Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Frá Fjóni.
Frá Fjóni.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 29. mars 2017

Sandlegubásar æskilegastir og gangsvæðin með rimlum

Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk Sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs Dýralækninga- og gæðadeild SEGES í Danmörku
Dagana 27. og 28. febrúar sl. fór fram hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Herning í Danmörku, betur þekkt sem Kvægkongres, eins og greint var frá í síðasta Bændablaði.
 
Alls voru haldnar 11 málstofur á þessu fagþingi og fer hér annar hluti umfjöllunar um fagþingið og gefinn sérstakur gaumur að málstofnunum „Við skrifborðið“, „Í fjósinu“, „Utan úr heimi“, „Kjötkálfaeldi“ og „Kynbótastarf“.
 
1. Við skrifborðið
 
Málstofan með þessu skemmtilega heiti snérist fyrst og fremst um bústjórn og hvernig kúabændur geta hlúð að rekstrinum t.d. með auknu skipulagi.
 
Í málstofunni voru flutt átta erindi og voru sum þeirra e.t.v. heldur dönsk, þ.e. einblíndu á danskar aðstæður og danskar lausnir svo ekki var mikið fyrir erlenda gesti að græða á þeim. Þó voru nokkur erindi einkar áhugaverð fyrir aðra en danska kúabændur og má þar t.d. nefna erindi Martin Hestbech frá SEGES og kúabóndans Niels Hedermann sem fjölluðu um það hvernig það er að vera með hjarðir á fleirum en einni bújörð. Þetta þekkist einnig hér á landi. Niels þessi rekur kúabúið Klovborg I/S sem hann á með konu sinni og föður. Þau eru með 1.150 Jersey kýr á fimm jörðum og hafa 920 hektara undir einnig. Þau mjólka Jersey kýrnar sínar á þremur stöðum, þar af með mjaltaþjónum á tveimur stöðum svo það er í mörg horn að líta en uppbygging búsins hefur fyrst og fremst legið í því að kaupa upp nágrannabú. Helstu vandamálin sem hann glímir við er gríðarlega mikill akstur á milli staða en í viku hverri þarf að keyra 3-400 km með fóður, aðföng og annað slíkt á milli þessara búa sem þó standa mjög þétt. Þá nefndi hann kosti þess að vera með marga starfsmenn að það hefur þvingað þau hjónin til þess að vera mun agaðri við bústjórnina, nota nú stimpilklukku og spá miklu meira en áður í vinnutímann – bæði sinn og annarra. 
Í málstofunni voru flutt önnur fín erindi m.a. varðandi mikilvægi skriflegra samninga við fóðurfyrirtæki, hvernig tryggja eigi rétta lagerstöðu, að læra að meta rekstrartölur búsins betur og fleiri mætti nefna en tek hér stuttlega fyrir erindi ráðunautsins Carsten Friis og kúabóndans Claus Drøhse en þeir fjölluðu um hvernig hægt sé að hagnast þrátt fyrir þunga skuldastöðu. Carsten fór almennt yfir efnið og hvað væri til ráða en fyrst og fremst eiga þau bú það sameiginleg, sem eru skuldug en með góðan rekstur, að þar er mikið og gott skipulag, afurðasemi kúnna yfir meðallagi og fóðrunarkostnaður lágur.
 
Mikið fjölmenni var á fagþingi nautgriparæktarinnar í Herning. 
 
Keypti 2009 og skilar alltaf tekjuafgangi
 
Claus er ungur kúabóndi, 33ja ára og rekur búið Alslev I/S og er með 360 kýr. Hann keypti búið árið 2009 og hefur eðlilega allverulega skuldir enda ekki búið lengi. Hann hefur þó getað rekið búið með tekjuafgangi öll árin, óháð sveiflum á afurðastöðvaverði og það er eitthvað sem aðrir geta lært af honum. Hann sagði lykilinn felast í góðu skipulagi og því að hann gerir sér afar vel grein fyrir eigin veikleikum, sem hann bætir upp með því að vera með gott starfsfólk í kringum sig sem er sterkt á þeim sviðum sem hann er það ekki. 
 
Hann var með lífrænan rekstur fram til ársins 2015 en hætti því þá og taldi betra að standa utan þess kerfis og geta náð meiru út úr kúnum með hefðbundnum framleiðsluaðferðum. Hann hefur nú náð að snarlækka framleiðslukostnað mjólkurinnar hjá sér og árið 2016 var hann 2,32 danskar krónur á hvert framleitt kíló mjólkur eða um 36,3 íslenskra krónur og hefur þá verið tekið tillit til alls kostnaðar s.s. afborgana, launa og þess háttar. En hvernig nær hann slíkum árangri? Það felst í nokkrum þáttum að hans sögn en m.a. góðu skipulagi sem skilar sér í lægri kostnaði við viðhald og lítið fer til spillis eins og t.d. fóður. Þá er sjúkdómatíðni afar lág á búinu, framleiðslukostnaður fóðursins lágur og meðalnyt kúnna há. Saman skilar þetta góðum rekstri og fínum launum til hans sjálfs, þrátt fyrir skuldir.
 
