Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Við undirritun samninga sem fram fór í Höfða á bóndadaginn. Talið frá vinstri: Jóna Dís Bragadóttir, LH, Lárus Hannesson, LH, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Hjörtur Bergstað, Fáki, Ingibjörg Guðmunds­dóttir, Fáki og Elías Blöndal frá BÍ.
Við undirritun samninga sem fram fór í Höfða á bóndadaginn. Talið frá vinstri: Jóna Dís Bragadóttir, LH, Lárus Hannesson, LH, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Hjörtur Bergstað, Fáki, Ingibjörg Guðmunds­dóttir, Fáki og Elías Blöndal frá BÍ.
Mynd / Fákur
Fréttir 5. febrúar 2016

Samið við Fák um að halda mótið í Reykjavík 2018

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samningur um að Landsmót hestamanna árið 2018 verði haldið í Reykjavík var undirritaður í Höfða af Hestamannafélaginu Fáki, Reykjavíkurborg og Landsmóti ehf. 
 
Landsmót hestamanna eru stórviðburður því þar koma saman rúmlega þúsund keppendur af öllu landinu og eru þeir dyggilega hvattir af þeim rúmlega tíu þúsund áhorfendum sem munu sækja Landsmótið sem stendur í heila viku.
 
Áætlað er að um fjögur þúsund erlendir unnendur íslenska hestsins munu koma sérstaklega til landsins á Landsmótið sem mun fara fram á félagssvæði Fáks í Elliðaárdal fyrstu vikuna í júlí 2018.
 
Tímamót í rekstri mótsins
 
Samningurinn markar ákveðin tímamót í rekstri Landsmóta hestamanna því Hestamannafélagið Fákur og Reykjavíkurborg munu alfarið taka að sér að reka og halda utan um mótið. Undirbúningur er nú þegar hafinn og stefna mótshaldarar  að því að halda glæsilegt mót fyrir keppendur og gesti. Síðast var Landsmót haldið í Reykjavík 2012 og tókst það frábærlega enda aðstaðan til stórmótahalds mjög góð á félagssvæði Fáks í Reykjavík.
 
Binda miklar vonir við mótshaldið
 
Hjörtur Bergstað, formaður Fáks, segir miklar vonir bundnar við þetta mótshald.
„Það sem er sérstakt við þennan samning er að þetta verður í fyrsta sinn sem Landsmót hestamanna heldur ekki utan um mótshaldið sem sérstakt fyrirtæki, heldur er hestamannafélaginu Fáki falið að sjá alfarið um allt er viðkemur mótshaldinu. Það eina sem LH fer fram á er að við förum í einu og öllu eftir reglum Landssambands hestamanna og Bændasamtaka Íslands varðandi keppni. Síðan borgum við Landsmóti hestamanna fyrir að fá mótið og hirðum þá af því hagnað eða tap ef því er að skipta. 
 
Ég tel að með þessu fyrirkomulagi verði mun auðveldara að fá fólk til að starfa við þetta þar sem ávinningurinn fyrir félagið getur verið mikill ef vel tekst til. Þar verða tekjurnar þá eftir og hægt að nýta ávinninginn af mótshaldinu fyrir félagsmenn.  
 
Besta hestaíþróttasvæði landsins
 
Við eigum besta hestaíþróttasvæði landsins og ég held ég sé ekkert að taka stórt upp í mig þar. Þá höfum við gríðarlega reynslu í margvíslegu mótshaldi og höldum stórmót á hverju einasta ári. Við héldum Landsmót hestamanna árið 2000 og síðan aftur árið 2012. Það mót lukkaðist afar vel. Því búum við yfir mikilli þekkingu og reynslu af mótshaldi. Þá fáum við mikinn stuðning frá Reykjavíkurborg við því sem við erum að gera.“
 
Góðir gistimöguleikar og nálægð við alla þjónustuaðila
 
Hjörtur bendir á að kosturinn við að halda mótið í Reykjavík sé sá að þar sé meiri möguleiki á gistingu en víðast hvar annars staðar. Þá sé nálægðin við Keflavíkurflugvöll mikill kostur og því auðveldara að fá útlendinga til að sækja mótið vegna minni kostnaðar. Þá séu öll aðföng auðveldari og matur og þjónusta ætti því að vera hagstæðari en mögulegt er víða úti á landi. Þá séu mótshaldarar í Reykjavík í beinni samkeppni um alla þjónustu við veitingastaði og sjoppur í næsta nágrenni, þannig að ekki sé stætt á að okra á þjónustunni.  
 
Margt í pakkanum
 
„Við erum í samstarfi við Höfuðborgarstofu við að leita eftir samstarfi við ferðaþjónustuaðila á höfuðborgarsvæðinu. Þá erum við að gera samning við Reykjavíkurborg um aðkomu þeirra að því að veita mótsgestum afslátt að söfnum, sundaðstöðu og annarri þjónustu borgarinnar. Það verður því margt í pakkanum fyrir þá sem kaupa sig inn á mótið.“  
 
Hjörtur sagði að mótsvæðið væri í sjálfu sér fullmótað þó alltaf megi gera betur. Bjóst hann því við að jafnvel yrði eitthvað slegið í varðandi húsakost fyrir Landsmótið 2018. Það yrði því örugglega farið í einhverjar framkvæmdir. 
 
Hann segir að á Landsmóti hestamanna, sem haldið verður á Hólum nú í sumar, verði mótshaldið stytt frá því sem var á mótinu á Hellu og mótshaldi því lokið á laugardagskvöldinu. Hann segir að slíkt verði ekki á mótinu 2018, því þar verði mótinu slitið á sunnudegi.
 
Fyrri hluti mótsins fyrir forfallna hestamenn
 
„Við hugsum mótið í tveim hlutum. Fyrri hlutinn á þessu sjö daga móti verður fyrir hina forföllnu hestamenn, en fyrir fólk sem kemur á föstudag, laugardag og sunnudag verður passað upp á að hafa þar einungis hápunktana í mótshaldinu. Þar verður mögulega stutt yfirlitssýning eða kynning á þeim gæðingum og kynbótahrossum sem þátt taka í mótinu. 
 
Við hlökkum alveg gríðarlega til,“ segir Hjörtur. „Við erum líka á hnjánum og biðjum fyrir góðu veðri mótsdagana sumarið 2018.“ 

5 myndir:

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...