Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sauðfjárrækt í Noregi.
Sauðfjárrækt í Noregi.
Lesendarýni 15. september 2016

Samanburður á einu og öðru í ræktunarstarfi sauðfjár á Íslandi og í Noregi – seinni hluti

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Á minni ævi hef ég upplifað miklar breytingar í viðhorfum hjá búfjárkynbótafræðingum til frjósemi hjá sauðfé. Um 1970, þegar ég er í háskólanámi í Noregi, virðist það viðhorf nokkuð ríkjandi um allan heim að þetta væri eiginleiki sem vegna hins lága arfgengis yrði aldrei brotið blað með hefðbundnum kynbótaaðferðum fyrir. Síðan hafa menn lært að þetta er mesta rugl.
 
Minnist þess að Halldór Pálsson ræddi stundum um þetta sem hin döpru viðhorf. Á sjöunda áratugnum var tískubylgjan að í þessum efnum næðust stóru skrefin með blöndun við ofurfrjósöm kyn sem alla jafnan voru um leið ákaflega kostasnauð um aðra eiginleika. Í sauðfé flæddu tvö sauðfjárkyn vítt um heim á þessum tíma. Þetta var Finnska féð og Romanov sem var sovéskt kyn af mislitu fé.
 
Menn fengu yfirleitt fram tilætlaðan árangur í blendingstilraunum út um allar koppagrundir. Hins vegar held ég að óvíða hafi orðið mikið framhald á þessari ræktun og nánast hvergi orðið grunnur að framhaldsræktun. Veit jafnvel ekki nema Romanov-féð sé að mestu útdautt vegna þess að í framhaldinu reyndist það virkasti miðill í heiminum við dreifingu á riðuveiki og mun nánast hafa dáið út í heimalandinu af þeirri ástæðu.
 
Finnska féð í Noregi
 
Norðmenn sóttu Finnska féð til nágranna sinna og gerðu ágætar tilraunir með það á tilraunastöð í Norður-Noregi. Þeir fengu fram líkar niðurstöður og aðrir. Í framhaldinu fóru þeir samt aðra leið en flestir. 
Þessum blendingum var dreift víða og þannig var þetta fé ræktað inn í mörg gömlu kynjanna sem síðan mynduðu „Hvíta féð“ þeirra. Þannig mun mega rekja ættir nær allra  Hvítu kindanna í Noregi í dag til Finnska fjárins. Það er ekki ósvipað og með Þoku á Smyrlabjörgum hér á landi þó að frjósemisgenið sé að sjálfsögðu löngu týnt úr erfðamengi þessa fjár.
 
Lengstum var því trúað að frjósemisáhrif Finnska fjárins mætti rekja til almennra frjósemisyfirburða þess. Því kollvörpuðu Norðmenn fyrir tveim eða þrem árum eldri hugmyndum þegar þeir uppgötvuðu stórvirka erfðavísa að baki þessum eiginleika.
 
Því miður hefur mér enn hvergi tekist að finna nægjanlega gott vísindalegt yfirlit um rannsóknir þeirra til að geta skrifað endursögn hér í blaðið. Það takmarkaða efni sem ég hef komist yfir er enn of mótsagnakennt. Fyrir liggur samt að þeir segja að arfblendnar ær gefi að jafnaði um 0,3 fleiri fædd lömb en ær án erfðavísisins. Engin ófrjósemisáhrif eru af geninu eins og við þekkjum fyrir Þokugenið. Þannig eru arfhreinu ærnar sagðar skila um 0,7 fleiri lömbum fæddum en ær án gensins. Þessar niðurstöður fyrir eiginleikann að viðbótargenið skili meiru en fyrra genið er ekki alveg í takti við það sem þekkist um mælda eiginleika og hefur fengið mig til að kokgleypa ekki niðurtöðurnar fyrr en ég kemst yfir ítarlegri rannsóknir.
 