2. Í fjósinu
 
Í þessari málstofu voru flutt 10 erindi og var áhersla lögð á samspil húsvistar, bústjórnar og heilbrigðis. Mörg erindi snéru að uppeldi kálfa og var erindi James K. Drackley, prófessors við háskólann í Illinois í Bandaríkjunum einkar áhugavert en hann fjallaði um tímabilið frá mjólkurfóðrun að fyrsta burði og hvernig megi hámarka eldi á kvígum. Lagði hann mikla áherslu á að hlúa vel á kvígunum þegar þær eru teknar af mjólk. Einnið að stærðarflokka kvígurnar þannig að kvígur, sem eru áþekkar að stærð, séu alltaf saman og þær sem ekki passa inn í hópinn séu fluttar í hópa sem henta þeim hvað stærð varðar. 
 
Þegar þær eru teknar af mjólk þurfi að gefa þeim vel af þar til gerðum kálfafóðurblöndum svo þær haldi vaxtarhraðanum fyrstu mánuði lífsins. Hætta eigi að gefa mjólkina í áföngum og bæta upp með kálfafóðurblöndu þannig að umskiptin við fóðrunina verði sem minnst. Sé það gert þá séu líkurnar mestar á því að þær verði öflugar mjólkurkýr. 
 
Eitt af því sem hann hefur tekið eftir er að allt of oft fái kvígukálfar ekki nóg af hreinu og góðu vatni en að hans mati er vatn sem „fóður“ afar vanmetið. Þá hefur hann séð of oft skort á steinefna- og vítamíngjöf kvígukálfa, sem bitnar illa á vexti þeirra, sérstaklega þegar þær eru hafðar á beit á sumrin. Þessu þurfi allir bændur að huga sérstaklega vel að.
 
Sandlegubásar æskilegastir og gangsvæðin með rimlum
 
Annað áhugavert erindi var flutt af Íslandsvininum Önju Juul Freudendal, en Anja er sérfræðingur í hönnun fjósa. Anja ræddi um samhengið á milli fjóss og ýmissa framleiðsluþátta en nýverið lauk umfangsmiklu rannsóknaverkefni í Danmörku þar sem skoðuð voru 770 kúabú með það að leiðarljósi að meta framangreint samhengi. Í ljós komu margar áhugaverðar niðurstöður s.s. beint samhengi á milli afurðasemi og fjósgerðar, þar sem legubásafjós voru að jafnaði með mun hærri meðalafurðir en básafjós. Þá var afurðasemin einnig mun hærri, heilum 1.000 kg orkuleiðréttrar mjólkur á kú, í legubásafjósum sem voru með sand eða mykjutrefjar í legubásunum í stað þess að vera með dýnur eða gúmmímottur.
 
Fjósgerðin hafði einnig áhrif á meðaltal frumutölu en hæsta frumutalan var í hálmdýnufjósum, næst hæst í básafjósum en lægst í legubásafjósum og innan legubásafjósa voru fjós með sand í legubásnum töluvert lægri en t.d. fjós með gúmmímottur eða dýnur. Samandregið mat Anja það svo að niðurstöðurnar bendi eindregið til þess að fjós eigi í dag að vera með sandlegubásum og gangsvæðin með rimlum eða föstu gólfi með afrennsli.
 
3. Utan úr heimi
 
Þessi málstofa samanstóð af 9 erindum og lutu sum þeirra að hertum kröfum í Evrópusambandinu varðandi umhverfismál, sem ekki verður gerður nánari gaumur að hér. Þá voru flutt erindi um breyttar áherslur neytenda og mikilvægi upprunavottunar, sérstakra lausna fyrir ólíka neysluhópa og hvernig nota megi samfélagsmiðla í auknum mæli til þess að tengja saman sveit og borg.
 
