Skorað á sláturleyfishafa að hækka afurðaverð
„Ekkert í birgðastöðu lambakjöts réttlætir hið gríðarlega verðfall sem sauðfjárbændum er boðið upp á,“ segir í áskorun sem stjórn Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð sendi í dag til sláturleyfishafa. Þar er skorað á Kaupfélag Skagfirðinga, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, Norðlenska, SAH afurðir og aðra sláturleyfishafa að hækka þegar í stað afurðaverð til sauðfjárbænda.
Rekstrargrundvöllurinn er brostinn
„Er nú svo komið að rekstrargrundvöllur sauðfjárbúa er fullkomnlega brostinn, sauðfjárbændur eru ekki aðeins orðnir tekjulausir í sínum búrekstri heldur eru fjölmargir komnir í þá stöðu að vera farnir að vinna fyrir búrekstrinum. Í ljósi nýjustu tíðinda af pólitískum vetvangi er ljóst að engar bjargir munu berast þaðan á næstunni,“ segir í áskoruninni.
Hætta á fjöldagjaldþroti
Stjórn FSE telur ljóst að sláturleyfishafar geti hækkað afurðaverð til bænda, en viljann hafi skort hingað til. „Afleiðingarnar þarf vart að tíunda; stórfellt hrun í greininni, greiðslufall og fjöldagjaldþrot með tilheyrandi byggðaröskun og harmleikjum fjölda fjölskyldna. Stjórn FSE lýsir fullri ábyrgð á stöðunni á hendur sláturleyfishöfum og skorar á sláturhúsin að rétta hlut bænda þegar í stað.“