Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sagði best að taka pokann sinn
Fréttir 24. október 2014

Sagði best að taka pokann sinn

Höfundur: Margrét Þ. Þórsdóttir

Mikil óvissa ríkir nú um með hvaða hætti og hvar næsta Landsmót hestamanna verði haldið eftir alvarlegar deilur sem upp komu á landsfundi Landssambands hestamanna.

Það hefur verið frekar regla en undantekning að deilur hafi spunnist í kjölfar staðarvals Landsmóts sem haldið er annað hvert ár. Saga Landsmótanna nær aftur til 1950 þegar fyrsta Landsmótið var haldið á Þingvöllum. Þar voru sýnd 133 hross, kynbótahross, gæðingar og kappreiðahross.

Landsmót er í dag einkahlutafélag  og að 2/3 hluta í eigu Landssambands hestamannafélaga (LH) og að 1/3 hluta Bændasamtaka Íslands. Í skjóli eignarhalds hefur LH haft úrslitaáhrif á ákvarðanatöku í gegnum árin.

Sakaður um óheiðarleika

„Þegar sú staða kemur upp að ég er ásakaður um óheiðarleika og að brjóta lög í starfi mínu, starfi sem ómældur tími fer í, allur í sjálfboðavinnu, er ekki um annað að ræða en taka pokann sinn,“ segir Haraldur Þórarinsson, sem sagði af sér formennsku í Landssambandi hestamanna á stormasömu landsþingi LH sem haldið var á Selfossi um liðna helgi. Það gerði hann í kjölfar heitrar umræðu um mál er tengjast Landsmóti og staðarvali þeirra. 

Stjórn félagsins gerði slíkt hið sama. Fráfarandi stjórnarmenn hafa tekið að sér að starfa sem starfsstjórn fram til 8. nóvember næstkomandi þegar landsþingi verður fram haldið.  Lýst hefur verið eftir framboðum til nýrrar stjórnar LH sem kosin verður á framhaldsþinginu.

Landsbyggð og þéttbýli att saman

„Ég átti satt best að segja ekki von á svona miklum látum og þeirri heift sem ríkti meðal ákveðins hluta þingfulltrúa. Ég hélt að hestamenn væru tilbúnir að ræða nálefni Landsmótsins á málefnalegum grunni en ekki með upphrópunum og rangfærslum þar sem höfðað var til tilfinninga og landsbyggð og þéttbýli att saman í stað þess  að fá fram efnislega umræðu um landsmótsmálin og hvernig þeim verði best hagað til framtíðar litið,  með hagsmuni íslenska hestsins að leiðarljósi,“ segir Haraldur.

Segir hann að málið hafi verið tekið inn á dagskrá þingsins í þeirri von að menn ræddu þau af heiðarleika á málefnalegan hátt og veltu upp mismunandi sjónarmiðum af hlutleysi.

„Það var hópur reyndra félags­málamanna á þinginu með stuðningi ákveðinna sveitarfélaga, sem ekki hafa staðið með afgerandi hætti við bakið á svæðunum og gert við þau rekstrarsamninga, sem tókst að etja saman landsbyggð og þéttbýli þar sem alið var á því að allt væri á förum til Reykjavíkur með tilheyrandi tilfinningaþunga. Umræðan komst aldrei upp úr því fari þótt það hafi verið reynt af nokkrum fulltrúum.“

Breytingar á staðarvali Landsmóts 2016 hleyptu illu blóði í landsþingsfulltrúa

Það sem hleypti hinu illa blóði í hestamenn á landsþinginu var að stjórn LH hafði ákveðið að hefja samningaviðræður við Gullhyl ehf., félag hestamannafélaga í Skagafirði, um að halda næsta Landsmót, árið 2016, en í byrjun mánaðar var samþykkt að draga þá ákvörðun til baka og semja þess í stað við hestamannafélagið Sprett í Kópavogi og Garðabæ um að halda mótið. Þá hafði stjórn ákveðið að ganga til viðræðna við Fák í Reykjavík um að halda Landsmót árið 2018.

Skagfirðingum var tilkynnt um breytingar fáum dögum fyrir landsþing. Þeir lögðu á þinginu fram tillögu þess efnis að stjórn LH myndi draga til baka þá ákvörðun sína að halda ekki Landsmót á Vindheimamelum árið 2016.  Tillagan var samþykkt.

Þarf að hefja umræðuna upp úr staðarvalsfarinu

Haraldur segir að Skagfirðingum hafi verið gerð grein fyrir ástæðum þess að viðræðum við Gullhyl vegna Landsmóts 2016 á Vindheimamelum var slitið.

