Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sjónarmið bænda
Á faglegum nótum 27. júlí 2015

Sjónarmið bænda

Bændasamtök Íslands urðu á síðasta ári fullgildir aðilar að Alþjóðasamtökum bænda (WFO). Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, heimsótti allsherjarþing samtakanna í Mílanó fyrir skömmu. Í lok þingsins sendu samtökin frá sér eftirfarandi ályktun:


Við bændur heimsins, karlar, konur og æskufólk sem stundum búskap á litlum, meðalstórum eða stórum býlum, í samvinnufélagaformi eða með öðrum hætti gerum okkur grein fyrir að landbúnaður, þar með talið korn-, fóður-, grænmetis-, búfjár-, vín-, skóg- og fiskirækt er kjarni sjálfbærrar þróunar.

Ábyrgð á fæðuöryggi

Bændur og dreifbýlissamfélög bera ábyrgð á fæðuöryggi, fullnægjandi næringu og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni á jörðinni. Bændur brauðfæða jörðina, framleiða nauðsynlega orku til að samfélagið geti gengið eðlilega fyrir sig og eru undirstaða sjálfbærrar þróunar. Við gerum okkur ljóst að því fylgir mikil ábyrgð að tryggja fæðuöryggi heimsins og gæta að gæðum jarðarinnar.

Okkur bændum er ætlað að framleiða nægilegt magn öruggra matvæla af fullnægjandi gæðum og sanngjörnu verði til að tryggja fæðuöryggi jarðarbúa í stöðugt stækkandi heimi. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur að landbúnaðarframleiðslan verði að aukast um 60% á heimsvísu til að fæða jarðarbúa árið 2050, sem áætlað er að verði 9,2 milljarðar að tölu.

Fjölbreytt úrval matvæla

Bændur framleiða fjölbreytt úrval matvæla til neyslu allt árið um kring. Þessi fjölbreytni gefur jarðarbúum kost á fjölþættu mataræði með háu næringargildi svo sem grænmeti, ávöxtum, kornvörum og dýraafurðum. Í því liggur lykillinn að því að koma í veg fyrir hungur og gefa öllum kost á að lifa heilbrigðu lífi.

Í þessu sambandi gegna samvinnufélög lykilhlutverki. Þau hafa verið skilgreind af SÞ sem „rekstrarform með samvisku“. Samvinnufélög geta vegið saman annars vegar markmiðið um að hagnast og hins vegar að uppfylla þarfir félagsmanna sinna og samfélaganna sem þeir byggja.

Vegna þess er hlutverk samvinnufélaga afar mikilvægt við að tryggja fæðuöryggi og vinna að útrýmingu hungurs.

Við bændur sköpum hagvöxt og atvinnu með framleiðslu afurða til frekari vinnslu og viðskipta. Með því bætum við hag samfélagsins í heild auk okkar sjálfra. Til viðbótar þá framleiðir landbúnaðurinn ekki eingöngu matvæli og fóður til framleiðslu þeirra. Afurðir olíujurta, ólífuolíuframleiðsla og býflugnavax eru nokkur dæmi. Þar að auki þarf að framleiða fóður fyrir dýr sem eru nýtt til flutninga.

Efla framleiðslu endurnýjanlegrar orku

Landbúnaðurinn mun leggja sitt af mörkum til að efla framleiðslu endurnýjanlegrar orku svo sem með lífeldsneyti, orkuframleiðslu úr lífmassa og annarri nýsköpun. Í ljósi verðsveiflna og neikvæðra umhverfisáhrifa jarðefnaeldsneytis, er sífellt meiri áhersla lögð á að finna orkugjafa sem geta komið í stað þess.

Við bændur höfum fundið nýjar lausnir til að klæða mannkynið og útvega byggingarefni til að auka sjálfbærni. Það er vaxandi eftirspurn á heimsvísu eftir afurðum sem framleiddar eru með sjálfbærum hætti, með hráefnum sem aflað er með sjálfbærum hætti, svo framleiðslan í heild geti talist vera það.

Aukið hlutverk landbúnaðar

Hlutverk landbúnaðarins við að klæða mannkynið, framleiða neysluvörur og byggingarefni mun aukast á komandi árum. Landbúnaðurinn, einkum þó skógræktin, framleiðir verðmæt hráefni til bygginga og annarrar iðnaðarframleiðslu. Samt sem áður hefur hráefnisframleiðsla byggð á jarðefnaeldsneyti, aukist á kostnað landbúnaðarins. Fyrir liggja staðfest dæmi þess að hægt er að breyta landbúnaðarúrgangi í eldsneyti og aðrar verðmætar afurðir. Sú framleiðsla er sjálfbærari en nýting sem byggir á jarðefnaeldsneyti.

