Samkeppniseftirlitið hafnar undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Samkeppniseftirlitið telur að Markaðsráð kindakjöts hafi ekki sýnt fram á að lagaskilyrði fyrir tímabundinni undanþágu frá samkeppnislögum séu uppfyllt vegna umsóknar ráðsins um leyfi til aukinnar samvinnu sláturleyfishafa við útflutning á kindakjöti. Þetta kemur fram í bréfi sem Samkeppniseftirlitið sendi Markaðsráði kindakjöts síðla dags 1. júlí sl.
Í þrettán síðna bréfi Samkeppniseftirlitsins er gerð grein fyrir svokölluðu frummati á málinu. Erindi Markaðsráðs gekk út á að í stað þess að útflutningur væri á hendi hvers sláturleyfishafa fyrir sig tækju fyrirtækin sig saman undir merkjum Markaðsráðs og færu í útflutningsverkefni á grundvelli sérstakra samninga þar að lútandi. Forsendur samkomulagsins væru að sláturleyfishafar myndu skuldbinda sig til þess að flytja út tiltekinn hluta þess lambakjöts sem þeir framleiddu á gildistíma undanþágunnar. Markaðsráð hefur lagt til að útflutt magn í heild miði við 35% af framleiddu lambakjöti á þessu ári og að svipað hlutfall verði flutt út árið 2018.
Þessu hafnar Samkeppniseftirlitið en engu að síður býður það Markaðsráði að leggja fyrir nánari gögn máli sínu til stuðnings. Oddný Steina Valsdóttir, formaður Markaðsráðs kindakjöts og Landssamtaka sauðfjárbænda, sagði í stuttu samtali við Bændablaðið að hún túlkaði svarbréf Samkeppniseftirlitsins sem svo að sú leið sem sláturleyfishafar og bændur hefðu viljað fara væri ófær.
„Það eru ekki frekari gögn fyrir hendi því við höfum ekki yfir þeim að ráða. Við búum ekki yfir þeim auknu upplýsingum sem eftirlitið biður um og á þeim forsendum virðist ljóst að þessi leið er ekki fær,“ segir Oddný Steina.