Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Segir nú að refum fækki en fullyrti í vor að þeim fjölgaði − „vegna vetrarveiða“
Fréttir 12. nóvember 2014

Segir nú að refum fækki en fullyrti í vor að þeim fjölgaði − „vegna vetrarveiða“

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Náttúrufræðistofnun Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu hinn 22. október sl. um að íslenski refastofninn sé á niðurleið og að fækkun í stofninum hafi byrjað 2009. Er þetta þvert á upplýsingar frá veiðimönnum og bændum víða um land sem og upplýsingar frá spendýravistfræðingi Náttúru­fræðistofnunar í maí á þessu ári sem taldi að refnum færi fjölgandi.

Í Fréttablaðinu í maí var frétt um veiði undir fyrirsögninni „Aukin veiði fjölgar ref“. Rætt var við Ester Rut Unnsteinsdóttur, spendýravistfræðing hjá Náttúru­fræði­stofnun Íslands. Þar hélt hún fram þeirri þversögn að auknar veiðar á ref hafi leitt til þess að refnum fjölgaði ört. Vakti þetta mikla undrun meðal reyndra veiðimanna og bænda sem þekkja vel til veiða og háttalags refsins.

Veiðimenn halda lífi í refnum!

Útskýringar spendýra­vist­fræðings­ins á því hvernig á þessu stæði vöktu jafnvel enn meiri undrun. Þar sagði hún að aukin áhersla hafi verið á vetrarveiði, sem fer þannig fram að egnt er fyrir refina með því að bera út æti og þeir skotnir þegar þeir koma nærri. Í fréttinni sagði Ester að margt benti til þess að allt of mikið æti væri sett út og þar sem það er ekki vaktað öllum stundum, verði það til þess að refir sem ella hefðu soltið í hel yfir veturinn nái að komast í fæði og lifa af. Hún lagði til að haldið verði utan um hversu mikið æti sé lagt út. Það gæti jafnvel verið ódýrari aðgerð til að fækka dýrunum að hætta að leggja út æti fyrir refi yfir veturinn.

Þá var í fréttinni sagt að refastofninn á Íslandi væri á bilinu 10 til 13 þúsund dýr.

Rúmum fimm mánuðum seinna ...„Refum er farið að fækka“

Eftir fréttina um fjölgun refsins frá því í maí rak veiðimenn í rogastans þegar  tilkynning barst frá Náttúrufræði­stofnun 22. október  um algjöran viðsnúning í viðkomu refsins. Honum hafi meira að segja verið að fækka allt frá árinu 2009!

Í tilkynningunni, sem undirrituð er af Ester Rut Unnsteinsdóttur segir:

Íslenski refastofninn á niðurleið

„Refum er farið að fækka hér á landi eftir samfelldan vöxt um áratugaskeið. Samkvæmt nýjasta mati voru um þriðjungi færri dýr í stofninum en þegar hann var síðast metinn árið 2010. Fækkunin tekur jafnt til þeirra svæða þar sem refurinn er veiddur og til friðlanda eins og á Hornströndum en þar varð hrun í stofninum árið 2014. Ástæður þessara stofnbreytinga eru óþekktar en tengjast líklega veðurfari, fæðuskilyrðum, heilbrigði dýranna og jafnvel aðbornum mengunarefnum. Veiðimenn eru lykilaðilar í vöktun og rannsóknum á refastofninum en þeir senda hræ af felldum dýrum til krufninga og aldursgreiningar.“

Nýjustu útreikningar á stærð íslenska refastofnsins sýna að refum hefur fækkað talsvert á undanförnum árum. Er þetta í fyrsta skipti síðan mælingar hófust að refum fækkar á landinu. Haustið 2007 hafði stofninn verið í samfelldum vexti í meira en 30 ár og var orðinn ríflega áttfalt stærri en í upphafi vöktunarinnar árið 1979. Um þær mundir var íslenski refastofninn að rétta úr sér eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki. Stofnbreytingin var misjöfn, fjölgunin fór rólega fram fyrstu 15–20 árin. Árið 1997 fór stofninn að vaxa hraðar en á þeim tíma var áhersla aukin á vetrarveiði þótt grenjavinnsla hafi ekki minnkað að sama skapi. Enn hraðari aukning varð eftir 2004 og náði hún hámarki árið 2008. Næstu tvö árin, 2009 og 2010, fækkaði refum mikið, eða um 32% á landinu í heild. Vísbendingar eru um að fækkunin hafi haldið áfram næstu ár, 2011–2014, en ekki er hægt að fullyrða að svo hafi verið á þessu stigi. [feitletrun blaðsins]“ − Þetta stangast algjörlega á við orð spendýravistfræðingsins í Fréttablaðinu frá því í maí 2014. Síðan segir í tilkynningunni:

