Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Skrímslið sem grætur af gleði
Á faglegum nótum 26. febrúar 2019

Skrímslið sem grætur af gleði

Höfundur: Elínborg Erla Ásgeirsdóttir

Til Monstera-ættkvíslarinnar teljast á milli 40 og 50 tegundir sem allar eiga heimkynni sín í hitabelti Ameríku. Tegundirnar eru meira og minna sígrænar plöntur sem klifra gjarnan upp eftir stofnum annarra plantna.

Til klifursins nota þær loftrætur sem smjúga inn í ójöfnur og sprungur trjábola og greina sem klifrað er eftir og ná sér þar í stuðning, vatn, birtu og næringu. Ef þær komast í snertingu við jörð taka þær að starfa eins og venjulegar rætur. Loftræturnar geta orðið býsna langar og fyrirferðarmiklar og eru í sumum löndum nýttar t.d til körfu- og kaðlagerðar.

Gómsæta skrímslið

Sú tegund sem algengust er í ræktun úr þessum plöntuhópi er Monstera deliciosa, rifblaðka.
Rifblaðkan er einkar glæsileg planta sem skartar stórum fagurgrænum blöðum með miklum skerðingum, eða rifum, og þaðan er íslenska heitið komið. Hún getur jafnvel náð 2-3 metra hæð í heimahúsum og nýtur sín langbest ef hún fær ríflegt pláss.

Nafnið Monstera er sennilega komið frá latneska orðinu monstrum sem þýðir skrímsli. Deliciosa þýðir gómsætt (delicious) og vísar til ávaxtar plöntunnar sem fullþroskaður er ætur og sagður einkar gómsætur. Plantan blómstrar þó sjaldan í heimahúsum og aðrir hlutar hennar innihalda safa sem getur valdið ertingu ef hann berst á húð.

Götóttu laufblöðin

Rifblöðkur skarta þó ekki einkennismerki sínu, rifnu blöðunum, alla ævi. Ungar plöntur hafa heil blöð, en rifnu blöðin myndast þegar plantan eldist. Rifurnar í blöðunum eru taldar gegna þeim tilgangi í heimkynnum hennar að hleypa regnvatni í gegnum blöðin svo þau sligist ekki undan þunga vatnsins. Þar sem hvert laufblað getur orðið allt að 100 cm á lengd og 70 cm á breidd er ekki vanþörf á slíkri ráðstöfun.

Umönnun

Rifblaðka er frekar auðveld í umhirðu. Hún vill ekki vera í beinni sól, en þarf bjartan stað til þess að dafna sem best. Vel fer á því að leyfa henni að leggja undir sig eitthvert hornið í stofunni, á móts við glugga.
Hún kýs næringarríka mold, helst vikurblandaða, og jafnan raka. Það er þó í lagi yfir vetrarmánuðina að leyfa moldinni að þorna nokkuð á milli vökvana. Mun meiri hætta er á að gera plöntunni skaða með of mikilli vökvun en of lítilli. Daufa áburðarblöndu er gott að gefa í uþb. þriðju hverri vökvun yfir sumarið og rétt er að umpotta einu sinni á ári og þá að vori.

Venjulegur stofuhiti hentar plöntunni mjög vel. Þar sem rifblaðkan á uppruna sinn í töluvert rakara loftslagi en við bjóðum upp á á heimilum okkar er ágætt að úða annað slagið vatni yfir plöntuna, sérstaklega yfir sumarið.  

Loftrætur rifblöðkunnar geta orðið ansi fyrirferðarmiklar en þær eru plöntunni nauðsynlegar og ekki ætti að klippa þær burtu. Mikið af loftrótum bendir raunar til þess að plöntunni líði vel.

Þar sem plantan er í eðli sínu klifurplanta er best að setja mosastöng eða bambusprik með henni í pottinn og binda plöntuna upp. Þannig fæst þéttara og fallegra vaxtarlag.

Gleðitárin

Nokkuð algengt er að vatnsdropar drjúpi af blöðum rifblöðkunnar. Þetta er af völdum rótarþrýstings og á sér ekki stað nema aðbúnaður plöntunnar sé góður. Tárin eru því góðs viti, þau benda til þess að plöntunni líði vel og því gjarnan haldið á lofti að plantan gráti af vellíðan eða gleði.

Fleiri Monstera tegundir

Þrátt fyrir að Monstera deliciosa, rifblaðkan, sé algengasta tegund ættkvíslarinnar og sú sem lengst hefur prýtt íslensk heimili er úrvalið í verslunum sífellt að aukast og smávaxnari tegundir aðgengilegri en áður. Þar má til dæmis nefna Monstera obliqua og Monstera adansonii. Íbúar smærri fasteigna geta því einnig tekið þátt í regnskógarstemningunni án þess að afsala sér öllu stofuplássi. 

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum
Fréttir 20. júní 2025

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum

Skeifudagurinn fór fram í blíðskaparveðri sumardaginn fyrsta á Hvanneyri þar sem...

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili
Fréttir 19. júní 2025

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili

Samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofu Íslands var heildarkjötframleiðsla nú í apríl á...

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða
Fréttir 19. júní 2025

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða

Næsta haust mun Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, mæ...

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið
Fréttir 19. júní 2025

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið

Á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu má sjá lítil viðarhús merkt Pikkoló sem er ís...

Einkunnamet slegin á vorsýningum
Fréttir 19. júní 2025

Einkunnamet slegin á vorsýningum

Glæsileg kynbótahross hafa hlotið háar einkunnir og eftirtekt fyrir framgöngu sí...

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús
Fréttir 19. júní 2025

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús

Í maí 2024 fannst heitt vatn í Tungudal við Ísafjörð, aðeins um þremur kílómetru...

Spornað við útrýmingu
Fréttir 19. júní 2025

Spornað við útrýmingu

Nýlega var stofnað Fagráð um geitfjárrækt. Er það talið nauðsynlegt til að stuðl...

Brautskráning frá Landbúnaðarháskóla Íslands
Fréttir 18. júní 2025

Brautskráning frá Landbúnaðarháskóla Íslands

Þann 6. júní síðastliðinn brautskráðust nemendur frá Landbúnaðarháskóla Íslands ...