eru ósáttir við niðurstöðurnar. Því er til að svara að Landgræðsla ríkisins fer yfir áætlanirnar með hliðsjón af því sem þær þurfa að innihalda skv. umræddri reglugerð um gæðastýringuna. Þar er m.a. lagt mat á áhrif áætlunar á sjálfbærni landnýtingarinnar og viðmið um ástand beitarlandsins.  Starfsmenn Landgræðslu ríkisins hafa farið í einu og öllu eftir reglugerðinni og þar er ekki um neina túlkun að ræða. Enda bera kröfur forsvarsmanna sauðfjárbænda um að breyta reglugerðinni núna því best vitni.
 
Formaður Landssamtaka sauðfjár­bænda fór ekki með rétt mál
 
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda, LS, dagana 26.–27. mars, vék formaður þeirra ómaklega að Landgræðslu ríkisins í setningaræðu sinni. Það er ekki rétt sem hann sagði í ræðunni að athugasemdir Landgræðslu ríkisins hafi lotið „... að því að landið sem um ræddi þyrfti að vera komið undir viðmiðunarmörkin sem eru í viðauka reglugerðarinnar eftir 10 ár, þ.e. á gildistíma einnar landbótaáætlunar“. Hið rétta er að varðandi verst förnu afréttina benti stofnunin einfaldlega á í umsögnum sínum  „ að viðmið ...“ næðust ekki á gildistíma viðkomandi áætlunar. Það voru alls engar kröfur gerðar um að: „krafan væri sú að landbótastarfi sauðfjárbænda ætti að ljúka í eitt skipti fyrir öll á næstu 10 árum“. Það er einfaldlega ekki rétt. Þess vegna eru það afar ómakleg ummæli þegar formaðurinn segir í ræðu sinni: „Þessar athugasemdir settu því gæðastýringuna í heild í uppnám og á því ber Landgræðslan fulla ábyrgð.“ Landgræðsla ríkisins vísar þessum ummælum alfarið til föðurhúsanna. 
 
Gæðastýringin er ekki í því uppnámi að það gefi tilefni til að breyta reglugerðinni, eins og forsvarsmenn LS hafa gert kröfu um til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þær lúta að því meðal annars að út yrði fellt ákvæði um að land í lakasta ástandsflokknum þ.e. auðnir og land með mjög miklu jarðvegsrofi, yrði ekki nýtt til beitar. Enn fremur að ekki þyrfti að ná viðmiðum reglugerðarinnar um ástand beitarlands. 
 
Verst förnu afréttir landsins eiga ekki að vera viðmið
 
Aðalfundur LS í lok mars 2015 ályktaði m.a. um landnýtingarþátt gæðastýringar: „Sjálfbær landnýting sauðfjárbænda er mikilvæg og eru þeir staðráðnir í að standa þar vel að verki og hafa gengist undir ákvæði um að skilgreina hluta af opinberum stuðningi sem stjórntæki í þá átt.“ Starfsfólk Landgræðslu ríkisins fagna þessari ályktun og er sannfært um að sauðfjárbændur almennt vilja standa vel að verki og að framkvæmd reglugerðarinnar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu endurspegli hug þeirra og efndir. 
Landgræðsla ríkisins vekur athygli á því að þrátt fyrir tötrum klædda ásýnd landsins eru einungis 300 sauðfjárbændur af tæplega 1.800 í þeirri stöðu að þurfa að gera landbótaáætlun. Af þeim hópi hefur verulegur hluti nú þegar skilað inn áætlunum sem kveða á um úrbætur sem gera það að verkum að skilyrði reglugerðarinnar um ástand beitarlands og sjálfbæra landnýtingu ættu að nást. Það væri því mjög miður ef lítill hópur sauðfjárbænda, sem nýtir verst förnu afrétti landsins til beitar, réði því að ekki verði í framtíðinni hægt að fullyrða að landnýting í sauðfjárbúskap í heild sé sjálfbær og land í ásættanlegu ástandi.
 
Hvað er fram undan?
 
Ljóst er að framkvæmd reglu­gerðarinnar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu hefur ekki tekist sem skyldi. Nú verða þeir aðilar sem að þessu máli koma, þ.e. ráðuneyti, samtök bænda, Landgræðsla ríkisins og Matvælastofnun, að koma saman og ræða næstu skref í framkvæmd þessarar reglugerðar. Leiki einhver vafi á um túlkun einstakra atriða verður að eyða honum og greinilegt að það verður að taka af allan vafa um hver tilgangurinn var með setningu reglugerðarinnar og hvaða kröfur það hefur í för með sér á hendur sauðfjárbændum. Ef einhverjir bændur uppfylla ekki þær kröfur verður að athuga hvort grípa megi til einhverra þeirra aðgerða sem úr því gætu bætt, líkt og gert er með kröfu um landbótaáætlanir. Hins vegar hlýtur það að vera öllum ljóst að gæðastýringin er fyrirkomulag sem miðar að því þeir bændur sem uppfylla ákveðin skilyrði,  meðal annars um sjálfbæra nýtingu lands, njóti fyrir það sem ábyrgir vörslumenn landsins, ákveðinna greiðslna af almannafé. 
 
Stærstur hluti sauðfjárbænda uppfyllir þessar kröfur og er vel að þessum greiðslum kominn. Einhverjir gera það ekki og þeim er gefinn kostur á að bæta úr og flestir geta það og gera. Þá eru einhverjir eftir sem kann að reynast erfitt að uppfylla kröfurnar. Er eitthvað hægt að gera fyrir þá þannig að það náist með viðráðanlegum hætti?  Lausnin á því er ekki fólgin í að slaka á kröfunum, heldur verður að leita lausna og líklega má finna þær ef vilji er fyrir hendi og allir leggjast á eitt.  
Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...