Sindri Sigurgeirsson hættir sem formaður Bændasamtakanna
Sindri Sigurgeirsson, sem verið hefur formaður Bændasamtaka Íslands frá 2013, hefur óskað eftir því að stíga til hliðar. Hann tilkynnti þetta á starfsmannafundi í Bændahöllinni fyrr í dag og í bréfi til trúnaðarmanna bænda. Sindri tekur við nýju starfi í apríl sem svæðisstjóri Arion-banka á Vesturlandi með aðsetur í Borgarnesi. Í ljósi þeirra breytinga lætur hann af öllum trúnaðarstörfum fyrir samtök bænda, segir í tilkynningu frá Bændasamtökunum
Haft er eftir Sindra á bondi.is að hann sé um þessar mundir búinn að starfa að félagsmálum bænda í tuttugu ár.
„Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og gríðarmiklar breytingar orðið. Þau sex ár sem ég hef verið formaður Bændasamtakanna hafa verið annasöm og krefjandi en umfram allt skemmtilegur tími. Oft hefur blásið hressilega á móti í umræðu um landbúnaðarmál en alltaf er jafn ánægjulegt að sjá hvað velvild almennings er mikil gagnvart íslenskum bændum. Á þessum tíma hef ég kynnst mikið af fólki úr öllum greinum samfélagsins, með mismunandi skoðanir á öllu því sem tengist landbúnaði. Öllu þessu fólki vil ég þakka gott samstarf og hressileg skoðanaskipti. Samstarfsfólki mínu og framvarðasveit landbúnaðarins þakka ég kærlega fyrir frábært samstarf,“ segir Sindri.
Guðrún Tryggvadóttir tekur við
Við formannsembættinu tekur þann 1. mars núverandi varaformaður samtakanna, Guðrún Tryggvadóttir bóndi í Svartárkoti í Bárðardal í S-Þingeyjarsýslu. Guðrún er menntaður kennari en rekur sauðfjárbú í Svartárkoti með systur sinni og fjölskyldum þeirra. Þar er einnig rekið menningar- og fræðslusetur auk ferðaþjónustu í Kiðagili í sömu sveit.
Fyrsta konan til að gegna formennsku í heildarsamtökum bænda á Íslandi
Guðrún er fyrsta konan til að gegna formennsku í heildarsamtökum bænda á Íslandi, allt frá því að þau fyrstu voru stofnuð undir nafninu „Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag“ árið 1837. Bændasamtök Íslands voru stofnuð í núverandi mynd árið 1995.
Við þessar breytingar verður einnig breyting á stjórn Bændasamtakanna. Guðrún Lárusdóttir, bóndi í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði, sem er fyrsti varamaður í stjórn tekur sæti í aðalstjórn frá 1. mars. Guðrún Lárusdóttir er einnig formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga.
Guðrún Tryggvadóttir er fyrsta konan til að taka að sér formennsku í heildarsamtökum bænda á Íslandi.