Sú skiplagslausa blöndun sem átti sér stað með Finnska fénu í Noregi á því líklega verulegan þátt í þeirri frjósemisaukningu sem þeir hafa verið að mæla hjá norsku sauðfé á síðustu áratugum. Þetta hefur leitt til þess að skoðun norskra fjárbænda virðist almennt orðið sú að þeir hafi misst þennan þátt að vissu marki úr höndum sér og þurfi jafnvel að snúa þróuninni til baka í Hvíta fénu. Þeir hafa því ýtt úr vör ýmsum aðgerðum í ræktunarstarfinu fyrir þennan þátt. Ég neita því ekki að sumt af því virkar sem öfugmælavísa á mig og verður því gaman að fylgjast með þróun næstu ára hjá þeim. Frá haustinu í haust verður að arfgerðagreina alla hrúta sem teknir eru í afkvæmarannsóknir í hrútahringjunum (yfir 1500 lambhrútar). Verja þeir sameiginlegu fé til slíkra greininga sem kosta tæpar 5000 krónur á hvern grip. Öllum hrútunum sem greinast arfhreinir með Finnska genið skal slátrað. Ef valið stendur á milli hálfbræðra með líka ætternisspá ber frekar að velja þann sem er án gensins ef málið stendur þannig.
 
Ég held að eittvað eigi þetta eftir að ganga brösuglega hjá frændum vorum. Staða okkar með stýringu bænda sjálfra á dreifingu á Þokugeninu með arfhreinum hrútum á sæðingastöðvunum hlýtur að vera fyrir alla bæði einfaldari og meira aðlaðandi en þessi ósköp.
 
Hrútahringirnir
 
Lengi hefur verið fundið að norsku hrútahringjunum að þeir krefjist mikillar vinnu. Reglur eru settar út og suður um alla mögulega hluti gagnvart framkvæmd. Áhugavert er að það er skylda allra í ræktunarráðinu að greiða atkvæði um allar þessar reglur og í fundargerð eru birtar niðurstöður um atkvæðagreiðslu hvers og eins ráðsmanns. Þeir virðast geta gengið beint inn í flokk Pírata hér á landi, það opnar eru niðurstöður. Ýmsar af þessum reglum hafa þegar verið nefndar en aðeins skal vikið að sumum öðrum. 
 
Skráning eiginleika er fyrsta atriðið sem áhersla er lögð á. Þar eru skráðir eiginleikar í skýrsluhaldinu flokkaðir í skylduskráningu eða frjálsa skráningu. Eiginleikar sem eru skylduskráning fyrir eru:
Fæðingarþungi lamba, spenastærð hjá ánum, þungi á fæti hjá lömbunum, förgunarástæður, sjúkdómaskráningar og fang ánna.
 
Fyrir sláturlömb er að sjálfsögðu sjálfvirkt gagnaflæði um fallþunga lamba og kjötmat. Athygli vekur að þungi lamba við afréttarferð er nú orðinn valfrjáls eiginleiki með skráningu, en lengstum mun hann hafa vakið blendnar tilfinningar hjá ýmsum þátttakendum. 
 
Reglur eru um lágmarksfjölda hrúta í prófun í hringnum sem eru sex hrútar. Þá er gerð krafa um sláturupplýsingar fyrir að lágmarki 25 afkvæmi undan hverjum hrúti af Hvíta kyninu og 20 hjá Spæl.
Lágmark er að í hverri hjörð sem með er í hringnum séu hið minnsta notaðir fjórir hrútar. Þá er krafa um lágmarksnotkun sæðinga og eru settar upp flóknar töflur þar um fyrir hringi af mismunandi stærð. Ein einföldun sem gerð hefur verið á kerfinu er að hringir fyrir eitt bú geta fengið viðurkenningu með lágmarksnotkun sæðinga. Virðist lágmarksnotkun sæðinga í hverjum hring vera um 30 sæddar ær.
Þá eru töflur um hámarksfjölda hálfbræðra sem rannsaka má í hverjum hring, einnig háð umfangi hringjanna. Gerðar eru lágmarkskröfur til hrútanna sem teknir eru til notkunar og er þar þýðingarmest ætterniseinkunn. Einnig er langur listi hrúta sem eru á bannlista um að synir þeirra fái aðgengi að prófunarhring. 
 
