Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sigurður Ólafsson, Giljalandi við flettisögina góðu.
Sigurður Ólafsson, Giljalandi við flettisögina góðu.
Fræðsluhornið 8. ágúst 2018

Samvinna á Suðurlandi um viðarnytjar

Starfssvæði Félags skógareigenda á Suðurlandi er víðáttumikið þar sem það nær allt frá Reykjanestá í vestri og að Lónsheiði í austri. Félagar eru á þriðja hundrað talsins og þótt þeir hafi það sameiginlegt að hafa allir áhuga á skógrækt nálgast þeir verkefnið á mismunandi hátt. Viðarnytjar eru þó markmið allra, en viðarnytjar geta verið mjög margvíslegar eins og eftirfarandi saga sýnir.
 
Á fyrri hluta tuttugustu aldar var nóg að nefna Múlakot í Fljótshlíð til að hugurinn hvarflaði til ræktunar og trjágróðurs. Guðbjörg Þorleifsdóttir húsfreyja þar skapaði gróðurreit, sem var einstakur í sinni röð og þar skipaði trjágróðurinn háan sess. Fyrstu trén voru gróðursett árið 1897, örsmáar reyniplöntur, ættaðar frá Nauthúsagili undir Eyjafjöllum. Þessar plöntur urðu með tímanum formæður flestra reynitrjáa í heimilisgörðum á Suðurlandi. 
 
Garðurinn í Múlakoti átti sitt blómaskeið, en eftir að Guðbjörg lést árið 1958, hallaði smám saman undan fæti. 
 
Eigendaskipti um aldamót
 
Eigendaskipti urðu á jörðinni upp úr aldamótum 2000. Nýir eigendur vildu varðveita gömlu húsakynnin og garðinn, en þetta er viðamikið verkefni, sem ekki er á færi einstaklinga.
 
Loks varð úr samvinnuverkefni Rangárþings eystra, Skógasafns og eigenda jarðarinnar eftir að bæjartorfan hafði verið alfriðuð.
 
Þegar Sjálfseignarstofnuninni um framkvæmdir við endurnýjun gömlu bygginganna og garðsins i Múlakoti var komið á fót, hófst samstarf milli Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum í Ölfusi og aðila í Múlakoti um að skólinn hefði aðgang að garðinum sem „lifandi“ kennslustofu. Þetta samstarf er eins og best verður á kosið, allt öðrum vinnubrögðum og hugsun þarf að beita við vinnu í gömlum görðum en nýjum.
 
Háöldruð reynitré
 
Í fyrstu vinnuferð skólans haustið 2015 var hugað að trjágróðri. Reynitrén í garðinum eru orðin háöldruð, elstu 120 ára, og sum voru orðin hættuleg umhverfinu. Þarna fengu nemendur góða sýnikennslu í hvernig gömul tré eru felld, þannig að ekki stafi hætta af.
 
Allt nýtilegt timbur var hirt með það í huga að seinna gæfist tækifæri til að vinna úr því.
Ekki reyndist unnt að fletta bolun­um á Tumastöðum, sem auðvitað hefði verið æskilegt fjar­lægð­arinnar vegna.
 
Í sumarferð Félags skógar­eigenda á Suðurlandi 2017 voru skógarbændur á Giljalandi í Skaft­ár­tungum heim­sóttir, þau Þuríður Jónsdóttir og Sigurður Ólafsson. Þau tóku á móti hópnum með kostum og kynjum, sýndu ferðalöngum framkvæmdir á staðnum og ræktun sína og ýmis tæki til viðarvinnslu. Ekki er að orðlengja það að Sigurður var reiðubúinn til að fletta reyniviðarbolunum gömlu frá Múlakoti og gerði það af stakri snilld.
 
Hugmyndin um húsgagnasmíð hafði fæðst nokkru áður og var flettivinnu hagað með það í huga. 
Leit að smiðnum tók nokkurn tíma en hann fannst í Landbrotinu. Skúli Jónsson frá Þykkvabæ galdraði fram ótrúlega skemmtileg garðhúsgögn, þrjú stór borð og viðeigandi bekki, tvö minni ásamt bekkjum og loks bekk með baki, sem fékk nafnið harmonikkubekkurinn, með Ljósakvöld framtíðarinnar í Múlakotsgarðinum í huga.
 
Loks var eftir að finna bestu viðarvörnina, en þar komu „sérfræð­ing­ar að sunnan“, starfsmenn Máln­ingar hf. til sögunnar, lögðu fram efni, leiðbeindu jarðareigendum og gerðust félagar í Vinafélagi gamla bæjarins í Múlakoti.
 
Þarna er samvinna fólks úr þremur sýslum Suðurlands, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslu, auk höfuðborgarsvæðisins, eins og best getur orðið.
 
Höfundar: Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson, skógarbændur í Múlakoti.
 

4 myndir:

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn
Fréttir 6. desember 2021

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða h...

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...