Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Barist við skógarelda í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Barist við skógarelda í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Fréttaskýring 28. ágúst 2018

Skógareldar taldir vanmetinn áhrifavaldur í loftslagshlýnun

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Miklir hitar og þurrkar víða um lönd í sumar hafa vakið marga til umhugsunar um hvort mannkynið sé jafnvel búið að metta andrúmsloftið svo mjög af koltvísýringi (CO2) með aðgerðum sínum að vart verði aftur snúið úr þessu. Víst er að brennsla á kolum, olíu og gasi til raforkuframleiðslu er mikill áhrifavaldur í losun manna á gróðurhúsalofttegundum en minna hefur þó farið fyrir umræðu um mikil áhrif skógarelda og eldgosa. 
 
Áætlað hefur verið að skógareldar losi allt að 30 tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið af hverjum hektara sem brennur. Þar við bætist að þessi bruni er mjög ófullkominn og losun á tjöru, sótögnum og lífrænum efnum út í andrúmsloftið er því óhemju mikil. Hlutfallsleg mengun ýmissa efna eins og sóts af völdum skógarelda er því mun meiri en verður við tiltölulega hreinan bruna með hátæknibúnaði eins og t.d. í sprengihreyflum bíla. 
 
Miklir skógareldar um allan heim
 
Í sumar hafa skógareldar verið mjög tíðir um nær allan heim, meira að segja í norðlægum löndum eins og Svíþjóð. Tíðni slíkra skógarelda fer vaxandi og tímabil skógarelda lengist ár frá ári vegna hlýnunar loftslags. Þá fer árlegt tjón af völdum skógarelda stöðugt vaxandi. Var tjónið í Bandaríkjunum einum árið 2017 talið nema 10 milljörðum dollara. Þann 8. ágúst sl. var talið að tjón vegna skógarelda í í Kaliforníu í Bandaríkjunum á þessu ári væri orðið meira en 11,5 milljarðar dollara. Þá höfðu um 68.000 hektarar brunnið í Norður- Kaliforníu og 1.000 heimili eyðilagst.
 
Þétting byggðar og yfirgefnar sveitir eru farnar að valda framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins áhyggjum. Hömlulaus gróðurvöxtur á fyrrum ræktarlöndum verður kjörið eldsneyti fyrir skógarelda. 
 
Vaxandi þéttbýli skapar aukna hættu á skógareldum í dreifbýli
 
Árið 2017 var versta skógareldaár sögunnar í Evrópu fram að þeim tíma, samkvæmt tölum framkvæmdastjórnar Evrópu­sambandsins. Þá brunnu yfir 800.000 hektarar skóglendis í Portúgal, á Spáni og á Ítalíu fyrir utan fjölda skógarelda í öðrum Evrópulöndum. Segir stjórnin að aukin þéttbýlisvæðing Evrópu hafi skapað aukna hættu á skógareldum í dreifbýlinu, ekki síst á yfirgefnum  landbúnaðarsvæðum. Þar vaxi gróður nú óhindrað sem verði síðan kjörið eldsneyti fyrir skógarelda. Gaf framkvæmdastjórnin m.a. út tillögur  í nóvember á síðasta ári um hvernig  taka ætti á vaxandi skógareldahættu vegna þéttingar byggðar. 
 
Í Evrópu loguðu líka miklir skógareldar nú í sumar í Attica í Grikklandi, í Svíþjóð og í Bretlandi. Þó ekki hafi mikið verið fjallað um eldana í Bretlandi, þá brunnu 1.813 hektarar í tveim stærstu eldunum. Eldar brunnu líka í Finnlandi, Noregi og Danmörku í þurrkunum í sumar. Svíar þurftu að kalla eftir aðstoð frá nágrannaríkjum og gerðu m.a. tilraunir með að varpa sprengjum úr JAS 39 Gripen orrustuþotum á eldana til að eyða súrefni. Hafa eldarnir í sumar verið bornir saman við mestu skógarelda þar í landi árið 1888 þegar skógur brann á 2000 ferkílómetra svæði. 
 