Þetta reglumoð geta menn borið saman við þær reglur sem við höfum unnið eftir við okkar rannsóknir. Þegar ég vann að þessum rannsóknum fyrir um tæpum áratug og langan tíma áður var styrkur til þessara rannsókna yfirleitt um tvær milljónir á ári og voru bændur þá mjög oft að rannsaka á þriðja þúsund hrúta á ári. Þessi upphæð hefur eitthvað hækkað á síðustu árum en mun samt nokkuð innan við fimm miljónir á ári og þar af talsverður hluti aðeins til rannsóknarinnar á Hesti. Norðmenn birta hins vegar í þessari fundargerð sinni nákvæmar tölur um styrkveitingar vegna einstakra framkvæmda innan ræktunarstarfsins. Hrútahringirnir hjá þeim þar sem þeir gera ráð fyrir að prófaðir séu 1500 hrútar á ári fá hins vegar styrk til starfseminnar sem nemur um 55 milljónum króna þannig að talsvert virðist bera á milli um stuðning við verk bænda hér og þar.  
 
Ræktunaráherslurnar
 
Á hverju ári eru áherslur eiginleika í heildareinkunnum sem reiknaðar eru í skýrsluhaldinu endurskoðaðar. Breytingar eru yfirleitt einhverjar gerðar á hverju ári. Þær eru ekki byggðar á nákvæmum útreikningum á hagrænu vægi heldur eru færð í umræðum rök með og á móti tilteknum breytingum og þær ákvarðaðar með atkvæðagreiðslu í framhaldi þess. Hjá Hvíta fénu eru breytingar smávægilegar. 
 
Enn halda þeir samt áfram að lækka vægi frjósemi sem nú fær aðeins 3% vægi og er áherslan á þennan eiginleika nú aðeins ¼ af því sem var fyrir fjórum árum. Ljóst er að þessi eiginleiki hefur fengið það lágt vægi að einkunn ræður engu um breytingar lengur. Breytingarnar sem verða koma vegna tilviljunarkenndra sveiflna á Finnska geninu í stofninum. Annars skiptast áherslur þannig á eiginleika:
Fallþungi 24%, skrokkgæði 29% (18% gerð, 11% fita), móðureiginleikar ánna 39%, frjósemin eins og áður segir 3% og ullareiginleikar 5%, en þeir voru dregnir að nýju með í ræktunarmarkmið á síðasta ári og breytingar nú milli ára er eingöngu flutningur áhersla frá frjósemi á ull.
 
Eins og áður segir eru áherslur ögn breytilegar á milli kynja og fyrir okkur fróðlegt að skoða áherslur einnig hjá Spæl; Fallþungi 22%, skrokkeiginleikar 27% ( 20-7) , móðureiginleikar 35%, frjósemi 12% og ull 3%. Við samanburð ber að hafa hugfast að Finnska genið er ekki dreift hjá Spæl.
 
Val ásetningshrútanna
 
Miklar og nákvæmar reglur eru um mat lambhrútanna sem valdir eru til ásetnings sem ekki er ástæða til að fjölyrða um. Þó að ég hafi aldrei verið viðstaddur lambhrútasýningar í Noregi hef ég út frá lestri á reglum fengið á tilfinninguna að skoðað sé hvort gripurinn sé laus við alvarlega annmarka á haus og fótum. Hann þarf að standast lágmarkskröfur varðandi ull. Annars virðist þetta að mestu uppröðun eftir ætternismati og þunga með hlíðsjón af vænleika á heimabúi lambsins.
 
Notkun ómmælingar þekkist ekki nema í lítilli kjötlínu af Texel kyni. Mat á holdfyllingu og gerð með átaki á lambinu hefur aldrei verið þjóðaríþrótt Norðmanna.
 
