Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Samtal um staðreyndir
Mynd / BBL
Skoðun 23. febrúar 2017

Samtal um staðreyndir

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Landbúnaðarráðherra hefur skipað breyttan samráðshóp til að undirbúa endurskoðun búvörusamninga árið 2019. Bændur gagnrýndu að taka ætti upp skipan hópsins og fóru fram á rökstuðning fyrir því með ítarlegu bréfi strax daginn eftir að tilkynnt var um hina breyttu skipan. Því var svarað sama dag og fyrsti fundur hópsins var haldinn þ.e. þann 16. febrúar sl.
 
Lesendur geta kynnt sér bréf BÍ og svarbréf ráðherra á bondi.is en mér þykir rétt að birta hér niðurlag svarbréfsins þar sem rammað er inn verksvið samráðshópsins. Mikilvægt er að það sé öllum ljóst.
 
„Þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á skipun samráðshópsins þá gilda búvörusamningar sem undirritaðir voru 19. febrúar 2016 og tóku gildi 1. janúar sl. enda hafa samningarnir hlotið staðfestingu Alþingis með lögum nr. 102/2016 um breytingu á búvörulögum og fleira. Hlutverk samráðshópsins er afmarkað í tilteknum ákvæðum búvörusamninganna og halda þau ákvæði gildi sínu líkt og samningarnir sjálfir. Verði niðurstaða samráðshópsins á þá leið að ráðast þurfi í tilteknar breytingar á ákvæðum búvörusamninga fer slík tillaga til umfjöllunar samninganefndar ríkisins og Bændasamtaka Íslands skv. 30. gr. búvörulaga og slíkt samkomulag þarf ávallt staðfestingu Alþingis til að hljóta gildi. Ráðherra getur þannig ekki einhliða breytt búvörusamningum án aðkomu samningsaðila og Alþingis.“
 
Hvað varðar starf hópsins sjálfs leggja bændur  áherslu á að vinnan sem fram undan er verði skipuleg, markviss og fagleg. Bændur eru tilbúnir að ræða allar málefnalegar tillögur um starfsumhverfi landbúnaðarins, en sú umræða verður alltaf að byggjast á bestu fáanlegu upplýsingum. Aðeins þannig er líklegt að einhvers konar sátt geti náðst. Mér þykir annars rétt að tilgreina helstu atriði þeirra áherslna bænda sem lagðar voru fram á fyrsta fundi hópsins.
 
Fara verður yfir markmið samninganna. Greina þarf hvort þróun hefur verið í takt við markmiðin það sem af er. Það verði til dæmis gert með því að taka saman gögn um þróun framleiðslunnar, þróun afurðaverðs til bænda, þróun smásöluverðs til neytenda, þróun fjölda framleiðenda í einstökum búgreinum, þróun bústærðar í einstökum greinum, nýliðun, árangur í ræktunarstarfi, skilvirkni stuðnings og þróun dreifingar framleiðenda. Skoða þarf sérstaklega virkni á nýju jafnréttisákvæði búvörusamninga og áhrif þess á greinina. Vinna þarf framhaldsrannsóknir sem m.a. er hægt að grundvalla á frumrannsóknum Rannsóknarmiðstöðvar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands sem fyrrnefnt ákvæði er grundvallað á.
Gera þarf formlega greiningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar. Þá er átt við allt sem flokka má undir formlega sérstöðu, einkum gagnvart landbúnaði í Evrópu, N-Ameríku og Eyjaálfu og felst ekki síst í heilbrigðum dýrastofnum, hlutfalli grasfóðrunar, notkun tilbúins áburðar og varnarefna, lyfjanotkun, notkun vaxtarhormóna, auk orku- og vatnsnotkunar
 
