Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Skotlandsferð Samtaka ungra bænda – síðari hluti
Mynd / Iain MacDonald
Á faglegum nótum 23. nóvember 2017

Skotlandsferð Samtaka ungra bænda – síðari hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Dagana 20. til 23. október sl. stóðu Samtök ungra bænda á Íslandi fyrir helgarferð til Skotlands og var tilgangur ferðarinnar að kynnast þarlendum landbúnaði sem og að njóta lítils hluta þess sem Skotland hefur upp á að bjóða.
 
Alls voru 32 ungir bændur með í för og komu þeir víðs vegar að af landinu og frá ýmsum greinum íslensks landbúnaðar. Hér á eftir fer síðari hluti samantektar um þessa ferð en fyrri hluti umfjöllunarinnar birtist í síðasta Bændablaði.
 
„Ungi bóndi Skotlands 2016“
 
Önnur bændaheimsókn ferðarinnar var til Andrew McGregor sem býr á búinu Eastlaw og rekur þar blandað bú ásamt föður sínum. Samtals eru þeir með 160 kýr, 300 kindur og 220 hektara lands, þar af um 40 hektara af hveitiframleiðslu. 
 
Kindurnar eru mest notaðar í skiptibeit á móti kúnum, þ.e. til að hreinsa upp hagann eftir að kýrnar hafa verið á beit. Andrew þessi var valinn „Ungi bóndi Skotlands 2016“ en þá viðurkenningu hlýtur árlega einn ungur bóndi sem hefur staðið sig einkar vel í félagsmálum ungra bænda og þar hefur Andrew einmitt verið einkar virkur og sem var ein af ástæðum þess að hann var sóttur heim í þessari ferð.
 
Stefnir á stækkun eftir Brexit
 
Andrew sýndi hópnum bú sitt og ræddi um framtíðina nú þegar Brexit er handan við hornið. Hann telur fullvíst að framtíð búsins liggi í því að fjölga kúnum og hætta með sauðféð og telur hann að 3–400 kúa bú sé raunhæft markmið fyrir Eastlaw-búið. 
 
Með Brexit skapist ákveðin tækifæri til að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu í Stóra-Bretlandi og koma í veg fyrir eða draga úr innflutningi landbúnaðarvara frá öðrum löndum. Það skapi heimamönnum aukið svigrúm til þess að efla bú sín og stækka. Þessi staða muni vissulega einnig gagnast þeim bændum á Stóra-Bretlandi sem eru í lambakjötsframleiðslu en Andrew telur þó að bú hans henti betur til mjólkurframleiðslu enda sé ekki gott að vera með dreifðar áherslur hvað varðar vinnu, en það geti þó verið kostur tekjulega séð að dreifa áhættunni.
 
Selja mjólkina til einkaaðila
 
Þeir feðgar selja mjólkina í einkarekna afurðastöð og eru með fastan samning sem skilar þeim 25 pensum, eða um 34 krónum á lítrann næstu 2 árin og fá þeir þetta lágmarksverð fyrir 50% framleiðslunnar. Fyrir hinn hluta mjólkurinnar borgar afurðastöðin markaðsverð, sem er nú 31 pens, eða um 42 krónur á lítrann. 
 
Aðspurður um núllpunkt búsins, þ.e. hvaða lágmarksverð þurfi til svo að búið tapi ekki á framleiðslunni, sagði Andrew hann hafa verið 21 pens í fyrra. eða um 29 krónur á lítrann. Staðan væri því sem stendur afar góð og búið væri rekið með góðum hagnaði.
 
Gamalt mjaltakerfi
 
Þegar mjaltaaðstaðan var skoðuð mátti glögglega sjá að hún hafði átt betri daga en um var að ræða gamlan 2x9 mjaltabás og í honum er einn maður að mjólka þessar 160 kýr um tvo tíma á morgnana og heldur styttri tíma á kvöldin. 
 
Meðalnytin er um 8.700 lítrar en Andrew er með Holstein kýr. Þetta er heldur lág nyt miðað við þetta kúakyn og sagði Andrew að skýringin lægi í því að búið notaði nánast ekkert aðkeypt fóður. Kýrnar fá heilskorið hveiti, heilskorið bygg og hefðbundið vothey sem uppistöðuna í fóðrinu og fá svo örlítið að aðkeyptu próteini. Fyrir vikið séu þær ekki keyrðar upp í nyt, en þetta kúakyn getur hæglega skilað 3–4 þúsund lítrum að jafnaði til viðbótar með krafmeiri fóðrun.
 