Eldar hafa logað glatt í Kanada og Bandaríkjunum
 
Í lok júní 2018 hafði verið tilkynnt um 560 mismikla skógarelda í Bresku Kólumbíu á Vesturströnd Kanada. Neyðarástandi var lýst yfir um tíma í Norður-Kaliforníuríki í Bandaríkjunum 4. ágúst sl.  Samkvæmt tölum skógareldavarna­deildar Kaliforníuríkis og alríkis­eldvarna­stofnunar Bandaríkjanna höfðu þann 14. ágúst síðastliðinn 5.283 eldar logað á 3.659 ferkílómetra svæði og eldar loguðu víðar. 
 
Mengun frá skógareldum í Síberíu barst til Ameríku
 
Í Síberíu brunnu yfir 320 hektarar í skógareldum í júlí og barst reykurinn yfir Norður-Ameríku. Var talað um að fólk á jörðu niðri í Prince George í bresku Kólumbíu fyndi kannski ekki fyrir reyknum, en reykur í háloftunum gæti skapað fallegt sólarlag. 
 
Mikil hætta í Ástralíu í kjölfar hlýjasta vetrar í sögunni
 
Í Ástralíu hefur verið meira um skógarelda á þessu ári en venja er til í kjölfar hlýjasta vetrar í sögunni sem var jafnframt sá níundi þurrasti. Mesti hættutími bruna í Ástralíu er þó ekki runninn upp, enda er aðal sumartíminn fram undan. 
 
Skógareldar taldir skila 30 tonnum af CO2 á hektara
 
Áætlað var eftir það sem kallað var „Black Saturday bushfires“ í Victoríuríki í Ástralíu 2009, að koltvísýringsmengun frá skógarbruna næmi 30 tonnum af CO2 á hektara. Bruni á 130.000 hekturum skiluðu því nærri 4 milljónum tonna af CO2 út í andrúmsloftið. Skógareldar í Ástralíu brenna yfir 500.000 ferkílómetra skóglendis á hverju ári. Voru þeir taldir standa fyrir um 3% af losun gróðurhúsalofttegunda CO2, CH4, N2O í Ástralíu. Eru árlegir skógareldar í Ástralíu taldir nema um 6–8% af skógareldum á heimsvísu. 
 
Í Ástralíu er brennsla kola til raforkuframleiðslu samt langstærsti mengunarvaldurinn og skilar um 200 milljónum tonna af CO2 út í andrúmsloftið á ári. Brennsla kola til raforkuframleiðslu er einnig gríðarleg víðar um heim, eins og í Evrópu. Á sama tíma hafa ríki heims uppi háleit markmið með að draga úr loftmengun með því að skipta hefðbundnum ökutækjum sem nota jarðefnaeldsneyti út fyrir rafknúna bíla. Vandinn er hvernig menn ætla að framleiða alla þá raforku sem til þarf ef á sama tíma á að loka kola-, olíu-, gas- og kjarnorkuverum. 
 
Eftir mikla þurrka víða um heim í sumar eru uppistöðulón vatnsaflsvirkjana víða hálftóm. Þar horfir því fram á orkuskort næsta vetur. Vegna þessa eru menn í alvöru farnir að ræða um endurskoðun á áformum um að loka kjarnorkuverum. Jafnvel að huga þurfi að byggingu nýrra kjarnorkuvera ef búast megi við framhaldi á slíku þurrkaástandi í framtíðinni. 
 
Ýmislegt utan sviga í loftslagsumræðunni
 
Í öllu tali um losun CO2 skýtur líka skökku við að iðnaður og raforkuframleiðsla er yfirleitt fyrir utan sviga í samningaviðræðum um að draga úr mengun. Það þarf því ekki heldur að búast við að menn hafi á slíkum samkomum mikinn áhuga á að tala um óútreiknanleg fyrirbæri eins og skógarelda sem erfitt er að setja í seljanlega kvóta. 
 
