Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skaginn frá Skipaskaga.
Skaginn frá Skipaskaga.
Mynd / Jón Björnsson
Fréttir 25. janúar 2017

Skipaskagi þótti öðrum fremra

Á haustfundi Hrossaræktar­sambands Vesturlands (HrossVest) var Skipaskagi útnefnt hrossa­ræktarbú Vesturlands árið 2016. Fjórtán bú voru tilnefnd fyrir þetta val. 
 
 
Sambandið var stofnað þann 31. október árið 1964. Síðan hefur Hrossaræktarsambandið verið þannig uppbyggt að að því standa búnaðarfélög, hestamannafélög og deildir innan sambandsins en félagssvæðið er frá Hvalfjarðarbotni að Hrútafjarðarbotni.  Auk þess Strandasýsla, Austur-Barðastrandasýsla og félagssvæði Storms. Markmið Hrossaræktar­sambands Vesturlands hefur verið að efla hrossa­rækt á félags­svæðinu. Áður fyrr átti sambandið stóðhesta með mismunandi hlutum.  Því hefur verið hætt en síðustu hestarnir sem voru í eign sambandsins voru þeir Gustur frá Hóli og Dynur frá Hvammi.
 
Með breyttum tímum hefur starfsemi sambandsins breyst. Bændur og búalið áttu almennt ekki flutningstæki og gerði sambandið fólki því kleift að sækja nýtt blóð í sína ræktun. 
 
 
Í dag hafa bættar samgöngur og tækjakostur gefið fólki meiri möguleika til að flytja hryssur til eftir því hvar stóðhestar eru staðsettir hverju sinni. Hrossarækt á Vesturlandi hefur fleygt fram á síðustu árum og sýndi haustfundur Hrossaræktarsambands Vesturlands, sem haldinn var þann 13. nóvember sl., að hrossarækt hefur farið hægt og sígandi upp á við og sýna einkunnir frá kynbótadómum að ræktendur á félagssvæðinu eru á réttri leið og stefna til enn frekari gæða.
 
Stjórn sambandsins 
 
Stjórn Hrossaræktarsambandsins skipa, formaður,  Gísli Guðmundsson í Hömluholti, Stefán Ármannsson, Skipanesi, Hlöðver Hlöðversson í  Litla-Laxholti, Hrefna B. Jónsdóttir í Hjarðarholti og Unnsteinn Snorrason, Syðstu-Fossum.
 
Aðalverkefni stjórnar er nú að finna stóðhesta til að bjóða upp á á komandi sumri. Hefur m.a. verið farin sú leið að auglýsa eftir hestum og hafa komið góðir hestar út úr því.   Sambandið hefur hvað mest boðið upp á tólf hesta yfir sumartímann en voru sex árið 2016.  Ekki er endanlega búið að ganga frá samningum fyrir komandi sumar.  Auk þessa er stefnt að því að standa fyrir sýningu í reiðhöllinni Faxaborg þann 25. mars undir yfirskriftinni ,,ræktun 2017“, ef næg þátttaka næst. Sumarið 2017 verður haldið fjórðungsmót á Vesturlandi og stjórn því bjartsýn á að það takist að ná spennandi kynbótagripum á sýninguna.
 
Ræktunarbú ársins á Vesturlandi 
 
Haustfundur Hrossaræktar­sambands Vesturlands er á sinn hátt uppskeruhátíð hestamanna á Vesturlandi. Árlega er þar veitt viðurkenning því hrossaræktarbúi er sýnir framúrskarandi árangur á sviði hrossaræktar. Eins og fyrr segir var það ræktunarbúið Skipaskagi sem hlaut þá útnefningu.  
 
Það eru hjónin Sigurveig Stefánsdóttir og Jón Árnason sem standa á bak við ræktunina frá Skipaskaga og er þetta í þriðja skiptið sem þau fá þessa tilnefningu frá árinu 2000. Alls voru fjórtán bú sem tilnefnd voru á landsvísu þetta árið en búunum hefur fjölgað jafnt og þétt með árunum. 
 
Heiðursmerki sambandsins
 
Frá árinu 2011 hefur Hrossaræktar­sambandið veitt heiðursmerki til einstaklinga sem hafa lagt sitt af mörkum til félagsmála ýmiss konar og staðið fyrir góðri hrossarækt.
 
Formaður kynnti þá einstaklinga sem fá nú heiðursmerki HROSSVEST fyrir að hafa lagt margvíslegum félagsmálum lið og eflt hrossarækt á félagssvæði sambandsins. Þau sem voru sæmd heiðursmerki á haustfundi sambandsins eru:
Gunnar Örn Guðmundsson,  Borgarnesi, Jónína Hlíðar, Hvanneyri, Marteinn Njálsson, Vestri-Leirárgörðum, Marteinn Valdimarsson, Borgarnesi og Þórður Bachmann, Borgarnesi.
 
Viðurkenningar fyrir efstu hross
 
Veittar voru viðurkenningar til ræktenda efstu hrossa sem ræktuð voru af félagsmönnum á svæði sambandsins.
  
Heiðursverðlaunahryssur
 
Tvær hryssur á starfssvæði HrossVest fengu heiðursverðlaun. Þau eru þær Gusta frá Litla-Kambi, IS1997237500, sem er í eigu þeirra Sifjar Ólafsdóttur og Hjörleifs Jónssonar, og Elka frá Efri-Hrepp, IS1999235606, sem er í eigu Guð­rúnar Jóhönnu Guðmundsdóttur.  Elka er ræktuð af föður Guðrúnar, Guðmundi Þorsteinssyni, og Gusta er ræktuð af Guðrúnu Jóhönnu Eggerz.  
 
Sleipnisverðlaunahafinn 
 
Arður frá Brautarholti hlaut hinn eftirsótta Sleipnisbikar á Landsmóti hestamanna á Hólum sl. sumar eins og greint var frá í Bændablaðinu.  Eigandi Arðs frá Brautarholti er Snorri Kristjánsson, sem ræktar hross ásamt bræðrum sínum í Brautarholti á Snæfellsnesi.
 
Sægrímur frá Bergi stóð sig líka mjög vel í fjögurra vetra flokki á Landsmótinu sl. sumar og á trúlega eftir að sýna okkur talsverða framför í kynbótabrautinni á árinu.  Hrossaræktarbúið Berg stóð annað í stigum og var því mjög nálægt titlinum hrossaræktarbú Vesturlands en þau hömpuðu þeim titli síðast árið 2011.  Þau hjónin Anna Dóra og Jón Bjarni standa fyrir hrossaræktinni á Bergi.
 
Hjónin Lára K Gísladóttir og Kolbeinn Magnússon standa fyrir ræktuninni í Stóra-Ási. Þau eiga einnig heiðursverðlaunahryssuna Nótu frá Stóra-Ási sem er amma Svítu. Nokkuð margir þekkja til frænda Svítu en þeir eru m.a. Trymbill og Flygill frá Stóra-Ási. Lára er fædd og uppalin á Hofsstöðum í Hálsasveit og hefur því trúlega fengið gott blóð í sína hrossarækt út frá ræktun foreldra sinna en langamma Svítu er Harpa frá Hofsstöðum sem var undan Gáska frá Hofsstöðum og margir muna eftir.

5 myndir:

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...