3F er lykillinn að árangri
 
Þessi magnaði ungi bóndi var greinilega með afar góða stjórn á búrekstrinum og aðspurður að því hvernig hann gæti framleitt mjólkina jafn ódýrt og hann gerði sagði hann að lykillinn lægi í „effunum þremur“: frjósemi, fóðri og fóðrun. Ef kúabóndinn væri með þessi þrjú grunnatriði í huga dag hvern og passaði að frjósemin væri góð, að fóðrið hentaði kúnum og væri ódýrt ásamt því að fóðra kýr og geldneyti rétt og vel þá næði maður árangri.
 
Kjötframleiðsla í sérflokki
 
Frá Andrew var haldið til annars ungs bónda sem býr á bænum Birks sem er næsti bær við Eastlaw. Þar býr Dougie Frame en hann er með 120 Aberdeen Angus kýr ásamt öllu uppeldi. Til búsins heyra 200 hektarar af landi sem er nýtt bæði til fóðurframleiðslu og beitar og eru kýrnar úti mestan part ársins en geldneytin tekin á hús yfir veturinn. Þá eru á búinu einnig 200 ær en hann notar þær fyrst og fremst til þess að hreinsa upp beitarsvæðin eftir kýrnar og kálfana.
 
Geldir öll naut
 
Í Skotlandi má nota teygju til að gelda naut og er það gert við öll naut og er hann því einunig með uxa og kvígur í kjötframleiðsunni. Fyrir vikið þarf Dougie því að kaupa þarfanautin að frá sérstökum ræktunarbúum. Þetta er afar algengt að gert sé í Skotlandi, þ.e. bændurnir sem eru í kjötframleiðslu eru ekki í kynbótarækt heldur kaupa að þá gripi sem nota á til framleiðslunnar. Í þessar 120 kýr og kvígur notar hann 3–4 naut og hefur hann markvisst unnið að því að efla frjósemina með því að taka allar ásetningskvígur frá nautunum eftir 2 gangmál. Þær eru svo skannaðar 5 vikum síðar og ef þær eru ekki með staðfest fang eru þær settar í sláturhús. Þetta hefur verið gert á búinu í mörg ár og hefur þessi aðferð skilað búinu afar góðri frjósemi. Þá hefur hann markvisst slátrað þeim gripum sem hefur þurft að hjálpa við burð og hefur það einnig gert burðarvertíðina mun auðveldari. Þannig þurfti t.d. í vor einungis að aðstoða við 3 burði af 120.
 
Vottað skoskt nautakjöt
 
Öllum sláturgripum er slátrað 23–24 mánaða gömlum og er fallþunginn þá í kringum 360–370 kg en sé fallþunginn meiri lækkar verðið. Skýringin felst m.a. í því að búið er í sérstöku gæðavottunarkerfi sem gefur rétt til notkunar á heitinu skoskt nautakjöt en slík vottun er ávísun á hærra verð, en til þess að geta selt kjöt með þessari vottun þarf að uppfylla ýmis skilyrði s.s. um fallþunga, aðbúnað og fleiri atriði sem ekki verða tíunduð frekar hér.
 
Elstu kýrnar borið 10 kálfum
 
Dougie hefur í nokkur ár ræktað sérstaklega fyrir eiginleikum sem lúta að endingu kúnna s.s. sterkbyggðu göngulagi og léttum burði. Þetta er þegar farið að skila sér í aukinni endingu og hafa t.d. elstu kýrnar borið 10 kálfum og láta ekkert á sjá að hans sögn. Aðspurður um reksturinn þá sagðist hann vera sáttur en samkvæmt uppgjöri SAC (þeirra RML) er búið í besta þriðjungi meðal skoskra holdanautabúa þegar horft er til hagkvæmni og afkomu.
 
Vindmyllur líka landbúnaður
 
Síðasta búið sem var heimsótt í þessari ferð var bú hjónanna Iain og Marion MacDonald en þau eru með skemmtilega blandað bú sem samanstendur af sauðfé, skógrækt og vindmyllum! Bú þetta, sem kallast Ardoch, er með 700 ær og er sá hluti búskaparins umfangsmestur amk. hvað varðar vinnu. Tekjulega séð eru það þó vindmyllurnar þrjár sem mala gull en hver þeirra er 2,3 megavött og þó svo að þær séu ekki í eigu búsins heldur í eigu einkafyrirtækis þá skila þær töluvert miklum tekjum til búsins þar sem fyrir hverja þeirra er greidd hlunnindagjald vegna nýtingar á vindi og landi. Heildartekjurnar vegna þessara hlunninda nema 90 þúsund pundum á ári eða rúmum 12 milljónum íslenskra króna!
 