Fyrir liggur skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. Þá liggur einnig fyrir skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um möguleika Íslands á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Báðar skýrslurnar eru mikilvæg gögn í umfjöllun um þessi mál en þörf er á frekari mælingum. Í ­skýrslu Landbúnaðarháskólans er m.a. vikið að því að miklu getur munað við mat á losun hvort notaðar eru mælingar sem farið hafa fram hér eða almennir staðlar. Hagfræðistofnun bendir einnig á nauðsyn frekari mælinga. Þarna er því þörf á mun ítarlegri greiningum, ekki síst á ástandi skurða sem hafa veruleg áhrif á losun frá framræstu landi. Fyllsta ástæða er til að greina kolefnisfótspor landbúnaðarins í heild í kjölfarið og móta tillögur um hvernig megi minnka það. Þar koma til skoðunar þær tillögur sem eru í skýrslu Hagfræðistofnunar og  lausnir eins og orkuskipti, frekari notkun rafknúinna véla, bætt orkunýting, frekari lífrænar varnir og aukinn hlutur lífrænnar innlendrar fóður- og áburðarframleiðslu.  Landbúnaðurinn þarf svo sannarlega að eiga hlut að því að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá 2015 sem Ísland hefur fullgilt.
 
Tryggja verður betri upplýsingagjöf til neytenda og neytendavernd til að gera þeim auðveldara að taka upplýstar ákvarðanir. Skylt verði að merkja með upprunalandi allar afurðir sem standa neytendum til boða, hvort sem er í verslunum, veitingastöðum og mötuneytum. Upprunamerkingar verði settar fram með áberandi og skýrum hætti og m.a. gerðar kröfur um leturstærð o.fl. Upprunalegt framleiðsluland vörunnar komi skýrt fram þótt henni sé umpakkað annars staðar. Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að umhverfisfótspor matvöru komi fram með skilmerkilegum og skýrum hætti m.t.t. kolefnislosunar, áburðarnotkunar, erfðabreytts fóðurs, sýklalyfjanotkunar, notkunar á illgresis- eða skordýraeitri o.s.frv. 
Gerð verði skýlaus krafa um að fyrir liggi upplýsingar um uppruna, dýravelferð, umhverfisfótspor, lyfja- og eiturefnainnihald við öll opinber innkaup. Umhverfisfótspor, hollusta og hreinleiki verði metin a.m.k. jafn þýðingarmikil við opinber útboð og innkaup á matvælum og verð eða hæfi bjóðenda. Þetta gildi um ríki, sveitarfélög og allar opinberar stofnanir og félög.
 
Leggja þarf mat á þýðingu landbúnaðarins fyrir aðra atvinnustarfsemi í landinu. Landbúnaður og afurðir hans eru þýðingarmikill hluti af ýmissi framleiðslustarfsemi, verslun og þjónustu. Sérstaklega þarf að skoða framlag landbúnaðarins til ferðaþjónustu m.t.t. menningarlegrar ásýndar, skipulagðra ferða, veitingastarfsemi, handverks, minjagripa o.fl. Skoða þarf þýðingu landbúnaðarins fyrir samfélög dreifbýlisins og þátt greinarinnar í innviðum og atvinnulífi þeirra. Einnig framlag landbúnaðarins og bænda til öryggismála, leitar og björgunar og slíkra þátta.
 
Greina þarf samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Hvernig er raunveruleg samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu gagnvart erlendri með tilliti til launa, skatta, stuðnings, tollverndar, framleiðsluaðstæðna og annarra þátta sem skipta máli? Tilgangur þess er að draga fram með skýrari hætti hvernig íslenskur landbúnaður er í stakk búinn til að keppa við innflutta framleiðslu á markaði, án tillits til sérstöðu framleiðslunnar. 
 
Það er heilmikið verk fram undan. Bændur ganga glaðir til þess.  
 
Verið velkomin í Hof á Akureyri 3. mars
 
Nú eru að verða breytingar hjá samtökum okkar, eins og fram kemur annars staðar í blaðinu. Við erum að fara að innheimta félagsgjöld og við erum að fara að halda okkar fyrsta ársfund í stað Búnaðarþings. Þar munum við ræða um búskap framtíðarinnar á opinni ráðstefnu í Hofi á Akureyri 3. mars og halda stóra bændahátíð um kvöldið. Þangað eru allir stuðningsmenn íslensks landbúnaðar velkomnir. Sjáumst þar!
 
Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi
Fréttir 31. maí 2023

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi

Matvælaráðherra úthlutaði nýlega styrkjum til þróunarverkefna búgreina, um 93 mi...

Afhending eftir sauðburð
Fréttir 30. maí 2023

Afhending eftir sauðburð

Matvælastofnun hefur náð samkomulagi við sauðfjárbændur á nokkrum bæjum í Miðfja...