Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Berjablátoppur í góðum höndum.
Berjablátoppur í góðum höndum.
Á faglegum nótum 25. september 2014

Skógarber til nytja – síðari hluti

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Skógar og skjólbelti gefa nýja möguleika til berjatekju hér á landi. Í fyrri hluta þessa pistils tók ég fyrir nokkrar berjarunnategundir frá Norður-Ameríku. Nú er komið að því að skoða svolítið hvað borist hefur hingað af berjarunnum frá meginlandi Evrasíu.

Fyrst ber náttúrlega að telja rifsber, sólber og stikilsber. En enda þótt þau geti vissulega vaxið og gefið eitthvað af sér úti í skógi, þá er samt mun hagkvæmara og hentugra að ganga að þeim í görðum þar sem hægt er að sinna þeim með klippingu, uppbindingu og áburðargjöf samkvæmt kúnstarinnar reglum og lesa má sér til um í ótal garðyrkjubókum. Sama má eiginlega segja um hindber. Þótt þau geti dreift sér út um skógarlundi gefa þau sjaldan af sér sömu uppskeru og fá má af þeim í görðum.

En hindberjaplönturnar eru samt harðar af sér og spjara sig bærilega þar sem þau fá að vaxa í gisnum skógi og skógarjöðrum. Rifstegundirnar líka. En ef við sleppum þessum plöntum út í skóg verða þær eiginlega eins og villifé sem hleypur fljótt í skothelt reyfi og verður varla viðráðanlegt, rýrt og óarðbært. Ég var einu sinni kallaður í einkagarð sem var úr sér sprottinn, rifsrunnarnir orðnir tólf metrar á kant og hindberjaklungur búið að fylla hvern auðan blett. Þrátt fyrir að þetta hafi verið um hámark berjatímans síðsumars var varla ber að sjá á nokkurri grein. Ellin og óræktin sögðu til sín. Ef við viljum rækta þessar tegundir úti í skógi, þarf að sinna þeim. Skera þær niður á nokkura ára fresti til að þær endurnýi sig og jafnvel gauka að þeim áburði endrum og eins.

En það getur alveg verið þess virði, því það er gaman að geta farið í berjaskóg. Aðrar evrasískar tegundir sem þroska æt ber eru berjablátoppur, reynivíðir, ýmsar rósategundir, hafþyrnir og jafnvel svartyllir og brómber ef rétt kvæmi finnast. Og svo eigum við líka íslensku einiberin sem geta gefið okkur gott bragð í eitt og annað vafasamt sem við látum ofan í okkur, eins og til dæmis brennivín og villibráð.

Hinir harðgerðu toppar

Hvað varðar hina harðgerðu toppa (Lonicera) er meginreglan sú að berin af þeim eru óæt áður en búið er að sjóða upp á þeim. Og jafnvel þó að það sé gert, þá er eftir litlu að slægjast vegna þess að bragðið af þeim er það rammt og súrt að það fellur fáum í smekk. Berjablátoppurinn (Lonicera caerulea var. edulis) er blessunarleg undantekning frá því. Hann er undirtegund af venjulegum blátoppi, ættaður alla leið austan frá Kamtsjatka og Kúrileyjum. Ber hans eru stór, sæt og bragðóð. Minna svolítið á bláber og eru nokkurn veginn laus við hin óætu efnasambönd annarra toppa-tegunda. Úr þeim má gera sultur og saftir líkt og bláberjum. Berjablátoppurinn hefur á undanförnum árum verið í klónaúrvali bæði austan hafs og vestan. Nýlega voru nokkrir klónar úr þessu úrvali fluttir inn undir heitinu „HASKAP honeyberry“. Haskap er hið japanska heiti á berjablátoppi – en „honeyberry“ þarf víst ekki að útskýra. En hvort þessir klónar eru nokkuð betri eða harðgerðari en þeir sem fyrir eru er ekki komin nein reynsla á enn.

Dálítið pillerí

Af reyniberjum, ilmreynir, (Sorbus aucuparia) má gera hlaup og sultur. Þau eru römm en flestum þykir bragðið mildast ef þau eru látin frjósa fyrir verkun. Að búa til reyniberjahlaup er dálítið pillerí.

