Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fjöldi veitingahúsa, sem gestum Siglufjarðar stendur til boða að sækja meðan á dvöl stendur, hefur vakið athygli langt út fyrir bæjarmörkin.
Fjöldi veitingahúsa, sem gestum Siglufjarðar stendur til boða að sækja meðan á dvöl stendur, hefur vakið athygli langt út fyrir bæjarmörkin.
Mynd / MÞÞ
Fólk 16. ágúst 2017

Siglufjörður er matarbær

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Þessi tilnefning kom okkur á óvart, við vissum ekki af henni fyrirfram. En það er örugglega ekki að ástæðulausu sem Siglufjörður hlýtur þessa tilnefningu og fari leikar svo að við vinnum til verðlauna yrði það gríðarlega mikil lyftistöng fyrir bæinn. Ég held að Siglufjörður sé vel að þessari tilnefningu komin,“ segir Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi í Fjallabyggð. Siglufjörður hefur verið tilnefndur til Embluverðlauna í flokknum Mataráfangastaður Norðurlanda 2017. 
 
Embla er heiti á norrænum matarverðlaunum sem bændasamtök á Norðurlöndum standa að í samvinnu við norrænu ráðherranefndina. Alls eru flokkarnir sjö talsins, en Embluverðlaun verða veitt á stærstu matarhátíð Norðurlandanna sem fram fer í Kaupmannahöfn 24. ágúst næstkomandi. 
 
Uppbygging í kjölfar samgöngubóta
 
Siglufjörður var í eina tíð einna þekktastur fyrir umfangsmikla síldarútgerð, en við hvarf síldarinnar á sjöunda áratug síðustu aldar þvarr áhugi Íslendinga á að sækja Siglufjörð heim og var þar næsta fátt um ferðamenn. Bæjarbragurinn hefur heldur betur breyst á örfáum árum og má segja að nú  sé líflegt um að litast á Siglufirði árið um kring. Þar skipta miklar breytingar í samgöngumálum verulegu máli og með tilkomu Héðinsfjarðarganga varð leiðin greiðari en áður var. Siglfirðingar sjálfir notuðu tækifærið og hafa af myndarbrag byggt upp öfluga ferðaþjónustu þar sem m.a. matur og matarupplifun er í öndvegi.  Siglufjörður er nú í hópi eftirsóttustu áfangastaða ferðamanna.
 
Síldarminjasafnið eitt af kennileitum bæjarins
 
Staðurinn byggir á sameiginlegri mat­arhefð Norðurlanda og hefur sameiginlegt matarhráefni frændþjóðanna, síldina, í hávegum. Síldarminjasafnið er eitt af kennileitum bæjarins og fjölgar gestakomum þangað ár frá ári. Á safninu eru varðveittar minjar um athafnasemi sem tengist matarframleiðslu og gerir gestum auðvelt fyrir að sjá hvílík straumhvörf hafa orðið í viðhorfi til matarins.  Á safninu opnast augu gesta fyrir því hversu mikilvæg sjálfbær nýting náttúruauðlinda er. Sé óvarlega farið eins og tilfellið var með síldina í eina tíð verða líffræði- efnahags- og samfélagslegar afleiðingar óhjákvæmilega neikvæðar.
 
Horft til Siglufjarðar þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustu
 
Sú uppbygging sem átt hefur sér stað á Siglufirði hefur eflt samfélagið á nýjan leik, byggður hefur verið upp skemmtilegur áfangastaður sem marga fýsir heim að sækja. Í auknum mæli er horft til Siglufjarðar þegar kemur að þróun ferðaþjónustunnar.  Á þann hátt hefur Siglufjörður unnið sér sess í hugum landsmanna sem nýr og spennandi áfangastaður, þar eru í auknum mæli haldnar ráðstefnu af ýmsu tagi sem og fundir, enda allt til alls á staðnum, góðir gistimöguleikar, veitingahús með fjölbreyttu og ólíku úrvali og möguleikar til afþreyingar eru fjölmargir og mismundandi – eitthvað við allra hæfi eins og þar stendur.
 
Veitingahúsin hafa vakið verðskuldaða athygli
 
Linda Lea segir að sá mikli fjöldi veitingahúsa sem gestum Siglufjarðar standi til boða að sækja meðan á dvöl stendur hafi vakið athygli. Nú í sumar hafi til að mynda verið vinsælt að leggja leið sína á Siglunes Restaurant, þar sem starfar kokkur frá Marokkó sem komið hafi með nýja og ferska strauma í gamla síldarbæinn. Harbor House, fiskréttastaður niður við höfn, sé einnig vel sóttur og vinsæll í hópi ferðamanna. Fiskbúð Siglufjarðar hefur í hádeginu boðið upp á fisk og franskar upp á breskan máta og er jafnan löng röð þar fyrir utan á þeim tíma.  Sunna, veitingastaður á Sigló hótel sem dregur nafn sitt af samnefndum síldarbragga sem eitt sinn stóð í bænum, býður að sögn Lindu upp á skemmtilegan og fjölbreyttan matseðil sem enginn verði svikinn af. Þá nefnir hún einnig staðinn niður við smábátahöfn, Rauðku,  sem margir hafa sótt. Svo er einnig veitingastaður sem dregur jafnan marga að, Torgið. Þar er alltaf fullt út úr dyrum. „Við höfum afar fjölbreytt úrval hér í bænum af alls kyns veitingastöðum sem hver og einn hefur sitt sérkenni. Þeir hafa greinilega vakið verðskuldaða athygli og við hér á Siglufirði erum mjög stolt af að geta boðið upp á þessa fjölbreytni í ekki stærra bæjarfélagi,“ segir hún.
 
„Bærinn var í eina tíð utan alfara­leiðar ferðamanna en umskiptin hafa orðið gríðarleg. Uppbygging síðustu ára hefur verið mikil og markviss þar sem margir hafa lagt hönd á plóg. Gömlu húsin sem gerð hafa verið upp setja svip sinn á bæinn og eiga þátt í heillandi bæjarbragnum, en þar hafa bæjarbúar sjálfir verið iðnir við kolann. Það er yfirleitt samdóma álit þeirra sem hingað koma nú að það sé meira en vel þess virði að heimsækja Siglufjörð,“ segir Linda.
 
Gjörbreyting á bæjarbragnum
 
Sildarminjasafnið laðar vitanlega marga að og leggja ferðamenn leið sína til Siglufjarðar í þeim tilgangi að skoða það. „Safnið hefur skapað sér sess sem eitt af kennileitum bæjarins,“ segir hún. 
 
Komur skemmtiferðaskipa  eru fleiri nú í sumar en áður hefur verið og búist við að um 35 skip hafi viðkomu á Siglufirði, en flestir farþeganna líta við á Síldarminjasafninu og er heimsókn þangað meginástæða þess að skipin staldra við í bænum.
 
Menningarstarfsemi af ýmsu tagi er einnig gert hátt undir höfði á Siglufirði sem er ágætis blanda við matarupplifun staðarins, en þar er Þjóðlagasetur Íslands, Ljóðasetur Íslands og starfsemi Alþýðuhússins, með listakonuna Aðalheiði Eysteins­dóttur í fararbroddi, hefur hin síðari ár verið mjög öflug.
 
„Almennt má segja að gjörbreyting hafi orðið á bæjarbragnum á Siglufirði, hér hefur orðið breyting sem eftir er tekið,“ segir Linda Lea.
 

7 myndir:

Skylt efni: Siglufjörður

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...