 „Stýrðir“ skógareldar
 
Ekki kvikna allir skógareldar af eldingum eða vegna óhappa þegar fólk er í sakleysi sínu að grilla helgarsteikina. Stórir eldar eru nefnilega kveiktir af ásetningi á ári hverju beinlínis til að eyða skógum. Á fínu máli heita það „stýrðir“ skógareldar. Það hefur m.a. verið gert í stórum stíl í Indónesíu til að rýmka fyrir ræktun pálmatrjáa fyrir pálmaolíuiðnaðinn. Einnig á Amason-svæðinu m.a. vegna nautgriparæktar. 
Í Indónesíu var vitað um 17.399 skógarelda af ýmsum stærðum sem logað höfðu á tímabilinu 7. til 14. ágúst 2018. 
 
Íslendingar eru svo sem ekkert alsaklausir af slíkri iðju í gegnum tíðina frekar en aðrar þjóðir, m.a. við að eyða sinu á beitarlöndum. Slíkt má þó heita aflagt á Íslandi í dag samhliða aukinni umhverfisvitund. 
Fylgjast má með stöðu skógarelda frá degi til dags á vefsíðu Global Forest Wats Fire (https://fires.globalforestwatch.org).
 
Ófullkominn bruni og brúnt kolefni
 
Samkvæmt rannsóknum Um­hverfis­­verndarstofnunar Banda­ríkjanna og Tæknistofnunar Georgíuríkis sem birtar voru í tímaritinu Nature Geoscience þann 22. maí 2017 er skógarbruni meiri mengunarvaldur og hættulegri en áður var talið. Bent er á að hlutfallslega meira sé af brúnu kolefni (brown carbon) í reyk frá skógareldum en svörtu kolefni. Slíkar agnir eigi greiðari leið upp í efri hluta lofthjúpsins og valdi þar með meiri loftslagsáhrifum. Voru þessar niðurstöður sagðar studdar gögnum NASA Radiation Sciences Program og NASA Tropospheric Composition Program.
 
Gervihnettir NASA og NOAA fylgjast vel með skógarbruna um allan heim og af myndum frá þeim má kortleggja þessa bruna. Ekki bara í Bandaríkjunum, heldur um allan heim. Þannig sást m.a. vel á myndum þessara gervihnatta reykurinn frá Mýraeldunum í Hraunahreppi í Borgarbyggð sem loguðu í þrjá daga vorið 2006.  
 
Hættulegt heilsu manna
 
Hefur háskólinn í Huntsville Alabama UAH sýnt fram á mikil tengsl skógarbruna við heilsufarsleg vandamál. Telja vísindamenn háskólans að um 20% af heilsuvanda vegna loftgæða stafi af reyk frá „stýrðum“ skógareldum í andrúmsloftinu. Það er skógareldum sem kveiktir eru til að eyða skógi til ræktunar nytjajurta eða vegna dýraeldis. 
 
Bent er á að agnir sem eru minni en 2,5 micron eða minna en fjórðungur af þvermáli mannshárs, séu nógu smáar til að smjúga auðveldlega niður í lungu fólks og valda þar skaða. Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna, EPA, áætlar að brennsla á lífmassa standi fyrir yfir 25% af reyk- eða rykögnum af þessari stærð í Bandaríkjunum á ári. Yfir sumartímann, þegar skógar- og gresjueldar eru mestir, getur hlutfallið verið allt að 52%. Í sumum strjálbýlum héruðum í norðvesturhluta Bandaríkjanna hafa jafnvel yfir 80% sumardaga verið mettaðir af reykmengun sem inniheldur þessar örsmáu agnir.  Þá eru að minnsta kosti 20,1% hlutfall örsmárra rykagna frá bruna lífmassa úr trjám og grasi að meðaltali í andrúmsloftinu alla daga ársins, samkvæmt niðurstöðum UAH háskóla sem birtar voru í tímaritinu Environmental Science and Technology 2017. 
 
Helstu svæðin í Bandaríkjunum sem verða fyrir áhrifum, bæði stýrðra og óskipulagðra skógarbruna, eru í Norður-Dakota Minnesota og Iowa sem og í ríkjunum Kansas og Nebraska í austri og austari hluta Suður-Dakota. Reykurinn berst þó líka til annarra ríkja. Dæmi eru einnig um að reykagnir frá skógarbruna í Kanada, Alaska og Síberíu hafi borist inn yfir Bandaríkin, að sögn stjórnenda rannsóknar UAH háskóla.  
Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...