Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sjálfbærni í landbúnaði – Hvað er það?
Mynd / BBL
Lesendabásinn 27. apríl 2017

Sjálfbærni í landbúnaði – Hvað er það?

Höfundur: Auður Magnúsdóttir
„Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum“ (1). Síðan skilgreiningin á sjálfbærni var sett  fram á þennan hátt árið 1987 hefur vegur sjálfbærni risið með ógnarhraða og hugtakinu er fleygt fram við hin ýmsu tækifæri, oft án mikils skilnings á því hvað það raunverulega merkir.  
 
Með sjálfbærni sjáum við til þess að auðlindir okkar skaðist ekki.  Sjálfbær verkefni þurfa að ganga upp efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega þannig að þau skilji ekki eftir fjárhagslegar skuldir, brotin samfélög eða óafturkræfan skaða á jörðinni. Þetta eru hinar þrjár stoðir sjálfbærni og allar eru þær jafn mikilvægar og háðar hver annarri. Verkefni sem skilar sér í fjárhagslegum ávinningi og verndar náttúruna en rýrir mannauð, eyðileggur menningararf eða sprengir samfélög er ekki sjálfbært.  Með því að hafa sjálfbærniskilgreininguna í huga og þrjár stoðir hennar er ljóst að sjálfbær þróun er eina módelið sem gengur upp til lengdar. Ef við ætlum að hugsa hlutina í meira en nokkrum kjörtímabilum er sjálfbærni rökrétta viðmiðið. Þetta skýrir vinsældir hugtaksins.
 
Stærsta ógnin sem steðjar að okkur sem samfélagi manna í dag er loftslagsváin og hlýnun jarðar. Orsökin er ósjálfbær nýting orkuauðlinda. Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna gengur út á að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C miðað við hitastig jarðar fyrir iðnbyltinguna en sú hækkun hefur samt sem áður í för með sér umtalsverðar breytingar á loftslagi og umhverfi jarðarinnar. Til þess að ná þessu marki hafa ýmsar tæknilausnir verið settar fram sem geta slegið á hlýnunina en ljóst er að ekki verður dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda nema með því að draga verulega úr neyslu Vesturlandabúa.
 
Sú þjóð sem mengar andrúmsloftið mest af gróðurhúsalofttegundum er Kína með sínum ógnarstóru og fjölmörgu kolaorkuverum.  Þriðjungur af útblæstri Kína af gróðurhúsalofttegundum orsakast aftur á móti beint af framleiðslu á vörum til útflutnings (2): til okkar á Vesturlöndum. Við getum breytt neyslumynstri okkar til að bregðast við, látið gera við bilaða hluti í stað þess að kaupa nýja og hætt að kaupa „kinderegg“, ný föt á hverju ári og annan bíl á heimilið, en við getum samt ekki hætt að kaupa matvörur.  
Því hvílir gífurlega mikil ábyrgð á okkur sem störfum innan landbúnaðargeirans. Við verðum að halda áfram að framleiða hollan og góðan mat á viðráðanlegu verði en við þurfum að gera það á sjálfbæran hátt og við þurfum að gera það án þess að heildarlosun á gróðurhúsalofttegundum aukist. Hvaða möguleika höfum við? Við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og við getum bundið þær þannig að þær hætti að stuðla að hlýnun jarðar.  
 
Í október 2016 kom út skýrsla sem unnin var fyrir verkefnisstjórn um loftslagsvænni landbúnað af Jóni Guðmundssyni sérfræðingi hjá LbhÍ (3). Þar hefur hann kortlagt losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og þar með þá möguleika sem íslenskur landbúnaður hefur til þess að draga úr sinni heildarlosun, bæði með aðgerðum til þess að minnka beina losun en einnig með aðgerðum sem binda gróðurhúsalofttegundir.  
 
