Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Samtal um ekki neitt
Skoðun 20. júlí 2017

Samtal um ekki neitt

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Það blésu nýir vindar um ráðuneyti landbúnaðarmála þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Það var sannarlega tímabært að kona færi í fyrsta sinn með málaflokkinn og þar fór auk þess manneskja með heilmikla og víðtæka reynslu. Hinn nýi ráðherra kom til verka með nokkrum krafti og hélt innblásnar ræður um möguleika íslensks landbúnaðar.
 
Bændur heilluðust margir af málflutningnum og litu björtum augum fram á veginn. Því miður stóð það ekki lengi. Nú horfir víða erfiðlega í landbúnaðinum og ráðherrann hefur ekki tekið á þeim málum eins og væntingar voru um. Ýmsir árekstrar hafa auk þess komið upp.
 
Þegar hefur komið fram á þessum vettvangi gagnrýni á það þegar ráðherrann ákvað að breyta skipan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Aðallega í þeim tilgangi að hleypa fulltrúa samtaka innflutningsfyrirtækja að vinnu hans. Innflutningsfyrirtæki hafa eðli málsins samkvæmt enga hagsmuni af því að efla íslenskan landbúnað. Því minna sem framleitt er innanlands því meira hafa þau að gera. Það var og er því í meira lagi sérkennilegt að gera þetta. Þrátt fyrir það ákváðu bændur að taka þátt í starfi hópsins af fullum heilindum og lögðu áherslu á að hann fengi tóm til að vinna sína vinnu. Tilgangur þess var að vinnan yrði sem vönduðust og nýttist eins og best yrði á kosið við endurskoðun samninganna 2019. Til þess þarf tíma, ekki síst ef einhver raunverulegur vilji er til að ná sameiginlegri niðurstöðu.
 
En sú varð heldur ekki raunin.  Eftir góða hvatningarræðu á ársfundi bænda hélt ráðherrann heim og lagði án samráðs fram frumvarp um verulegar breytingar á starfsskilyrðum mjólkuriðnaðarins. Hinn breytti samráðshópur fékk ekki einu sinni að skoða það. Fyrir lá að um þessi mál er ágreiningur en ekki var gerð nein tilraun til sátta. Frumvarpið hlaut engan hljómgrunn, sem ekki ætti að koma ráðherra á óvart. Svona á einfaldlega ekki að vinna.  
 
Það hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel með önnur verkefni heldur. Gefist var upp við að fá viðurkenndar sérkröfur Íslands vegna reglna um lífræna ræktun. Óvíst er hvaða áhrif það hefur, en þegar er ljóst að sú ákvörðun veldur miklum erfiðleikum í lífrænum sauðfjárbúskap. Þá eru jafnframt í undirbúningi tillögur um breytingu á fyrirkomulagi úthlutunar á tollkvótum. Þær eru ætlaðar til að gera kvótana ódýrari fyrir innflutningsfyrirtækin. Það kann að ganga eftir, en engin trygging er fyrir því að það skili sér til neytenda eins og gjalda- og tollaniðurfellingar undanfarinna ára hafa sýnt fram á með skýrum hætti.
 
Sauðfjárræktin hefur mikla byggðalega þýðingu
 
Eitt stærsta málið í dag er hins vegar vandi sauðfjárræktarinnar. Sauðfjárræktin er fjölmenn búgrein og hefur mikla byggðalega þýðingu. Því er ágætlega lýst í skýrslu sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði árið 2015 um samfélagslega þýðingu sauðfjárræktar en þar eru lokaorðin: 
 
„Fullyrða má samkvæmt ofangreindu að samfélagsleg þýðing sauðfjárbúskapar er mikil á ýmsum dreifbýlli svæðum landsins þar sem hann hefur verið helsti atvinnuvegurinn um langa hríð og forsenda byggðar. Vart verður séð að annað komi í staðinn fyrir sauðfjárbúskapinn sem undirstöðuatvinnugrein á þessum svæðum.“  
 
Sauðfjárræktin hefur alveg frá aldamótum byggt á því að flytja út um það bil þriðjung af árlegri framleiðslu. Ekki er langt síðan að aðstæður voru útflutningi hagfelldar, en þær hafa því miður breyst mjög til hins verra. Markaðir í Evrópu hafa lokast af ýmsum ástæðum. Sú stærsta þeirra er viðskiptastríð Evrópu við Rússland sem hafði áhrif á allan kjötmarkaðinn í álfunni auk staðbundinna markaðsaðstæðna í Noregi og auðvitað gengisþróunarinnar. Þetta eru aðstæður sem bændur höfðu í engum tilvikum stjórn á og koma til vegna pólitískra ákvarðana sem og markaðsþróunar, en sjaldan hefur þurft að takast á við jafnmarga neikvæða þætti í einu. Nýir búvörusamningar höfðu þar ekki áhrif enda hefur enn engin kindakjötsframleiðsla átt sér stað á gildistíma þeirra.
 
Verkfæri til að takast á við markaðsbresti
 
Landbúnaðurinn hér nýtur opinbers stuðnings eins og víðast hvar annarsstaðar. Auk stuðnings eru oftast fyrir hendi verkfæri til að takast á við vandamál eins og markaðsbresti. Evrópusambandið hefur til dæmis varið verulegum fjárhæðum í sértækar aðgerðir undanfarin ár til að takast á við markaðsbresti í mjólkurframleiðslu og í Bandaríkjunum eru einnig mörg dæmi um slíkt.
 
Hér er ekkert slíkt fyrir hendi. Bændur hafa frá því mars átt viðræður við ráðherra um möguleika á aðgerðum til að bregðast við. Hér annarsstaðar í blaðinu er ítarleg umfjöllun þar sem Oddný Steina Valsdóttir formaður sauðfjárbænda fer yfir þróun þeirra viðræðna sem við höfum sameiginlega átt við stjórnvöld um hugsanlegt hrun í sauðfjárbúskap. Við höfðum að leiðarljósi að vera lausnamiðuð og komum með tillögur sem alltaf var verið að laga að hugmyndum ráðherrans.
 
Hurðinni skellt í ráðuneytinu
 
Eftir rúma fjóra mánuði kom svo niðurstaða. Hurðinni var skellt, lýst yfir skilningi á stöðunni en enginn vilji til að gera neitt. Það hefði þurft að segja strax. Miklum tíma hefur verið sóað og ráðherrann ásamt ríkisstjórninni í heild standa frammi fyrir áður óþekktum byggðavanda, einmitt í viðkvæmustu byggðum landsins. Ætla menn að láta það gerast? Bændur eru ávallt tilbúnir í viðræður við stjórnvöld, en við erum ekki reiðubúnir að eyða tíma okkar í samtöl um ekki neitt.
 
Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...