Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Elvar Eyvindsson varaþingmaður.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Elvar Eyvindsson varaþingmaður.
Mynd / Alþingi
Fréttir 23. janúar 2019

Skortir ríkisvaldið heildarsýn í landbúnaðarmálum?

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

„Mér hefur oft fundist að það sé lítil eða engin heildarsýn frá hendi ríkisins á hvaða vegferð það er eða hvers vegna það vill styðja við landbúnaðinn. Er greinin látin einhvern veginn velkjast um frá einum skerinu til annars,“ sagði Elvar Eyvindsson varaþingmaður í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær, þriðjudaginn 22. janúar. Hann beindi fyrirspurn sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og spurði hvort hún gæti tekið undir það með sér að heildarsýn vanti. „Er hún tilbúin til að vinna að því að búa hana til og veita svo þá pólitísku forystu sem þarf til að draga þennan marghöfða þurs ríkisvaldsins að settu marki?“ spurði Elvar.

Hann benti á máli sínu til stuðnings ákvarðanir stjórnvalda að leyfa stóraukinn innflutning á búvörum með tilheyrandi ógn við lýðheilsu og búfjárheilsu. „Án mikils fyrirvara og án þess að menn virðist hafa af því miklar áhyggjur, hvað þá tilburði til að aðhafast eitthvað, er opnað fyrir stóraukinn innflutning t.d. á kjöti frá löndum þar sem við vitum að aðhald og varúð er ekki viðhöfð í sama mæli og hér,“ sagði Elvar.

Verðmæti matvælaframleiðslunnar á eftir að aukast enn meir

Katrín sagðist fagna fyrirspurn Elvars og sagði Ísland eiga gríðarleg verðmæti í þeirri matvælaframleiðslu sem hér væri stunduð, hvort sem er í landbúnaði eða sjávarútvegi. „Ég tel að þau verðmæti eigi eftir að aukast enn meir. Af hverju segi ég það? Ég held að loftslagssjónarmið spili þar inn í. Við eigum að velta fyrir okkur hvert er kolefnisspor matvælanna sem við flytjum inn í landið og hvernig getum við stuðlað að því að við neytum fremur matvæla með minna kolefnisspor en meira. Þetta tengist auðvitað því sem hæstvirtur þingmaður nefndi um innflutning á matvælum.“

Horfum á matvælaframleiðslu út frá lýðheilsusjónarmiðum

Katrín sagði að það ætti líka að horfa á matvælaframleiðslu út frá sjónarmiðum lýðheilsu. „Við vitum að stóru áhætturnar fram undan þegar kemur að heilbrigðismálum snúast einmitt um lýðheilsu, lífsstílssjúkdóma, og hvað við erum að borða og hvernig við erum að haga okkur. Þar eigum við líka gríðarleg verðmæti sem við getum aukið enn frekar með því að efla innlenda matvælaframleiðslu.“

Nýsköpun og menntun í matvælaframleiðslu er mikilvæg

Hún sagðist vilja horfa á matvælastefnu fyrir Ísland, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vinnur nú að. Katrín nefndi líka að horfa ætti til nýsköpunar í matvælaframleiðslu og gera aukin verðmæti úr frumafurðunum sem við fáum úr innlendum landbúnaði og innlendum sjávarútvegi og nýta þá miklu þekkingu sem við eigum í nýsköpun og rannsóknum til að skapa aukin verðmæti. „Ég vil líka sjá aukna menntun á sviði matvæla því að ég held að við eigum alveg óteljandi tækifæri þegar kemur að því að byggja upp matvælaframleiðslu á Íslandi og fagna öllum þeim stuðningi sem við fáum við að vinna að því verkefni.“

Eins og í ævintýrinu um Lísu í Undralandi

Elvar kom upp í pontu öðru sinni og lagði enn frekari áherslu á mikilvægi heildarsýnar og að stjórnvöld vissu hvert þau ætluðu og ættu að vinna samkvæmt því. „Mér finnst þetta stundum vera eins og hjá Lísu í Undralandi sem stóð á krossgötum og spurði hvert hún ætti að fara og vissi það ekki sjálf og þar með var alveg sama hvert hún fór. Hættan er sú að við endum bara einhvers staðar. Það er ekki góður endir.“

Forsætisráðherra var fljót til svara. „Ég er nú bara heilluð af þessari síðustu líkingu og vona að ég sé ekki hjartadrottningin eða spaðadrottningin eða hvað það var sem hálshjó allar aðrar persónur í Lísu í undralandi, sem var ein af mínum eftirlætissögum sem barn.“

Opinber innkaup og minni matarsóun

Að því sögðu ítrekaði Katrín að verið væri að undirbúa stefnumótun í innlendri matvælaframleiðslu. Hún sagði mikilvægt að huga að fleiru en framleiðslunni. „Við þurfum til að mynda að huga að því hve hátt hlutfall þess sem við neytum er innlend matvæli. Ég vil líka nefna stefnu í opinberum innkaupum sem ætlað er að draga úr kolefnisfótspori vegna matvælaneyslu hjá hinu opinbera. Ég vil líka nefna matarsóun. Ég heimsótti ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi í síðustu viku. Þau hafa dregið úr matarsóun í sínum rekstri um 57% fyrir hvern gest. Þetta er það sem mér finnst frábært, að sjá einkaaðila stíga fram og taka forystuna með svona stefnu. Þetta sýnir mér hvað við eigum mikil tækifæri. Ég nefndi bara nokkra málaflokka hér áðan sem ég taldi að ættu að koma að þessu verkefni en þetta tengist líka atvinnugreinum á borð við ferðaþjónustu og tengist byggðamálunum eins og hæstvirtur þingmaður nefndi. Ég held að þetta eigi að vera verkefni okkar á næstunni, ekki síst út af stöðunni í loftslagsmálum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að lokum.

Upptaka af fyrirspurnartímanum á Alþingi er hér fyrir neðan.

Meiri uppskera af gulrótum og kartöflum en minna af rauðkáli
Fréttir 2. desember 2022

Meiri uppskera af gulrótum og kartöflum en minna af rauðkáli

Samkvæmt nýjum uppskerutölum frá garðyrkjubændum í útiræktun grænmetis, varð tal...

Örvar nýr fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 2. desember 2022

Örvar nýr fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa
Fréttir 2. desember 2022

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa

Þar sem fjöldi skráðra grágæsa á talningastöðum á Bretlandseyjum er 30% færri en...

Minkur til Danmerkur
Fréttir 1. desember 2022

Minkur til Danmerkur

Hópur danskra minkabænda, sem kallast Dansk mink, vinnur nú að því að endurvekja...

Frummenn vildu vel steiktan fisk
Fréttir 30. nóvember 2022

Frummenn vildu vel steiktan fisk

Rannsóknir á beinaleifum vatnakarfa sem fundust þar sem í dag er Ísrael benda ti...

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins
Fréttir 30. nóvember 2022

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins

Steypustöðin gekk nýlega frá samningi við steypudælu og -bílaframleiðandann Putz...

Ný sálmabók tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2022

Ný sálmabók tekin í notkun

Þann 13. nóvember sl. var ný útgáfa sálmabókarinnar tekin í notkun í kirkjum lan...

Fljúgandi bolabítur
Fréttir 28. nóvember 2022

Fljúgandi bolabítur

Skömmu eftir miðja nítjándu öld lýsti Alfred Russel Wallace, sem var samtímamaðu...