Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Bændurnir á Stóru- Reykjum, þau Jónína Einarsdóttir, Geir Gíslason og Gísli Hauksson, standa í myndarlegu fjósi sem var byggt árið 2015.
Bændurnir á Stóru- Reykjum, þau Jónína Einarsdóttir, Geir Gíslason og Gísli Hauksson, standa í myndarlegu fjósi sem var byggt árið 2015.
Mynd / BR
Líf og starf 26. júlí 2018

Samfélagið er með eindæmum gott

Höfundur: Bjarni Rúnars
Á Stóru-Reykjum hefur undanfarin ár verið lyft grettistaki í stækkun búsins, bæði með aukinni jarðrækt en ekki síst með nýjum byggingum, bæði fyrir kýr og sauðfé. Stóru-Reykir eru í gamla Hraungerðishreppi sem nú er hluti af Flóahreppi. Þar búa hjónin Jónína Einarsdóttir og Gísli Hauksson og Geir Gíslason, sonur þeirra, býr einnig á bænum ásamt unnustu sinni, Aldís Þórunni Bjarnadóttur.
 
Gísli og Jónína gengu inn í bú foreldra Gísla árið 1984, en þau höfðu stundað sinn búskap á jörðinni alla sína tíð. Þá var nýbúið að byggja 30 kúa básafjós með mjaltagryfju eins og víða var gert á þeim árum.  Árið 1988 tóku þau svo alfarið við kúabúinu. Árið 1997 tóku þau svo við fjárbúinu sömuleiðis og voru þá með um 120 kindur. Eftir að Geir lauk námi í búfræði frá Hvanneyri árið 2010 fluttist hann heim ásamt Aldísi og fór að taka þátt í búskapnum.
 
Gísli og Jónína samheldin við steypuvinnu í flatgryfjunni. Mynd úr einkasafni
 
Stöðugar framkvæmdir frá 2010
 
Ekki er um eiginlegt félagsbú að ræða heldur halda Jónína og Gísli utan um kúabúskapinn og Geir og Aldís sjá um sauðfjárbúskapinn. Samhliða búskapnum starfar Aldís utan búsins og Geir starfar hluta úr ári við smíðar. Árið 2010 hóf Geir að kaupa fé úr Öræfum til uppbyggingar á fjárstofni bæjarins. Þá keypti hann 50 ær af foreldrum sínum og hefur verið að fjölga fénu jafnt og þétt. Til að byrja með voru kindurnar í flatgryfju, en 2011 voru þær færðar í gömul fjárhús og flatgryfjunni breytt í nautahús. Árið eftir hófust svo framkvæmdir við fjárhús sem stóðu yfir í einn vetur. Sú bygging var nánast alfarið reist af ábúendunum sjálfum. Þar er pláss fyrir um 300 kindur í 280 fermetra húsi. Til viðbótar er 160 fermetra vélaskemma í enda hússins. Samhliða þessum framkvæmdum var fénu fjölgað og ærgildi keypt.
 
Framkvæmdirnar gengu mjög vel á sínum tíma. Mynd úr einkasafni
 
Árið 2015 hófst fjósbygging og var tekin með trompi. Framkvæmdir hófust 6. júní það ár og 24. nóvember voru kýrnar fluttar yfir. Gísli segir að sú ákvörðun hafi verið tekin að vera ekki að breyta gamla fjósinu fyrir kýrnar, heldur byggja frekar nýja byggingu undir þær og nýta gamla fjósið frekar fyrir uppeldið. Framkvæmdin gekk vonum framar. Kríutangi, byggingaverktaki í eigu Stefáns Helgasonar frá Vorsabæ, hafði yfirumsjón með verkinu og lagðist fjölskyldan á eitt að drífa verkið áfram.
 
Húsið er steypt upp og stálsperrur á milli. Mynd úr einkasafni
 
 
Í stað þess að fara út í stóra fjárfestingu með mjaltaþjóni var farið í að kaupa meira greiðslumark og einnig fékk mjaltagryfjan andlitslyftingu. Hún var lengd og er nú 2x6 básar. Hins vegar er gert ráð fyrir mjaltaþjóni í allri hönnun fjóssins.
 
Fjósið var byggt með miklu áhlaupi árið 2015. Nýja byggingin reist yfir hluta af gamla fjósinu. Byggingin er mjög björt og loftræstingin góð. Gísli lét bæta við gluggum til að svala forvitninni um hver sé á ferðinni. Mynd úr einkasafni
 
Stærra fjós kallar á aukna ræktun og kvóta
 
Til að mæta aukinni fóðrunarþörf í nýju fjósi hefur jafnt og þétt verið brotið upp nýtt land til ræktunar. Til að mynda var bætt við um 18 hekturum í rýgresi nú í vor. Þá hafi einnig verið ræktað korn í þónokkur ár, en eins og staðan sé núna er fyrst og fremst verið að rækta það til að fá hálm, kornið sé orðin hálfgerð aukaafurð.
Gísli talar um að þau vanti kvóta til að geta keyrt fjósið á fullum afköstum.
„Það gætu 2 fjölskyldur lifað af þessum búskap allt árið ef það fengist meiri kvóti. Það hefur bara ekki verið hægt með núverandi fyrirkomulagi að ná í nokkurn kvóta. Það er alltaf verið að breyta kerfinu og það versnar alltaf. Það þyrfti að setja reglur um að menn gætu ekki boðið í meira en 20 þúsund í einu. Það eru fjórir markaðir á ári.“
 
Grjóttínsluvél er draumur margra og hefur létt líf bænda til muna. Búnaðarfélag sveitarinnar á vélina.
 