Að rækta matvæli, eldsneyti og trefjar samhliða mun bæta auðlindanýtingu jarðarinnar og er lykillinn að því að berjast gegn loftslagsbreytingum. Fjölþætt hlutverk landbúnaðarins sýnir vilja greinarinnar til að stuðla að sjálfbærni, að standa vörð um landið og nýta auðlindir þess á hagkvæman hátt. Þörf er á auknum rannsóknum til að skoða betur áhrif loftslagsbreytinga á landbúnaðarframleiðsluna til að aðlagast sem best þeim breytingum sem í vændum eru svo sem á úrkomu, hitastig, veðursveiflur og kolefni í andrúmsloftinu. Ræktun skóga er eitt af því sem mun skipta verulegu máli til að vinna gegn loftslagsbreytingum og tryggja framboð á hreinu vatni.

Takast á við loftslagsbreytingar

Við bændur þurfum að takast á við loftslagsbreytingar í okkar daglega lífi. Bændur þurfa stöðugt að aðlagast óstöðugleika í loftslagi með því að finna og útfæra lausnir til að aðlagast og vinna gegn áhrifum breytinganna á búreksturinn.

Bændur og rekstur þeirra, sé hann sjálfbær efnahagslega, eru ómissandi við að vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga, bæði á héraðs-, lands- og heimsvísu. Bændur hafa sýnt einstaka aðlögunarhæfni vegna þessara breytinga, þar með talið veðursveiflna, en fleiri þurfa að leggjast á árarnar til að vinna að því að leysa þau umfangsmiklu vandamál sem heimsbyggðin þarf að kljást við vegna breytinganna.

Við bændur erum vörslumenn landsins. Landbúnaður hefur mótað landslag og menningu um allan heim. Eftir sem áður er jarðvegsauðlindum okkar ógnað vegna aukinnar eyðimerkurmyndunar, uppblásturs, útþenslu byggðar og fleiri neikvæðra áhrifa. Það eru sameiginlegir hagsmunir bænda að vernda jarðveginn, berjast gegn eyðimerkurmyndum, bæta gæði og meðferð vatns, tryggja búsvæði tegunda í útrýmingarhætti og efla líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu. Bændur hafa hag af því að halda landinu ræktanlegu og frjósömu, enda gengur landbúnaður ekki upp án þess.

1,3 milljarðar tonna af matvælum

Samkvæmt mati FAO fer árlega til spillis um 1,3 milljarðar tonna af matvælum sem ætlaður er til manneldis. Samvinnufélög í landbúnaði, í krafti skipulags þeirra og uppbyggingar, ættu að geta átt verulegan hlut að því að minnka orsakavalda matarsóunar svo sem offramleiðslu, ófullnægjandi geymslu matvæla og léleg flutningakerfi.

Græn svæði efla tengsl manns og náttúru

Landbúnaðarland býr til græn svæði, eflir tengsl manns og náttúru og getur átt þátt í að standa vörð um náttúrulega arfleifð heimsins. Landbúnaðarframleiðsla er undirstaða dreifbýlis­samfélaga, bæði félags- og menningarlega um leið og þau samfélög geta boðið upp á sjálfbæra ferðaþjónustu. Til lengri tíma lítið þá gegna bændur, í gegnum samvinnufélög sín, lykilhlutverki við að skapa sjálfbæran hagvöxt, efla þróun samfélaga sinna og ábyrga meðferð umhverfisins.

Landbúnaðurinn hefur því bæði félagslegt og menningarlegt hlutverk. Að vera vörslumenn landsins er vissulega kostnaðarsamt fyrir bændur þó það sé í þeirra þágu, en ekki síður og enn frekar þjóðfélagsins í heild. Kostnaður bænda við að bæta nýtingu náttúruauðlinda, auka líffræðilega fjölbreytni, varsla landslags og menningar tengdri því, gætir ekki í tekjum þeirra.

Almannagæði fyrir þjóðfélagið í heild

Ásamt því að framleiða vöru og þjónustu fyrir markaðinn þá framleiðir landbúnaðurinn ýmiss konar almannagæði fyrir þjóðfélagið í heild. Sem markaðsdrifnir framleiðendur á heimsmarkaði leitast bændur sífellt við að framleiða meira með því að nota minna. Það að markaðurinn geti ekki tekið tillit til hins fjölþætta hlutverks landbúnaðarins við verðlagningu framleiðsluvara greinarinnar hamlar þróun hennar. Bændur leita sífellt leiða til hagræðingar í rekstri. Hagkvæm og skilvirk notkun aðfanga leiðir til aukinnar framleiðni og minni umhverfisáhrifa. En því miður er hlutverk og þýðing landbúnaðarins við framleiðslu og varðveislu almannagæða sjaldnast viðurkennt.