„Ég hef fullan skilning á því hversu mikilvægt er fyrir viðkomandi svæði að fá Landsmót, en að mínu mati þurfum við að hefja umræðuna upp úr þessu staðarvalsfari með tilheyrandi tilfinningaþrunga.
Málið snýst fyrst og fremst um íslenska hestinn, hvernig við til framtíðar eflum hestamennsku í landinu, aukum nýliðun og skoðum með hvaða hætti við stöndum sem best að Landsmótum með hagsmuni íslenska hestsins í fyrirrúmi.

Umræða af því tagi sem fram fór á landsþingi, þar sem sjónum var einkum beint að staðarvali heldur landsmótsmálum í gíslingu, það verður engin framþróun og það er sorglegt,“ segir Haraldur.

Ekki tilbúinn að taka áhættuna

Hann bendir á að frá því stofnað var einkahlutafélag um rekstur Landsmóta hafi slík mót verið haldin 7 sinnum.  Eitt hafi farið fram í Reykjavík, árið 2012, hin á landsbyggðinni, þrjú á Vindheimamelum í Skagafirði og jafnmörg á Gaddstaðaflötum við Hellu. Lagt hafi verið upp með að næsta mót yrði fyrir norðan, en við nánari skoðun með hliðsjón af rekstraráhættu og aðstöðuleysi hafi ákvörðun verið breytt.

Slæmt veður, rok og rigning hafi einkennt þrjú síðustu mót

„Við vorum ekki tilbúin að taka slíka áhættu aftur, vissulega getur líka verið leiðindaveður á höfuðborgarsvæðinu en þar eru betri aðstæður til að bregðast við,“ segir hann. Bendir hann m.a. á að aðstæður sem Sprettur hafi yfir að ráða séu mjög góðar og að hluta til hægt að færa mótshald inn. Einnig mætti bjóða upp á landbúnaðarsýningu eða aðrar kynningar og uppákomur í Kórnum sem Sprettur hefur yfir að ráða.

Aðstaða á Vindheimamelum ekki fullnægjandi

„Það stóð ekki annað til en að hefja samningaviðræður við Skagfirðinga um mótshaldið 2016, við veltum málum gaumgæfilega fyrir okkur m.a. með tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til landsmótssvæðanna. Aðstaðan á Vindheimamelum er ekki fullnægjandi. Mótin hafa stækkað og eiga mikla möguleika ef þeim er búin rétt umgjörð.

Ljóst er að heimamenn hefðu þurft að leggja í mikinn kostnað til að gera svæðið sambærilegt við önnur sem eru í boði, spyrja verður hvort réttlætanlegt sé að gera slíkar kröfur til þeirra t.d. bara miðað við nýtingu á slíkri fjárfestingu, okkar niðurstaða var sú að svo væri ekki,“ segir Haraldur.

Fleiri ástæður liggi að baki viðræðuslitum og þær hafi verið tíundaðar í bréfi til heimamanna.

Bar brátt að

Skagfirðingar lögðu sem fyrr segir fram tillögu á landsþingi um að ákvörðun stjórnar yrði dregin til baka.  Samkvæmt lögum sambandsins eiga tillögur sem fyrir þingið eru lagðar að koma fram 8 vikum fyrir þing og eða samþykktar með tveimur þriðju hluta þingfulltrúa.

Haraldur segir að mistök hafi verið gerð á þinginu varðandi innkomu tillögunnar, en ekki hafi verið talið hvort nægilegur fjöldi stæði á bak við hana. Tillagan hafi því ef til vill komið ólöglega inn til umfjöllunar.
„Í tillögunni er undir rós verið að lýsa vantrausti á okkur stjórnarmenn, við erum vænd um óheiðarleg vinnubrögð og lögbrot. Ég viðurkenni að þessi mál bar nokkuð brátt að af okkar hálfu og fyrirvarinn var stuttur, við tilkynntum um okkar niðurstöðu nokkrum dögum fyrir landsþing.  Það hefði mátt standa með öðrum hætti að málum, m.a. með því að tilkynna um breytta tilhögun næsta Landsmóts eftir landsþing, en okkur fannst heiðarlegra að koma hreint fram og láta vita strax. 

Við vorum sökuð um að koma óheiðarlega fram og að fremja lögbrot, sem stenst ekki en þegar maður finnur fyrir þessu vanþakklæti á sín störf fyrir sambandið er best að yfirgefa sviðið og njóta lífsins á annan hátt,“ segir Haraldur.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...