Samblöndun úr Öræfum
 
Flestir sauðfjárbændur á svæðinu reka fé sitt á afrétt sem liggur upp undir Hofsjökul. Hins vegar fara kindurnar á Stóru-Reykjum ekki fet, heldur spóka sig um í heimalöndunum yfir sumarið. Geir segist ekki útiloka að setja fé á fjall, að minnsta kosti hluta hópsins, en það sé óneitanlega þægilegt að hafa féð heima við. Geir segir að óhjákvæmilegt sé að sauðfjárbændur dragi úr framleiðslunni svo að verðið fari að hækka aftur. Meðan að verð á erlendum mörkuðum er ekki viðunandi sé ekkert annað í stöðunni en að fækka fé. Samdrátturinn muni bitna frekar á yngri bændum frekar en þeim sem hafa búið lengur.
 
Um 300 kindur rúmast í fjárhúsi sem byggt var árið 2012.
 
Samfélag á uppleið
 
Það vekur eftirtekt hversu mikið af ungu fólki hefur sótt til baka í heimahagana í Flóanum undanfarin ár. Fjölskyldufólk streymir til baka í gömlu hreppana og byggir sér íbúðarhús, oft út úr bújörðum, og sest að. Einnig hafa þó nokkrir ungir bændur tekið við búum á svæðinu undanfarið. Gísli kann góðar skýringar á þessu.
„Fólk sem hefur komið hingað og farið aftur talar um það að samfélagið hér sé með eindæmum gott. Fólki sé tekið vel og samvinna á milli bæja sér til fyrirmyndar.“
Dæmi um þessa samvinnu á milli bæja er að menn vinna mjög gjarnan saman að því að ná inn korni og viðhorf bændanna sé á þann hátt að vilja aðstoða þegar á reynir. Sameign í kringum heyvinnuvélar sé mjög algeng á milli bæja og slíkt fyrirkomulag kalli á gott samkomulag og samþættingu verka.
Geir talar um að sín kynslóð sé mjög áhugasöm um landbúnað.
„Þetta er frekar stór árgangur sem hefur haldið vel hópinn og áhugamálið hjá flestum er búskapur. Það eru flestir einhvern veginn á þeirri blaðsíðu.“
Sem dæmi um samkennd meðal bændanna á svæðinu er nautgriparæktarfélagið í hreppnum, sem Gísli segir að sé einstaklega öflugt og allar samkomur þess séu vel sóttar af bændum og áhugasömu fólki. Ferðir félagsins séu sérstaklega vinsælar og félagsskapurinn fólki kær.
 
Kýrnar eru lukkulegar með nýslegið grasið sem boðið er upp á þetta sumarið.
 
 
 Mikill vinnusparnaður
 
Þessar miklu framkvæmdir sem staðið hafa yfir undanfarin ár hafa skilað sér í miklum vinnusparnaði fyrir bændurna en á sama tíma fært álagið yfir á önnur svið. Gísli talar um að mjaltir og gjafir taki nú mun minni tíma en áður, en með auknum fjölda gripa skapist þörf fyrir aukinn heyfeng og meiri jarðvinnu. Tilkoma liðléttings hafi einnig haft mikið að segja til að létta undir í öllum gjöfum. 
Í fjárhúsinu var mikið hugsað fyrir góðri vinnuaðstöðu við hönnun hússins. Þar er hlaupaköttur sem getur flutt rúllur í gjafagrindur og miðjugangur sem nýtist þegar verið er að ragast í fénu. Húsinu er skipt upp í 8 krær og auðvelt er að koma fyrir einstaklingsstíum á sauðburði og einangra gripi til meðhöndlunar. 
 
Samlegðaráhrifin mikil
 
Þótt búskapurinn sé ekki sameiginlegur á pappír eru samlegðaráhrifin á milli gríðarlega mikil. Sauðfjárbúið njóti góðs af því að geta keypt hey af kúabúinu, og haft aðgengi að tækjum og verkfærum á báða bóga. Eins fái kúabúið aukin verðmæti í skít frá sauðfjárbúinu og bætta nýtingu á beit á haustin. Þá er ónefndur vinnuþátturinn sem getur stutt við báða aðila.
 

13 myndir:

Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...