Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Samkeppni í mjólkuriðnaði
Leiðari 26. september 2014

Samkeppni í mjólkuriðnaði

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Mjólkursamsalan  hefur verið sektuð um 370 milljónir króna fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu samkvæmt 11. grein samkeppnislaga á tímabilinu 2008–2013.  MS er talin hafa brotið gegn tveimur fyrirtækjum sem keyptu hrámjólk af henni, en mjólkin var ekki verðlögð á sama hátt til þeirra og til dóttur- og samstarfsfyrirtækja MS.  Fyrirtæki tengd MS fengu mjólkina á sama verði og greitt er til bænda, en önnur greiddu verð í samræmi við ákvörðun verðlagsnefndar búvöru um heildsöluverð á mjólk í lausu.

Ætla verður að Samkeppniseftirlitið hafi grandskoðað að ekki væru aðrir skilmálar um réttindi eða skyldur sem gætu skýrt þennan mun. Bændur munu kalla eftir skýringum þar að lútandi frá MS.

Gildandi lög ber að virða

11. grein samkeppnislaga veitir Samkeppnis­eftirlitinu afar víðtækar heimildir. Ekki þarf að sanna skaðsemi eða ásetning til að leggja á sekt. Nægilegt er að færa rök fyrir því að brot sé til þess fallið að raska samkeppni. Það eru einstakar valdheimildir sem nauðsynlegt er að beita af hófsemi. Þarna gildir ekki að vera saklaus uns sekt er sönnuð, heldur sekur uns sakleysi er sannað. En það breytir því ekki að þetta eru gildandi lög í málinu og þau ber að virða. Nú er það þekkt og hefur margoft komið fram að forstjóri Samkeppniseftirlitsins er á móti gildandi lögum og samningum sem varða landbúnaðarstefnuna, en ætla verður að það hafi ekki haft áhrif á rannsókn málsins eða niðurstöðu eftirlitsins.

Hvaða undanþágur eru nauðsynlegar?

Samkeppniseftirlitið fellst ekki á að undan­þágur sem finna má í búvörulögum veiti Mjólkursamsölunni heimild til að mismuna í verðlagningu á hrámjólk, þó að hún veiti heimild til samráðs og verkaskiptingar. Samkeppnislög gildi um allt sem ekki er sérstaklega undanþegið í búvörulögum og þetta sé ekki þar á meðal.  Ákvæði búvörulaga séu ekki almenn undanþága frá samkeppnislögum, heldur bara heimildir til hagræðingar samkvæmt ákveðnum forsendum. Staðfestir Samkeppniseftirlitið þá ekki að mjólkuriðnaður er ekki með öllu undanþeginn samkeppnislögum – eins og oft er haldið fram í umræðunni? Þessi deila kallar þá á það að afmarkað verði betur hvaða undanþágur frá samkeppnislögum eru nauðsynlegar mjólkuriðnaðinum miðað við alla þá hagræðingu sem þegar er orðin í geiranum.

Þáttur verðlagsnefndar búvöru

Samkeppniseftirlitið telur að Mjólkursamsalan hafi ekki lagastoð til að miðla hrámjólk á milli eigin fyrirtækja á bændaverði, en fyrirtækið geti heldur ekki vísað til ákvarðana verðlagsnefndar búvöru í málinu. Ákvörðun nefndarinnar um verð á gerilsneyddri mjólk í lausu hafi ekkert gildi þegar verið er að selja ógerilsneydda mjólk, eins og var í þessu tilviki.

Verðlagsnefnd búvara ákvað fyrst verð á ógerilsneyddri mjólk í lausu fyrri hluta árs 2014 en hefur nú bæði gefið út verð á geril- og ógerilsneyddri mjólk í lausu. Var það gert til að tryggja betur stöðu þeirra fyrirtækja sem vilja keppa í markaðssetningu á mjólkurvörum. Sem er reyndar athyglisvert miðað við hve Samkeppniseftirlitið telur að verðlagsnefnd og fulltrúar bænda hafi verið eftirlátssamir við MS í störfum nefndarinnar. Í úrskurðinum er því ekki vegið að fyrirkomulagi verðlagningar á mjólk yfirleitt, en eins og fram hefur komið þá ákveður nefndin verð á mjólk til bænda og heildsöluverð nokkurra helstu mjólkurafurða. Smásöluverð er hins vegar frjálst.