Mæta þarf þörfum vaxandi fjölda jarðarbúa

Til að mæta þörfum vaxandi fjölda jarðarbúa skiptir öllu máli að bændur hafi aðgang að aðföngum og innviðum sem eru nauðsynleg framleiðslu þeirra. Þar má nefna öruggt aðgengi að landi, auðlindum mörkuðum og fjármagni. Þar skipta einnig máli möguleikar á uppskerutryggingum, aðgengi að orku, vinnuafli, rannsóknum og þróun auk sí- og endurmenntunar. Þessi verkfæri munu gera bændum kleift að aðlaga framleiðslu sína að nýjustu tækni, til að auka sjálfbærni og framleiða matvæli og aðrar vörur til að mæta sívaxandi eftirspurn.

Aðgengi að fjármagni er höfuðatriði fyrir allan búrekstur, án tillits til stærðar eða staðsetningar. Mikil vinna hefur átt sér stað til að tryggja smábændum slíka þjónustu og hún þarf að halda áfram. En til að stuðla að áframhaldandi þróun landbúnaðarins þarf að tryggja greininni í heild nægilegan aðgang að fjármagni til að opna möguleika á auknu virði afurða í víðu samhengi. Sérstaka áherslu þarf að leggja á meðalstór bú.

Því til viðbótar verða bændur í auknum mæli fyrir áhrifum af verðsveiflum á mörkuðum og náttúrulegum áföllum sem hafa áhrif á aðfangaverð til þeirra, oft með neikvæðum afleiðingum á afkomu og rekstrarhæfi búanna. Stjórnvöld og úrvinnsluaðilar þurfa að taka tillit til þess til að tryggja að bændur geti stýrt áhættu sinni með ásættanlegum hætti svo framboð matvæla og annarra framleiðsluvara landbúnaðarins sé ávallt stöðugt og öruggt.

Við bændur höfum ávallt verið í fararbroddi nýsköpunar frá því að skipulegur landbúnaður hófst fyrr á öldum til dæmis með skipulögðum áveitum, kynbótum plantna með ágræðslu eða jafnvel með því faglegri hönnun umbúða til að kynna framleiðsluvörur landbúnaðarins. Í þessu samhengi er nýsköpun ávallt nauðsynleg bæði á vettvangi bænda sjálfra en hennar er á sama hátt þörf í allri virðiskeðju landbúnaðarins, þar með talið til að auka afurðir, skilvirkni, hagkvæmni og rekjanleika á öllum sviðum. Því til viðbótar má nefna mikilvæg svið eins og vöruþróun, markaðsmál, gæðamál, upprunamerkingar og aðra þýðingarmikla þætti sem hafa gildi innan virðiskeðjunnar.

Aðgengi að mörkuðum

Bændur þurfa aðgang að mörkuðum sem búa yfir nauðsynlegum innviðum til að viðskiptin gangi greiðlega fyrir sig. Með því er átt við innviði eins og flutningskerfi á lofti, láði og legi, nauðsynlegar vörugeymslur og fleira. Slíkt þarf helst vera í samvinnufélagaformi sem gera framleiðendum mögulegt að taka þátt í allri virðiskeðjunni. Þær aðferðir draga úr matarsóun og auka hagkvæmni frá haga til maga.

Aukin sjálfbærni

Við bændur þurfum aðgengi að nauðsynlegri þekkingu og verkfærum til að bæta sjálfbærni í landbúnaði. Fjárfestingar í menntun og þjálfun skila arði til framtíðar. Bændur þurfa að eiga möguleika til að afla sér þekkingar við hæfi og eflast þannig í starfi. Þetta er ekki síst nauðsyn því að efnahagslegir áhrifaþættir við uppbyggingu sjálfbærrar framleiðslu eru jafnmikilvægir þeim félags- og umhverfislegu.

Sanngjarnt afurðaverð

Við bændur þurfum sanngjarnt afurðaverð. Í virðiskeðju þar sem bændur eru oft í þröngri stöðu á milli afurðastöðva og aðfangabirgja, hafa þeir oft lítið svigrúm til samninga. Ákvörðun um afurðaverð er oftast ekki í höndum bændanna sjálfra og þeir geta ekki mótað markaðinn. Við erum þakklát fyrir stuðning og traust neytenda og myndum vilja nánara samband þar á milli. Bændur sem vinna saman í gegnum samvinnufélög eru í betri stöðu til að nýta sér markaðstækifæri og aðlagast niðursveiflum á markaði eða á öðrum vettvangi.