Áhugavert er að ræktunarráðið gefur út mjög nákvæma og sundurliðaða töflu um verðmiðanir fyrir kynbótagripi. Ekki verður slíkt rakið hér aðeins nefnt að grunnverð á völdum ásetningshrútum er um 44000 auk þess sem verðuppbót kemur á hvert stig í ætternismati þegar það kemur yfir ákveðin mörk og er hún um 700 krónur fyrir hvert einkunnarstig. Eina verðið sem virðist sambærilegt milli landa er greiðsla fyrir hrúta sem valdir eru á sæðingastöðvarnar.
 
Sauðfjársæðingar
 
Eins og áður segir þá er sæðingastarfsemin öll rekin á vegum NSG í Noregi og reka þeir aðeins orðið eina slíka stöð í landinu. Í nákvæmri sundurliðun á reikningi koma fram allar heildarupphæðir sem tengjast þessu. Þetta er forvitnilegt að skoða í samanburði við okkur. Við samanburðinn ber að hafa í huga að heildarfjöldi sæðinga hefur síðari ár verið svipaður í báðum löndum þrátt fyrir verulegan mun í ærfjölda. 
Norðmenn nota að mestu fryst sæði. Þá er hrútafjöldi á stöðvunum margfaldur miðað við það sem gerist hér og notkun eins og hjá meirihluta hrúta á stöðvunum hér óþekkt þar. Rekstur virðist þar eins og hér miðað við að beri kostnað við framkvæmdina. Heildarveltan hjá þeim í þessu starfi er um 85 miljónir samanborið við um 25 miljónir hér á landi. Eittvað er því sæmilega unnið hjá stöðvunum hérlendis.
Vera kann að einhver hluti sæðingarkostnaðar úti á búunum sé inni í norsku tölunum, þann kostnað bera fjáreigendur allan hér. Hann vitum við að er á stundum allnokkur en ekkert upp í þann mun sem er á kostnaði milli landanna. 
 
Fjármögnun ræktunarstarfs
 
Í lokinn er fróðlegt að skoða heildarkostnað NSG til ræktunarstarfsins og bið menn þá að muna að stærsti þáttur þess, framkvæmd afurðaskýrsluhaldsins, er utan þessa ramma. Heildarveltan í þessum þætti hjá NSG er um 250 miljónir á ári og hefur verið þegar fjallað um nokkra útgjaldaliði.
 
Tekjur til starfseminnar er fróðlegt að skoða. Rúmar 100 miljónir þeirra koma sem beinn stuðningur frá landbúnaðarráðuneytinu norska, líklega í búnaðarsamningi þar í landi.  Að auki þá koma um 40 miljónir af veltugjöldum af framleiðslunni ekki óáþekkt búnaðargjaldinu fræga hjá okkur. Stundum tala forystumenn landbúnað um jafnar stuðningsaðgerðir við bændur í öðrum löndum.
 
Að mínu viti er ýmislegt mjög forvitnilegt sem lesa má út frá þessum samanburði. Ég held að við getum alveg kinnroðalaust borið framkvæmd okkar í ræktunarstarfinu saman við það sem best gerist annars staðar í heiminum. 
 
Samanburður á stuðningi sem norskir bændur fá til þessarar starfsemi er margfaldur í Noregi á við það sem íslenskir bændur fá. Að auki mun samanburður á afurðaverði hjá bændum þar og hér vera okkur mikið í óhag. Ég held að þangað hafi íslenskir sauðfjárbændur mögulega meiri þekkingu að sækja í þeim efnum en í ræktunarmálum.
 
Samanburður sem þessi styrkir mig í þeirri skoðun, sem margir erlendir sauðfjárræktendur hafa látið í ljós við mig á síðustu árum, að okkur hafi ef til vill tekist að byggja upp virkara og öflugra ræktunarkerfi en aðrar sauðfjárræktarþjóðir, að í þessu sé mögulega ákveðinn sannleikskjarni.
Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.