„Reikniaðferðin sem beitt er við stofnmatið byggir á bakreiknaðri lágmarksstærð hvers árgangs veiðinnar á hverju ári. Síðasta stofnmat var unnið árið 2010 og gaf árlega stofnstærð frá upphafi vöktunar til ársins 2007. Einungis er hægt að reikna út með nokkurri vissu 3–5 ár og lengra aftur í tímann þar sem enn er talsvert stór hluti yngri árganga óveiddur þegar matið fer fram.“ Síðan segir:

„Skekkjumörkin eru hærri eftir því sem fleiri dýr eru á lífi í þeim árgöngum sem verið er að meta. Ekki verður hægt að segja til um þróun stofnsins og stöðu hans 2011–2014 með öruggum hætti fyrr en fleiri dýr úr hverjum þessara árganga hafa verið veidd (refir lifa í 10–11 ár).“

Þá segir einnig:
„Vöktun refastofnsins og rannsóknir henni tengdar eru alfarið byggðar á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land. Þeir senda hræ af felldum refum til krufninga og aldursgreiningar af öllum svæðum og árstímum. Með hverju sendu hræi fylgir útfyllt eyðublað þar sem fram koma upplýsingar um veiðina, dagsetningu og skotstað. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að aldursgreining og útreikningar verði sem nákvæmust. Veiðimenn eiga miklar þakkir skilið fyrir að útvega sýni til rannsókna og vöktunar á íslenska refastofninum.

Ástæður stofnbreytinga refsins geta verið af margvíslegum toga, meðal annars breytingar á veðurfari, fæðuskilyrðum, heilbrigði dýranna og aðbornum mengunarefnum. Burðargeta landsins er óþekkt en hún er breytileg og hugsanlega hefur henni verið náð, a.m.k. á einhverjum svæðum. Lykilþættir í fjölgun og fækkun stofna er fjöldi dýra sem fæðast og lifa það að tímgast ásamt fjölda þeirra sem deyja eða tímgast ekki (frjósemi, geldhlutfall og dánartíðni). Þetta er allt metið út frá veiðigögnum og því úrtaki veiðarinnar sem skilað er inn til rannsókna.

Þar sem refir tímgast einu sinni á ári, lifa einkvænislífi og helga sér óðul þar sem fjölskyldan heldur til yfir sumarið eru gögn um grenjavinnslu á hverju landsvæði mjög mikilvæg. Þannig má fá innsýn í þéttleika og hægt að spá betur um búsvæðaval og burðargetu landsvæða.

Samkvæmt upplýsingum frá veiðimönnum af Suðurlandi voru fleiri geldlæður á ferli á grenjatíma sumarið 2014 en þeir eiga að venjast. Einnig hafði nokkrum grenjaskyttum, bæði á Norður- og Suðurlandi gengið erfiðlega að finna greni í ábúð í vor. Á Vesturlandi bar svo við að yrðlingar voru mjög misstórir, sem gæti bent til óstöðugs eða minna fæðuframboðs.“

Hugsanlega var veturinn erfiður

„Hugsanlega var veturinn dýrunum erfiður enda snjóþungt víða og óhægt um vik að komast í æti. Áhugavert væri að fá upplýsingar frá veiðimönnum víðar af landinu um hver reynsla þeirra var af grenjavinnslu sl. sumar og hvort menn hafi orðið varir við eitthvað óvenjulegt undanfarið.“

Þetta er óneitanlega athyglisvert innskot og hlýtur að vekja spurningar. Óskiljanlegt er hvernig vísindamenn geta lagt fram fullyrðingu í nafni vísindastofnunar um að ref sé farið að fækka í landinu án þess að fyrir liggi haldbærar rannsóknir á forsendum þeirrar fullyrðingar. − Áfram heldur fréttatilkynningin með merkilegri fullyrðingu:

„Hin skarpa aukning í stofnstærð refa frá árinu 1997 hefur verið nefnd í samhengi við aukna hvatningu af hálfu yfirvalda til vetrarveiða. Þessu fylgdi því að óhóflegt magn ætis var lagt út sem agn á sumum svæðum. Takmarkandi þættir stofns á borð við tófuna eru einmitt fæða að vetrarlagi en hún skiptir höfuðmáli fyrir lífslíkur og frjósemi læðna. Aukið veiðiálag hafði ekki neikvæð áhrif á stofnvöxtinn enda hefur ekki verið sýnt fram á það hérlendis að beint orsakasamband sé milli veiðiálags og stærðar refastofnsins. [feitletrun blaðsins].“

Fylgst hefur verið með refum í friðlandi Hornstranda undanfarin 16 sumur með því að fara á þekkt greni, kanna ábúð í þeim og fylgjast með afkomu yrðlinga yfir sumarið. Þar varð nánast hrun í refastofninum síðastliðið sumar (2014) en fjöldi dýra fundust dauð í vor og aðeins fáein pör komu upp yrðlingum. Er þetta í fyrsta skipti sem eitthvað slíkt hefur gerst á rannsóknartímabilinu enda hefur ábúðahlutfall refagrenja á Hornströndum (og þar með fjöldi grendýra) verið stöðugt fram að þessu.

Samkvæmt veiðiskýrslum frá Hornströndum frá 8. áratug sl. aldar, þegar stofninn var í lágmarki á landsvísu, var ástandið svipað þá og nú: Óhægt var um vik fyrir grenjaskyttur að vinna greni þar sem læður gutu seint eða ekki og dauð dýr fundust að vorlagi. Veiðar hafa ekki verið stundaðar á Hornströndum frá árinu 1995.

„Af ofangreindu virðist ljóst að fækkunin í íslenska refastofninum sem hófst árið 2009 er enn í gangi, bæði þar sem veiðar eru stundaðar og eins þar sem tófan nýtur friðhelgi. [feitletrun blaðsins]
Ástæður hinna hröðu vaxtarbreytinga í stofninum á árunum 2004–2010 eru verðugt rannsóknarefni og er mikilvægt að kanna betur hvaða breytingar hafa orðið innan hvers landsvæðis fyrir sig á þessum tíma.“ − Svo mörg voru þau orð.

Engin svör

Bændablaðið sendi Ester Rut Unnsteinsdóttur, spendýra­vistfræðingi hjá Náttúru­fræði­stofnun Íslands, fyrirspurn í síðustu viku vegna þversagna í yfirlýsingum um  viðgang refastofnsins. Var það gert í framhaldi af samtölum við veiðimenn og bændur sem hafa mikla reynslu af ágangi refs og veiðum. Þar hafa veiðimenn m.a. bent á að ef Náttúrufræðistofnun miði sínar tölur við skil á skottum til sveitarfélaga og skilum sveitarfélaga á skýrslum þar um, þá  sé eðlilegt að tölur brenglist vegna veðurfarsaðstæðna í fyrravetur. Víða hafi háttað þannig til á síðastliðnum vetri að þekkt greni sem staðsett voru ofan 200 metra hæðarlínu voru á kafi í klaka og snjó allt frá því í september fram í maí. Refurinn hafi því ekki getað nýtt þau greni og fært sig niður á láglendið. Veiðimenn fái hins vegar ekki greitt fyrir að leita uppi ný greni og því séu eðlilega lítil skil á skottum af dýrum úr grenjum sem ekki voru nýtt. Þar af leiðir að skilatölur voru mjög brenglaðar.

Þá var spurt um tölur um áætlaðan fjölda refa eftir landsfjórðungum.
Vegna fullyrðinga veiðimanna og bænda um að refurinn sæki mjög grimmt í mófugl og sagnir ferðamanna af Hornströndum og víðar um að þar sjáist vart lengur mófugl var óskað eftir upplýsingum þar að lútandi. Þar sem um mjög mikilvægt spursmál er að ræða varðandi jafnvægi í náttúrunni hlýtur það að vera í verkahring Náttúrufræðistofnunar að rannsaka slíka hluti. Því var óskað eftir tölum úr talningu á ref á Hornströndum á undanförnum árum. Þá var einnig óskað eftir tölum úr talningu á mófugli á Hornströndum á undanförnum árum til samanburðar. Síðan var líka spurt:

Hefur Náttúrufræðistofnun rann­­sakað hvort sveiflukennd afföll í rjúpna­stofninum megi hugsanlega að hluta rekja til refsins og afkomumöguleika hans í mismunandi árferði?

Þegar blaðið fór í prentun hafði svar við fyrirspurninni ekki borist en  kvittað hafði verið fyrir móttöku  erindisins og sagt að því verði svarað við fyrstu hentugleika. 

Tollkvótum úthlutað
Fréttir 30. maí 2024

Tollkvótum úthlutað

Verð á tollkvótum á nautakjöti frá ESB-löndum hefur hækkað aftur.

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu
Fréttir 30. maí 2024

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu

Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir grein forstjóra Samkeppniseftirlitsin...

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 30. maí 2024

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Margrét Ágústa Sigurðardóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Bændasa...

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð
Fréttir 30. maí 2024

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð

Miklar kalskemmdir eru í túnum nokkuð víða við Eyjafjörð. Í Svarfaðardal er ásta...

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð
Fréttir 29. maí 2024

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð

Tíu milljónum króna var fyrir skemmstu úthlutað af innviðaráðuneytinu til verkef...

Afhending Kuðungsins
Fréttir 28. maí 2024

Afhending Kuðungsins

Sorpa og Bambahús eru handhafar Kuðungsins árið 2024.

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...