Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Samstarf til aukinnar skilvirkni
Mynd / BBL
Skoðun 22. júní 2017

Samstarf til aukinnar skilvirkni

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands
Markaðsráð kindakjöts hefur leitað til Samkeppniseftirlitsins með ósk um undanþágu frá samkeppnislögum vegna samstarfs sláturleyfishafa á Íslandi um útflutning og markaðssetningu íslensks kindakjöts á erlendum mörkuðum. Með samstarfinu er markmiðið að stuðla samhliða að betri nýtingu fjármuna og auknum árangri í útflutningi og markaðssetningu. 
 
Markaðsráð kindakjöts er samstarfs­vettvangur Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtakanna og sláturleyfishafa. Útflutningur á lambakjöti hefur hingað til verið á hendi hvers og eins sláturleyfishafa en öll markaðssetning erlendis hefur verið undir merkjum íslensks lambs. Fyrirtækin hafa hins vegar ekki hvert fyrir sig fjárhagslega burði til að standa að útflutningi með þeim hætti sem nauðsynlegt er í þeirri hörðu samkeppni sem er á stærri markaðssvæðum. 
 
Víða er beitt víðtækri samvinnu
 
Sameiginleg velta íslenskrar sauðfjárræktar er talin í milljörðum króna en stærstu framleiðslulönd sauðfjárafurða telja veltu sína í þúsundum milljarða. Að auki hafa framleiðendur mörgum þeirra landa gripið til víðtækrar samvinnu eða stofnunar sameiginlegra markaðs- og útflutningsfyrirtækja fyrir heilu framleiðslugreinarnar. Því er mikilvægt að íslensk fyrirtæki geti sameinað krafta sína til þess að hægt sé að ná árangri. 
 
Markaðsráð kindakjöts telur ekki að samstarfið sé til þess fallið að raska samkeppni hér á landi og falli í meginatriðum utan gildissviðs samkeppnislaga enda lýtur það ekki að neinu leyti að sölu eða markaðssetningu kindakjöts á Íslandi eða innlendri starfsemi sláturleyfishafa að öðru leyti. 
 
Nauðsynlegt að snúa bökum saman
 
Í tilkynningu um umsóknina sagði Oddný Steina Valsdóttir, formaður Markaðsráðs, meðal annars:
„Við erum að framleiða hágæða vörur við einstakar aðstæður. Við teljum að þessi sérstaða geti skapað mikil tækifæri til markaðssetningar kindakjöts á erlendum mörkuðum sé rétt staðið að málum. Það er hins vegar afar hörð samkeppni á þessum mörkuðum og því er nauðsynlegt að þeir aðilar sem koma að þessum málum hér á landi geti snúið bökum saman til að auka líkur á árangri. 
 
Sauðfjárbændur hafa þurft að taka á sig afurðarverðslækkanir á undanförnum árum. Með öflugra útflutningsstarfi er markmiðið að breyta þeirri þróun og auka stöðugleika í útflutningi.“ 
 
Undir þessi orð má sannarlega taka.  Undanþágubeiðnin er nú til umfjöllunar hjá Samkeppniseftirlitinu og hefur verið óskað eftir því að að afgreiðslu hennar verði hraðað.
 
Framleiðsla á kindakjöti hérlendis hefur aukist um 13,2% frá árinu 2010 til 2016. Í tonnum talið er aukningin um 1.200 tonn á tímabilinu. Það er þó ekki vegna þess að fé hafi fjölgað heldur hafa afurðir á hverja kind aukist. Fjöldi vetrarfóðraðra kinda á sama tíma dróst saman um 0,8%  og er nú tæplega 476.000. Framleiðni er því að aukast hjá sauðfjárbændum landsins.
 
Sala innanlands hefur aukist um 8,2% á sama tímabili (rúm 500 tonn). Þann árangur má þakka öflugu markaðsstarfi en líklega einnig mikilli fjölgun ferðamanna. Allan tímann hefur þó um það bil þriðjungur heildarsölu verið útflutningur. Hlutfallið fór hæst árið 2010 þegar 36% heildarsölunnar var útflutningur en árið 2016 var hlutfallið 29%.  Útflutningstekjur af sauðfjárafurðum hafa að meðaltali verið rúmir 3 milljarðar króna árlega 2010–16 en voru um 2,6 milljarðar á síðasta ári.
 
Útflutningur gekk mjög vel í kjölfar gengisfalls íslensku krónunnar 2008 og verð var þá oft hærra en á innanlandsmarkaði. Bæði bændur og íslenskir neytendur nutu þessarar þróunar. Afurðaverð til bænda hækkaði umfram verðlag, en verð til íslenskra neytenda lækkaði að raungildi. Við hagstæðari aðstæður var framleiðslan hérlendis miklum mun samkeppnishæfari, auk þess sem hægt var að flytja út ýmiss konar aukaafurðir með hagnaði, svo sem innmat, afskurð, hausa, gærur o.fl. en þessi viðskipti skila tapi í dag. 
Aðrar neikvæðar breytingar hafa einnig orðið á mörkuðum auk gengisþróunarinnar. Stærstu einstöku þættirnir eru í fyrsta lagi lokun Noregsmarkaðar. 
 
Síðustu áratugi hafa verið seld 600 tonn af kjöti árlega þangað á ágætu verði, en vegna aðstæðna þar í landi, lokaðist sá markaður árið 2017 og óljóst er hvenær eða hvort hann opnast á ný. Í öðru lagi hefur Rússlandsmarkaður lokast að nær öllu leyti vegna deilna Rússa við Evrópuþjóðir, sem eiga upptök sín í átökum í Úkraínu. Í þriðja lagi er Bretlandsmarkaður, sem er mjög mikilvægur fyrir vissar afurðir, að skila miklu lægra verði en áður vegna BREXIT og áhrifa á gengi breska pundsins sem samhliða styrkingu krónunnar gerir útflutning á sauðfjárafurðum þangað nánast ófæran nema með verulegu tapi. Í fjórða lagi hefur enn ekki tekist að opna fyrir útflutning á sauðfjárafurðum til Kína, þrátt fyrir að fríverslunarsamningur á milli Íslands og Kína hafi nú verið í gildi í nær þrjú ár. 
 
Bændur í sóknarhug
 
Þessi staða hefur í engu breytt sannfæringu bænda um gæði framleiðslu sinnar og að til lengri tíma litið hafi mikla þýðingu að sækja fram á erlendum mörkuðum fyrir gæðavörur. Í gangi eru stór markaðsverkefni, bæði gagnvart ferðamönnum hérlendis og á afmörkuðum mörkuðum erlendis.
 
Langtímamarkmiðið er að koma stærri hluta afurðanna inn á velmegandi og kröfuharða markaði. 
 
Þó verður ekki litið fram hjá því að þessi tímabundna staða hefur þegar skapað mikinn vanda, bæði hjá bændum sjálfum og afurðafyrirtækjum. Þess vegna er vilji til að vinna meira saman á erlendum mörkuðum og vonandi fæst heimild til þess.
 
En þetta er ekki það eina sem er til umræðu vegna þessara mála. Fleiri hugmyndir hafa verið ræddar við stjórnvöld, m.a. um leiðir til að auðvelda þeim sem það vilja að draga úr framleiðslu, verkefni á sviði kolefnisbindingar, aðgerðir vegna skuldsetningar og ýmislegt fleira. Enn sem komið er hefur ekki fengist áþreifanleg niðurstaða úr þeim viðræðum. Það er ekki góð staða því að óvissa er slæm staða í landbúnaði eins og í annarri starfsemi.
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...