Þörf á stuðningi til að styrkja stöðu bænda innan virðiskeðjunnar

Frekari aðgerða er þó þörf á sviði stefnumótunar, lagaumhverfis og annarra þátta í starfsumhverfi bænda. Við þurfum allan þann stuðning sem mögulegt er til að styrkja stöðu bænda innan virðiskeðjunnar. Ef bændum er ekki umbunað á sanngjarnan hátt fyrir framleiðslu sína í formi afurðaverðs, þá verður ekki um neitt fæðuöryggi að ræða, engin framleiðsla endurnýjanlegrar orku og engin þróun í hinum dreifðari byggðum. Þangað verður ekkert að sækja.

Lykilatriðið til að mæta áskorunum okkar tíma er að bæta afkomu í landbúnaði. Með því er tryggt að starf í landbúnaði verði ábatasamur og sjálfbær valkostur fyrir ungt fólk og auðveldi nauðsynleg kynslóðaskipti í greininni.

Arðsemi nauðsynleg

Arðsemi er nauðsynleg svo landbúnaður geti keppt um vinnukrafta við atvinnugreinar í þéttbýlinu og hægt sé að fjárfesta í þeim undirstöðum sem knýja áfram sjálfbæra og félagslega þróun landbúnaðarsamfélaganna.

Hvert svæði eða land hafi tækifæri til að þróa sinn landbúnað

Að lokum þá verður rétturinn að stunda landbúnað að fela í sér að hvert svæði eða land hafi tækifæri til að þróa sinn landbúnað í ljósi þeirra möguleika sem fyrir hendi eru á hverjum stað. Áhersla á samkeppnishæfni má ekki koma í veg fyrir að hvert svæði geti nýtt tækifæri sín til landbúnaðar. Jafnræði á þessu sviði stuðlar að almennu jafnrétti milli landa. Það stuðlar einnig að fæðuöryggi, eykur fjölbreytileika, vöruframboð og stöðugleika landbúnaðarframleiðslunnar á heimsvísu. Þetta markmið ætti að vera sameiginlegt hverju samfélagi fyrir sig og ætti að viðurkennast sem almannagæði.

Á of mörgum sviðum, á héraðs-, lands- og alþjóðavísu eru bændur jaðarsettir og neitað um bæði tjáningarfrelsi og áheyrn. Við bændur þurfum að ná eyrum þeirra sem taka ákvarðanir. Stjórnmálamenn og aðrir stefnumótandi aðilar í hverju samfélagi þurfa að tala við og hlusta á bændur, en ekki ræða málefni þeirra að okkur fjarstöddum.

Við bændur höfum brauðfætt jörðina og munum halda því áfram. Við framleiðum lífsorkuna.
Ályktun ársfundar Alþjóðasamtaka bænda, WFO í þýðingu Sigurðar Eyþórssonar. −

Millifyrirsagnir eru blaðsins.
Frumrit.

http://www.nfu.org/wp-content/uploads/2015/06/WFO_GA2015_farmer_declarations_eng_print-1.pdf

Áhersla á greiðslumarkið
Fréttir 22. febrúar 2024

Áhersla á greiðslumarkið

Á deildarfundi sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands var samþykkt nær samhljóð...

Nú þarf að láta verkin tala
Fréttir 22. febrúar 2024

Nú þarf að láta verkin tala

Halldóra Hauksdóttir verður áfram formaður búgreinadeildar eggjabænda. Meðstjórn...

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar
Fréttir 22. febrúar 2024

Misræmi milli framleiðslu og greiðslumarkseignar

Tveir mjólkurframleiðendur uppfylltu ekki yfir 200.000 lítra af greiðslumarki í ...

Formannsslagur í vændum
Fréttir 22. febrúar 2024

Formannsslagur í vændum

Gunnar Þorgeirsson og Trausti Hjálmarsson hafa gefið kost á sér í embætti forman...

Betri afkoma í garðyrkju
Fréttir 22. febrúar 2024

Betri afkoma í garðyrkju

Afkoma ylræktenda fer batnandi en útiræktenda versnandi.

Seljavellir fyrirmyndarbú ársins 2024
Fréttir 22. febrúar 2024

Seljavellir fyrirmyndarbú ársins 2024

Seljavellir í Nesjum í Hornafirði var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda Bænda...

Opið fyrir umsóknir
Fréttir 21. febrúar 2024

Opið fyrir umsóknir

Opnað var fyrir umsóknir í Matvælasjóð þann 1. febrúar síðastliðinn.

Esther hættir eftir tólf ára starf
Fréttir 21. febrúar 2024

Esther hættir eftir tólf ára starf

Esther Sigfúsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins á...