Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Samningaviðræður um nýja búvörusamninga
Leiðari 23. október 2015

Samningaviðræður um nýja búvörusamninga

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Viðræður um búvörusamninga hafa staðið í rúmar sex vikur og búið er að fara yfir meginatriðin sem eru til umfjöllunar. Unnið er á þeim nótum að gerður verði einn rammasamningur fyrir landbúnaðinn í heild sem komi þá jafnframt í stað búnaðarlagasamnings, en síðan verði undirsamningar fyrir einstakar greinar eftir því sem samkomulag næst um. 
 
Ekkert liggur fyrir um hvaða greinar verða þar undir, utan þeirra þriggja sem hafa samninga í dag. BÍ hafa fundað með öllum búgreinafélögum sem eiga aðild að samtökunum en hafa ekki samninga. Tilgangur þess var að heyra þeirra áherslur og það sem helst brennur á viðkomandi greinum. Komi til samninga er varða þeirra greinar verða þeir unnir í nánu samráði við viðkomandi félög. Fulltrúar bænda hafa að öðru leyti unnið á grundvelli stefnumörkunar sem mótuð var á Búnaðarþingi í vor og á fundum kúa-, sauðfjár- og garðyrkjubænda. 
 
Fulltrúar ríkisvaldsins og bænda hafa kynnt sínar helstu áherslur á einstökum sviðum. Enn liggja þó ekki fyrir neinar tillögur að samningstexta og samningstími er ekki niðurnegldur. Báðir samningsaðilar hafa þó sett sem markmið að gera langtímasamning, jafnvel til tíu ára. Ekki er ljóst á þessu stigi hvort þær hugmyndir nái fram að ganga. 
 
Breytingar í farvatninu
 
Meðal umfjöllunarefna hafa verið hugmyndir þess efnis að horfið verði frá greiðslumarkskerfinu í mjólkur- og sauðfjárframleiðslunni á samningstímanum. Kúabændur ályktuðu á sínum aðalfundi að horfið yrði frá núverandi kvótaskipulagi en sauðfjárbændur tóku hins vegar ekki þá stefnu á sínum aðalfundi, heldur vildu draga úr vægi greiðslumarksins um 10% á samningstímanum. Ríkisvaldið hefur lýst áhuga á því að skoða hvort draga megi úr stuðningi sem eigngerist og nota fremur almennari aðferðir til stuðnings. Þá hefur ríkisvaldið einnig lagt áherslu á nýliðun og einföldun ýmissa atriða. Útfærsla þess er til umfjöllunar í samninganefndinni. Verði þetta niðurstaðan er ljóst að talsverðra breytinga er að vænta í nýjum samningi, en innleiðing þeirra mun eftir sem áður eiga sér stað í þrepum á samningstímanum. Markmiðið er að bændur geti aðlagast nýjum framleiðsluskilyrðum og að samningurinn valdi engum kollsteypum.
 
Erfitt er að slá nokkru föstu um niðurstöður viðræðnanna á þessu stigi, í ljósi þess að ekkert er enn skjalfest. Vonandi tekst þó að ná saman um samningstexta í næsta mánuði. Nýr samningur gæti þá tekið gildi í ársbyrjun 2017 að því gefnu að hann verði samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal bænda og á Alþingi. 
 
Tollasamningur setti málið í aðra stöðu
 
Það er ljóst að margir bændur bíða óþreyjufullir eftir niðurstöðunni. Langt er síðan að síðustu samningar voru gerðir frá grunni og stefnumörkun Búnaðarþings fyrr á þessu ári gerði ráð fyrir að unnið yrði eftir nýrri hugmyndafræði eins og fyrr greinir, þ.e. að gera einn samning fyrir landbúnaðinn í heild ásamt undirsamningum fyrir einstakar greinar. Ályktun þingsins stefndi jafnframt að því að tollvernd yrði hluti af samningnum og það er vissulega ekki útilokað, en tollasamningur ESB og Íslands setti það mál í allt aðra stöðu. Ekki þarf að fjölyrða um hvað fyrirsjáanleiki skiptir miklu máli í landbúnaði þar sem flestir framleiðsluferlar eru langir. Það er því vel skiljanlegt að nokkurrar óþolinmæði gæti um hvernig útkoman verður. 
 
Viljum stækka og efla landbúnaðinn
 
Ekki er þó skynsamlegt að fullyrða mikið um út frá tillögum eða hugmyndum sem eru enn á hugmynda- og umræðustigi. Í viðræðum sem þessum eru einfaldlega öll verkefni sem í búvörusamningnum felast tekin til skoðunar. Samningsaðilar hafa sínar áherslur og markmiðið er að ná samkomulagi sem báðir geta sætt sig við. Niðurstaðan er alltaf einhvers konar málamiðlun – og eðlilega hafa menn á henni misjafnar skoðanir. Fulltrúar bænda munu hins vegar ekki undirrita samninga nema að þeir treysti sér til að mæla með samþykki þeirra við sína félagsmenn. Fyrsta markmið ályktunar Búnaðarþings er að hinir nýju samningar stækki og efli íslenskan landbúnað. Að því verður unnið ásamt öðrum markmiðum sem þar koma fram. Niðurstaðan verður kynnt strax og það er hægt og vonandi er þess ekki langt að bíða. 
Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.

Fimmtíu gripir með T137 finnast í Skaftárhreppi
Fréttir 16. apríl 2025

Fimmtíu gripir með T137 finnast í Skaftárhreppi

Áfram finnast sauðfjárbú með arfgerðabreytileikann T137 í hjörð sinni, sem talin...

Fuglavernd í hart við Yggdrasil
Fréttir 15. apríl 2025

Fuglavernd í hart við Yggdrasil

Fuglavernd hefur kært Yggdrasil Carbon ehf. til lögreglu fyrir að rista upp land...

Áherslur á Búnaðarþingi
Fréttir 15. apríl 2025

Áherslur á Búnaðarþingi

Á Búnaðarþingi 20. til 21. mars síðastliðinn var ályktað um áherslur á komandi s...

Ný hveitimylla ólíkleg
Fréttir 14. apríl 2025

Ný hveitimylla ólíkleg

Opinberir aðilar hafa ekki gefið Líflandi formlega staðfestingu á að reglur sem ...

Ráðuneytið má ekki grípa inn í
Fréttir 14. apríl 2025

Ráðuneytið má ekki grípa inn í

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að ef Lífla...

Stefnir stærsti hluthafi Örnu
Fréttir 14. apríl 2025

Stefnir stærsti hluthafi Örnu

Stefnir sjóðastýringarfyrirtæki hefur fjárfest í Örnu og er nú skráður stærsti h...