Berin þarf að hreinsa vel, þau eru losuð úr klösunum en stilkurinn látinn halda sér. Síðan er stungið með sverri nál, til dæmis stoppnál, í hvert ber áður en þau eru látin í pott ásamt botnfylli af vatni. Suðan látin koma hægt upp en passað að sprengja ekki berin. Þegar berin eru orðin hismið eitt eftir að vökvinn hefur soðið úr þeim er suðan síuð gegnum gatasigti. Vökvinn á að vera því sem næst tær, laus við tægjur og kusk úr berjunum. Á móti vökvanum er svo notað jafn mikill sykur og sultuhleypir samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Safi og sykur látið malla saman við vægan hita meðan sykurinn leysist upp og þar til sést að suðan er farin að þykkna. Þá sett í heit og hrein glös með þéttu loki sem skrúfað er á strax meðan hlaupið er sjóðheitt. Þetta góðgæti er upplifun ef þess er neytt með rjúpna- eða hreindýrasteik. Getur meira að segja lyft grilluðu lambakjöti upp í æðra veldi.

Úlfareynirinn (Sorbus × hostii) er blendingur milli alpareynis (Sorbus mougeotii) og blikreynis (Sorbus chamaemespilus) sem báðir vaxa í fjalllendi Mið-Evrópu. Blendingurinn mun vera mannaverk, framkvæmt í Frakklandi á sautjándu öld sem tilraun til að fá fram stór og æt ber, það er að segja ekki eins römm og súr og flest önnur reyniber. Það tókst að því er virðist, því að úr úlfareyniberjum má gera mauk, vín og sultur eftir þeim uppskriftum sem finnast fyrir epli. Hvergi finnst þessi blendingur upprunalega í náttúrunni þrátt fyrir að báðar upphafstegundirnar skarist á vaxtarsvæðum. Úlfareynirinn þroskar fræ án utanaðkomandi frjóvgunar svo að allir afkomendurnir eru nákvæm eftirmynd „móðurinnar“ að upplagi, hvernig svo sem umhverfisaðstæður móta þá síðar meir. Úlfareynir virðist þrífast vel víðast hvar þar sem eitthvað skjól er og jarðvegur jafnrakur og frjór. Best er að halda honum sem runna, tveggja til þriggja metra háum.

Margar rósategundir njóta sín vel í skjólbeltum og skógarjöðrum. Hér nefni ég ekki þær sem hafa tilhneigingu í að skríða um allt neðanjarðar og stinga upp kollunum á ólíklegustu stöðum, oft víðs fjarri upprunanum. Læt nægja að nefna hjónarós (Rosa zweginsowii) og glitrós (Rosa dumalis). Sú síðarnefnda hefur lengi vaxið á aðeins einum stað á landinu og þá aðeins einn einstaklingur. Glitrósin íslenska hefur eitthvað verið treg til að þroska hér aldin. En innfluttar plöntur gera nokkuð af því að setja aldin, hina svokölluðu hjúpa eða rósahjúpa. Glitrósin er hin dæmigerða „nyponros“ sem gefur efnið í sænsku „nyponsúpuna“ sem er eins konar sætsúpa, þrungin C-vítamíni. Hjónarósin, hins vegar, er ein alharðasta rósategund sem við eigum völ á. Hún verður með leik þriggja til fjögurra metra há. Blómgast ríkulega fögrum, rauðbleikum blómum og þroskar óransrauða, flöskulaga hjúpa sem bæði má gera úr hlaup eftir sömu aðferð og á við um reyniberin. Eða sultumauk eftir að búið er að fjarlægja fræin innan úr hjúpunum.

Nægjusemi í nóvember
Fréttir 13. nóvember 2024

Nægjusemi í nóvember

Landvernd og Grænfánaverkefnið standa fyrir átakinu Nægjusamur nóvember.

Vilja harðfisk á lista UNESCO
Fréttir 13. nóvember 2024

Vilja harðfisk á lista UNESCO

Slow Food Reykjavík vinnur að því að fá vinnsluhefðir tengdar harðfiski og skrei...

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims
Fréttir 13. nóvember 2024

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, iðnaðarverkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi, lei...

Skrefagjald innleitt
Fréttir 13. nóvember 2024

Skrefagjald innleitt

Ísafjarðarbær hefur ákveðið að innheimta svokallað skrefagjald vegna sorphirðu.

Sjónum beint að fiskauganu
Fréttir 12. nóvember 2024

Sjónum beint að fiskauganu

Ekki hefur enn fundist flötur á því hér á Íslandi að nýta fiskaugu sérstaklega ú...

Ný Hrútaskrá og hrútafundir
Fréttir 12. nóvember 2024

Ný Hrútaskrá og hrútafundir

Von er á prentaðri útgáfu Hrútaskrárinnar mánudaginn 18. nóvember, þar sem 54 sæ...

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti
Fréttir 12. nóvember 2024

Litafjölbreytni og æði skrautleg litaheiti

Í íslenska sauðfjárstofninum finnast ótal litaafbrigði sem Karólína Elísabetardó...

Hækkun á minkaskinnum
Fréttir 12. nóvember 2024

Hækkun á minkaskinnum

Björn Harðarson, formaður deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir ...