Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sauðaþjófar og innbrotsmenn
Á faglegum nótum 1. desember 2014

Sauðaþjófar og innbrotsmenn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Finnbogi Hermannsson er mörgum að góðu kunnur sem yfirmaður Svæðisútvarps Vestfjarða, útibús Ríkisútvarpsins, um áraraðir. Hann er einnig þekktur af störfum sínum sem blaðamaður, ritstjóri og rithöfundur. Nýjasta verk Finnboga er sögulega skáldsagan Illur fengur, sem mun án efa vekja athygli.

Sagan segir frá langri afbrotasögu í afskekktu héraði við Breiðafjörð á öndverðri 20. öld. Heimilisfólk á bæ í miðri sveit kemst upp með stórtækan sauðaþjófnað í áratug og að því er virðist í skjóli sýslumanns sem jafnframt er þingmaður sýslunnar. Nágrannabændur kæra æ ofan í æ, en verður ekki ágengt. Réttarhöld fara fram og skýrslur eru teknar af kærendum og meintum sauðaþjófum en þær lenda allar í harðlæstum skúffum sýslumanns.

Það er svo ekki fyrr en sauðaþjófarnir færa sig upp á skaftið og taka til við  annars konar og augljósari brot í sveitinni að héraðsmönnum er ofboðið. Sýslumaður heldur uppi réttarhöldum en í miðjum klíðum tekur dómsmálaráðherra landsins suður í Reykjavík málin í sínar hendur. Þau eru ekki lengur í höndum sýslumanns Dalamanna, heldur er það sjálfur lögreglustjórinn í Reykjavík sem skipaður er rannsóknardómari í málinu. Er það svo með næsta ævintýralegum hætti að meintur sakamaður er ginntur suður til Reykjavíkur með aðstoð hómópata sveitarinnar og héraðslæknis við Breiðafjörð vegna handarmeins. Hann er á leið á Landspítalann með handarmeinið en í Reykjavík tekur einn af vörðum laganna á móti honum við skipshlið en ekki neinn heilbrigðisstarfsmaður frá Landspítalanum.

Um þetta þegja öll málskjöl en upphefst ófyrirséð atburðarás með miklum afleiðingum.
Finnbogi sagði í samtali við Bændablaðið að þó um sé að ræða sögulega skáldsögu þá byggi hún á áður óbirtum málskjölum upp á 124 síður og öðrum heimildum.
Hér er brot úr bókinni Illur fengur eftir Finnboga Hermannsson:

Hundsbit

Eins og gerist í þröngu nábýli þóttist enginn á Ströndinni opinberlega hafa grænan grun um hver eða hverjir hefðu brotist inn í kaupfélagið þeirra í Tjaldanesi þegar það uppgötvaðist einn gráan og ofurvenjulegan haustdag. Húsbrot hafði ekki verið framið í þessu héraði frá því á Sturlungaöld að menn vissu. Varð skjótt samkomulag um að þetta hlytu að vera einhverjir aðkomumenn af sjó. Bara eins og Tyrkjaránið 1627 og ekki vonum seinna að kæmi nýtt Tyrkjarán sögðu bændur og brostu í kamp.

Aðkoman um morguninn þótti rosaleg og féllust mönnum hendur og trúðu vart sínum eigin augum. Rúða hafði verið mölvuð í glugga, brotin plokkuð úr og þjófurinn eða þjófarnir skriðið þar inn. Látið svo greipar sópa um birgðir kaupfélagsins og að endingu kastað tveimur brotnum melískössum í sjóinn. Eins og til að fela slóð sína eða hvað? Fyrstu viðbrögðin voru að taka í nefið sem alltaf veitti kærkominn umhugsunarfrest og pontan gekk á milli.

Kaupfélagsstjórinn og húskarlar hans tóku þessu eins og hverju öðru hundsbiti og vissu innst inni að lítið þýddi að kæra. Það fyrirfannst ekkert yfirvald til að senda kæru að svo stöddu. Það var eitthvað að vasast suður í Reykjavík og enginn staðgengill náttúrlega. Færi nú varla að ómaka sig vestur af meira tilefni en einu innbroti í fátækt kaupfélag, sögðu menn. Og þar að auki óvíst að yfirvaldið tryði svo ólíkindalegri sögu að nokkrum manni hefði dottið hug að fara að brjótast inn í þetta hungurkaupfélag kotkarlanna á Ströndinni og í Saurbænum. Hreppstjóra­skarninu var ekki áskapað að setja neinn rétt og ekkert annað að gera en negla fyrir gluggann og loka honum fyrir veðri og vindum. Menn færu svo í sín fjós eftir sem áður. Þyrfti svo líklega að panta vörur í staðinn fyrir þær sem hurfu, svo sem kaffibaunir, export og melís.

Ófært að eiga ekki rótarstuðul eða molasykur og korn í könnuna þegar nálgaðist jól. Tjónið lenti náttúrlega á félaginu því hverjum datt í hug að þjóftryggja vörulager á strönd við hið ysta haf og varla gegn bruna.

Búandfólk í hreppnum hafði sjaldan haft erindi sem erfiði að kæra þegar hvarf sauðkinda gekk úr hófi fyrr á öldinni. Sá grunur læddist með mönnum að yfirvaldið stæði alltaf með glæpnum. Þýddi náttúrlega að kærendur voru gerningsmennirnir og sátu uppi með að hafa ásakað blásaklausar mann­eskjur um lögbrot. En nú brá svo við að sveitin stóð frammi fyrir kaldrifjuðu innbroti og stórþjófnaði.

Komið var fram í miðjan janúar þegar sýslumanni og lögreglustjóra í einum og sama manninum þóknaðist að mæta á vettvang. Voru þá liðnir rúmlega tveir mánuðir frá innbrotinu Lög­regluréttur var fyrst settur í Tjaldanesi og auðvitað var vett­vangurinn löngu ónýtur og öll spor afmáð eða hulin snjó. Hófust fyrst strangar prófanir á aðstandendum kaupfélagsins og þeim sem höfðu komið að uppbrotnu húsinu. Tóku þær yfirheyrslur langan tíma og kom þá í ljós að menn höfðu skoðað vettvanginn og sett á sig. Jafnvel krotað eitthvað niður hjá sér. Ljósmyndavél var ekki tiltæk. Fundist hafði traðk eftir menn og hross en þau sönnunargögn ekki lengur nein sönnunargögn og lítið hlustað á slíkt.

Sýslumaður yfirheyrði kaup­félags­stjórann af smásmygli um það sem hafði horfið úr pakkhúsinu og mætti hann sem vitni til lögregluréttar í Tjaldanesi. Kaup­félagsstjórinn var dálítið óstyrkur en sagði í fyrsta lagi að tveir 50 punda sykurkassar hefðu verið brotnir upp með því að stígvélahæl hafði verið sparkað í hlið kassanna og innihaldið hirt. Kössunum hafði verið kastað í sjóinn framundan kaupfélaginu og sett grjót í þá svo þeir sykkju. Þeir flutu samt upp og rak á land neðan við kaupfélagið. Far eftir stígvélahæl sást greinilega á öðrum melískassanum. Í öðru lagi hafði þjófurinn eða þjófarnir stolið á bilinu 20 til 25 kílóum af strausykri úr heilum sekk sem var í sölubúðinni. Var horn skorið af sekknum og sykrinu ausið þar út. Í þriðja lagi hafði verið stolið nálægt 30 kílóum af kaffibaunum, 6 til 8 rjólbitum og einhverju af exporti. Vitnið kaupfélagsstjórinn treysti sér ekki til að meta hvort einhverju hefði verið stolið af álnavöru, en upplýsti að ekki hafði verið hróflað við 9 krónum sem lágu í járnkassa í ólæstu skrifpúlti í versluninni.

Þá var vitnið spurt hvort það vissi um einhver önnur gögn sem bent gætu á hver hefði framið innbrotið. Vitnið kvaðst hafa heyrt af förum eftir hest sem farið hefði verið með umrædda föstudagsnótt út Tjaldaneshlíð. Magnús bóndi í Tjaldanesi hafi séð spor á svokallaðri Deild og einnig að Þórólfur í Fagradal hafi orðið var fara eftir hest sem farið hefði verið með um svipað leyti yfir Fagradalssand. Honum var ekki kunnugt um að neinn hefði farið með hest þá leið umrædda nótt og því sé ekki ólíklegt að sporin séu eftir hest þess manns sem lítið hafi viljað láta bera á för sinni. Vitnið hafi einnig heyrt að Guðmundur á Nýp hafi séð ljós í glugga og verið farið með ljós úti á bænum Hleinabergi seinni hluta þessarar nætur sem um ræddi.

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.