Selur helming lambanna um mitt sumar
 
Til búsins heyra tvö ársverk sem er vissulega afar lítið vinnuframlag á 700 kinda búi en skýringin felst m.a. í því að á miðju sumri selja þau 50% lambanna á fæti. Búið er staðsett afar hátt yfir sjávarmáli og gefur einfaldlega ekki af sér næga beit fyrir öll lömbin og því eru þau seld til lokaeldis til annarra búa sem hafa meiri landgæði. Þá láta þau hjónin öðrum eftir allt hefðbundið kynbótastarf en kaupa að hrúta frá ræktunarbúum og er viðmiðunarverð á slíkum hrútum andvirði 10 lamba að jafnaði.
 
178 lömb til nytja eftir 100 ær
 
Ærnar og gimbrarnar, sem eru blanda af mismunandi sauðfjárkynjum, eru með fína frjósemi og eftir skönnun í vetur voru 198 lömb á hverjar 100 ær en til nytja að hausti komu 178 lömb. Aðspurður um ástæður þess að færri skila sér eftir beitartímabilið sagði Iain að bæði refir og greifingjar tækju alltaf svolítið af lömbum og væri erfitt að eiga við það. Þá séu þrílembingar oft veikburða og drepist stundum.
 
Ómissandi hjálpartæki
 
Margir í hópnum höfðu orð á því að búið kæmist af með afar takmarkað vinnuframlag en þau Iain og Marion sögðu þá að það væri m.a. sérstakri flokkunargrind að þakka! Þessi grind sparaði þeim hreinlega aukamann eða tvo við fjárrag og vinnu við ærnar og fékk hópurinn að sjá þetta ómissandi hjálpartæki búsins. Þessi flokkunargrind er afar einföld í notkun og algjörlega handvirk. Þegar kindin kemur inn í grindina, stígur bóndinn á pall og með vogarafli og þunga bóndans leggst grind með mjúku efni á upp að hlið kindarinnar og er hún þá föst. Þá er einfalt að holdastiga, skoða klaufir, gefa lyf eða hvað annað það sem gera þarf. Einar Freyr Elínarsson, formaður Samtaka ungra bænda á Íslandi, fékk að prófa og líkaði vel eins og sést á meðfylgjandi mynd.
 
Skógræktin sér búinu fyrir hita
 
Þau hjón eru einnig í skógrækt og eru sem stendur með 12 hektara í skógrækt og með heimild til að rækta skóg á 37 hekturum. Skóginn grisja þau svo sjálf og nýta til upphitunar á heimili sínu en til hvorutveggja, þ.e. skógræktarinnar og upphitunarinnar fá þau styrk frá skoska ríkinu og fá í raun borgað fyrir að kynda sitt eigið hús! Iain gat þess að áður hafi olíukostnaður vegna húshitunar verið 4 þúsund pund á ári en nú fái þau 10 þúsund pund fyrir að brenna sín eigin tré, sem þau fái jafnframt styrk til að framleiða. Svolítið spaugilegt en skýringin felst í því að hið opinbera er að gera sitt til þess að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti við húshitun og á þeirra búi kemur þetta svona vel út.
 
Ferðinni lauk svo með sameiginlegum kvöldverði að kvöldi sunnudagsins og síðan var haldið heim á ný um hádegisbil á mánudeginum og lauk þar með afar fróðlegri ferð til nágranna okkar í Skotlandi.
 
Snorri Sigurðsson

7 myndir:

Skylt efni: Samtök ungra bænda

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.

Lækka gjöld fyrir sorphirðu
Fréttir 10. júní 2024

Lækka gjöld fyrir sorphirðu

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt samhljóða að lækka sorphirðugjöld.

Uppbygging á Hauganesi
Fréttir 10. júní 2024

Uppbygging á Hauganesi

Nýlega undirrituðu sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar og forsvarsmenn einkahlutafyrir...

Kortleggja ræktunarland sem hentar vel til matvælaframleiðslu
Fréttir 7. júní 2024

Kortleggja ræktunarland sem hentar vel til matvælaframleiðslu

Þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til ársins 2038, ásamt fimm ára að...

Hálfur milljarður til nautgripa- og sauðfjárbænda
Fréttir 7. júní 2024

Hálfur milljarður til nautgripa- og sauðfjárbænda

Matvælaráðuneytið hefur birt niðurstöður um úthlutanir vegna fjárfestingastuðnin...