MS er ósammála úrskurðinum

Þessi úrskurður Samkeppniseftirlitsins um samkeppnisbrot Mjólkursamsölunnar er grafalvarlegt mál. Ljóst er að MS taldi sig starfa innan ramma laganna með því að selja hrámjólk á einu verði til samstarfsfyrirtækja sinna en öðru til óskyldra aðila. MS er ósammála úrskurðinum og ætlar að áfrýja honum. Það er nauðsynlegt að gefa MS tækifæri til að skýra sína hlið áður en felldir eru miklir og þungir dómar. Verði ákvörðun SKE staðfest þá mun MS auðvitað þurfa að bera þær sektir sem á það verða lagðar. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins er þegar þungbær og hefur valdið verulegum skaða á sambandi bænda og neytenda.

Jafnframt verður að halda því til haga að Mjólkursamsalan býr við sérstakar aðstæður.  Hún ber ábyrgð á að safna mjólk í landinu, hvar sem hún er framleidd, og hún er skuldbundin til að kaupa alla framleiðslu þeirra sem eru í viðskiptum við hana. Á sama tíma ræður hún ekki nema að litlu leyti á hvaða verði hún er keypt og ekki heildsöluverði á sínum helstu framleiðsluvörum.

Fjölbreytt framleiðsla er öllum í hag

Eftir sem áður eru engin rök fyrir því að leggjast gegn því að fleiri fyrirtæki vinni úr afurðum bænda, hvort sem þar er um að ræða mjólkur- eða aðrar afurðir. Fjölbreyttara vöruframboð er einfaldlega líklegt til að stækka markaðinn fyrir afurðirnar og skjóta fleiri stoðum undir landbúnaðarframleiðsluna. Eðlilegt er að þeir sem vilja kaupa hrámjólk til frekari vinnslu fái að gera það á gagnsæjum og sanngjörnum forsendum.

Starfsskilyrði landbúnaðarins eru ekki yfir gagnrýni hafin fremur en önnur mannanna verk, en menn verða að geta rætt þau á málefnalegum grunni. Það er alltof algengt að vaðið sé fram með rakalausum fullyrðingum sem eiga lítið skylt við raunveruleikann. Það kunna að vera til betri aðferðir til að stýra mjólkurframleiðslu en þær sem við notum, en við skulum þá setja fram tillögur, horfa á hlutina í heild og skoða hvaða áhrif breytingar gætu haft. Annað er ekki til framfara fallið.

Fjögur félagasamtök styrkt til að hreinsa strandlengjuna
Fréttir 25. janúar 2022

Fjögur félagasamtök styrkt til að hreinsa strandlengjuna

Fjögur félagasamtök verða styrkt til verkefna sem lúta að hreinsun strandlengju ...

Riða greindist í skimunarsýni
Fréttir 25. janúar 2022

Riða greindist í skimunarsýni

Matvælastofnun barst fyrir skömmu tilkynning frá Tilraunastöð HÍ að Keldum um að...

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022
Fréttir 24. janúar 2022

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022

John Deere 7R 350 AutoPowr er dráttarvél ársins 2022 í opnum flokki að mati evró...

KFC fékk mest úthlutað
Fréttir 24. janúar 2022

KFC fékk mest úthlutað

Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hefur birt niðurstöðu úthlutunar á tollkvó...

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna
Fréttir 24. janúar 2022

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna

Kostnaður við að setja upp nýjar neyðarstöðvar í Vaðlaheiða­r­göng­um nemur 10 t...

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði
Fréttir 21. janúar 2022

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur um nokkurt skeið unnið að því að koma til móts...

Gat á sjókví í Reyðarfirði
Fréttir 21. janúar 2022

Gat á sjókví í Reyðarfirði

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um ga...

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...