Hann skiptir losun frá landbúnaði í losun beint frá býlum og losun frá landnotkun. Til þess að draga úr losun frá býlum vegur hin margumrædda aðgerð, að nýta metan sem losnar frá býlunum til þess að fullnægja orkuþörf þeirra, mest. Um þetta hefur verið fjallað ýtarlega áður og verður ekki lýst frekar. Jón bendir einnig á losun sem hlýst af áburðagjöf, en með of mikilli inngjöf köfnunarefnis í lífríkið eykst framleiðsla á hláturgasi frá jarðvegsbakteríum sem er u.þ.b. 300 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Jón bendir einnig á losun vegna bruna á jarðefnaeldsneyti véla býlanna en úr henni má draga með hagkvæmari notkun véla og réttu aksturslagi en einnig má nýta metangas frá býlunum sjálfum í stað díselolíu á vélar.  
 
Stærstur hlutur landbúnaðar í losun gróðurhúsalofttegunda hlýst af landnotkun. Þar eru stærstu þættirnir framræsla mýra, jarðvegsrof og rýrnun á kolefnisforða lands með skerta gróðurþekju. Aukinna rannsókna er þörf á þessum sviðum þar sem skekkjumörk varðandi losun eru stór.  Endurheimt votlendis getur dregið töluvert úr losun, en þar er mikill munur frá einu svæði til annars. Þar sem framræslur eru mjög gamlar getur stór hluti lífræna efnisins þegar hafa tapast og ávinningurinn af endurheimtinni því minni.
 
Endurheimt slíkra svæða skilar mögulega ekki miklum ávinningi m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda þó mikið vinnist í því að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og hindra frekara útskol næringarefna. Rétt er að geta þess að af framræstu landi er einungis 13% nýtt í jarðrækt og um helmingur af því sem eftir stendur er nýtt til beitar. Stór hluti er því ekki nýttur á nokkurn hátt.
 
Landeyðing vegna ofbeitar hefur verið í umræðunni alla síðustu öld og það sem af er þessari. Mikið af íslensku landi þolir vel beit og getur hagnast af henni.  Annað land þolir hana verr en ekkert land þolir ofbeit, það er það sem felst í orðinu. Rof á gróðurþekju og tilheyrandi tap á jarðvegi er orsök stórs hluta losunar frá landbúnaði skv (3) en hér eru skekkjumörkin stór vegna þess að kortlagning á útbreiðslu rofs er unnin á grófum skala. LbhÍ hefur starfað að þessu í áraraðir en hefur skort fjármagn.  Nýlegur samningur landgræðslunnar við samtök sauðfjárbænda um sameiginlegt átak í málum er varða beit og rof gróðurþekju og jarðvegi er glæsilegt og framsýnt framtak og mun áreiðanlega skila okkur langt á þeirri leið að ná frekari tökum á þessu vanda.  
 
Við í landbúnaðargeiranum höfum mikið af tækifærum til þess að koma sterk inn í baráttuna gegn loftslagsvánni og getum í raun ekki annað. Með því að taka af skarið og skipa okkur sem störfum að landbúnaði í fremstu röð þeirra sem berjast gegn hlýnun jarðar munum við búa til vörur sem eru mjög verðmætar.  Við þurfum betri aðferðir til þess að meta okkar losun og staðla sem sýna losun frá innlendri landbúnaðarframleiðslu.  Allur landbúnaðargeirinn þarf að líta til þess frumkvæðis og framsýni sem garðyrkjubændur hafa sýnt við að láta meta losun gróðurhúsalofttegunda við innlenda framleiðslu á grænmeti samanborið við erlenda (4). Við þurfum að benda okkar viðskiptavinum hérlendis sem eru rúmlega þrjúhundruð þúsund Íslendingar og tvær milljónir ferðamanna, sem flestir elska náttúru Íslands, að við erum meðvituð um okkar hlutverk sem framleiðendur framúrskarandi vöru, sem framleidd er á eins sjálfbæran hátt og hægt er. Þannig sköpum við raunverulega verðmæti til langs tíma.
 
Auður Magnúsdóttir
 
1. Brundtland, G. H., and Khalid, M. (1987) Our common future. New York  – 2. Weber, C. L., Peters, G. P., Guan, D., and Hubacek, K. (2008) The contribution of Chinese exports to climate change. Energy Policy 36, 3572-3577. – 3. https://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Greining-a-losun-grodurhusa-vegna-landbunadar_161012JG_okt.pdf. – 4. http://lota.is/wp-content/uploads/2016/08/kolefnisspor-garðyrkjunnar.pdf.
Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...