Fyrrum landsráðunautur SEGES, Susanne Clausen, flutti þó skemmtilegt erindi sem hún kallaði „Póstkort frá heiminum“ en í því kynnti hún hvernig mjólkurframleiðslan er í Argentínu, í Bandaríkjunum og á Nýja-Sjálandi. Í Argentínu eru nú um 11 þúsund kúabú og er meðalbúið að framleiða um 1 milljón lítra árlega með 157 kúm að jafnaði. Meðalnytin er því ekki há, miðað við erlend kúakyn, eða um 6.400 lítrar.
Landið er 16. stærsti framleiðandi mjólkur í heiminum í dag og fer um 20% framleiðslunnar til útflutnings. Í Bandaríkjunum eru um 49 þúsund kúabú og nemur framleiðsla þeirra um 95 milljörðum kílóa sem svarar til þess að meðalbúið er að framleiða rétt tæplega tvær milljónir kílóa mjólkur á ári. Meðalbúið er með um 183 kýr en það sem vekur athygli er að 50% allrar mjólkur kemur frá búum sem eru með fleiri en 1.200 kýr. Með öðrum orðum þá eru fá bú, um 4% þeirra, sem standa undir helmingi framleiðslunnar. Landið flytur út um 18% landsframleiðslunnar á mjólk. Á Nýja-Sjálandi eru nú um 12 þúsund kúabú og er ársframleiðsla þeirra 22 milljarðar kílóa eða sem nemur um 1,8 milljónum kílóa að jafnaði á hvert bú. Kýrnar eru, sem flestum er kunnugt, á beit allt árið og eru meðalafurðirnar ekki miklar eða rétt um 4.900 kíló orkuleiðréttrar mjólkur. Fyrir vikið eru búin afar stór, talið í kúm, en að jafnaði eru um 420 kýr á hverju búi.
 
4. Kjötkálfaeldi
 
Þessari málstofu var stýrt af Per Spleth, landsráðunauti SEGES, en hann er væntanlegur til Íslands nú í apríl til þess að ræða um eldi á nautum, en að öðrum ólöstuðum er hann sá aðili sem á mestar þakkir skildar í Danmörku fyrir að hafa lyft nautakjötsframleiðslu landsins á enn hærra plan en áður. Í þessari málstofu voru flutt fimm erindi sem flest lutu að sértækum dönskum aðstæðum sem ekki eiga við á Íslandi. Í Danmörku eru tiltölulega fá en stór bú sem eru í nautkálfaeldi og á það m.a. við um bú hjónanna Jannie og Kim Nielsen. Þau sögðu frá því hvernig þau búa með 1.100 nautkálfa á ári, sem þau kaupa frá ýmsum kúabændum en þau leggja mikla áherslu á smitvarnir og að tryggja nautunum góðan aðbúnað. Þau sýndu afar áhugaverðar tölur úr rekstri sínum en þau framleiddu 1.072 nautkálfa á síðasta ári. Meðalþungi kálfanna við kaup frá kúabúunum í nágrenninu var 58,2 kíló og fallþunginn 208 kg en þau slátra kálfunum 8-9 mánaða gömlum. Að meðaltali þyngdust þessi Holstein naut hjá þeim um 1.277 grömm á dag og þurfti að jafnaði 4,10 FE á hvert kíló í vexti sem er eftirtektarverður árangur. Framlegðin eftir hvern kálf var 2.704 danskar krónur eða um 42 þúsund íslenskar krónur og heildarframlegð búsins því um 45 milljónir íslenskra króna á síðasta ári. Ástæða er til þess að vekja athygli á því að erindi þeirra hjóna var hlaðið fínum myndum frá búi þeirra, sem hægt er að skoða á heimasíðu fagþingsins.
 
5. Kynbótastarf
 
Að síðustu, í þessari umfjöllun, skal getið málstofunnar um kynbótastarf en hér voru flutt tvö erindi. Bæði fjölluðu um val á holdanautum við framleiðslu á blendingsnautum, en með tilkomu kyngreinds sæðis nota nú margir kúabændur holdasæði á þær kýr sem þeir vilja ekki rækta undan. Hér þarf að vanda valið og var farið yfir helstu þætti sem líta þarf til, þegar sett er upp kynbótaáætlun sem byggir á notkun kyngreinds sæðis.
 
Í næsta Bændablaði verður farið í stuttu máli yfir síðustu málstofur fagþingsins: „Í mjaltabásnum“, „Vinnufundir“, „Holdanautarækt“, „Frá akri í stæðu“, „Samvinna“ og „Sérfundir kúakynja“. Þeir sem geta ekki beðið þeirrar umfjöllunar má benda sérstaklega á að bæði útdrættir og flest erindi, þ.e. afrit af glærum fyrirlesara, má hlaða niður af heimasíðunni www.kvaegkongres.dk, en rétt er að geta þess að mest allt efni er á dönsku en þó er hluti þess á ensku.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs
Dýralækninga- og gæðadeild
SEGES í Danmörku
Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.