Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sagan um lambakjötið, rúnstykkið og ljósaperuna
Mynd / BBL
Lesendarýni 10. október 2017

Sagan um lambakjötið, rúnstykkið og ljósaperuna

Höfundur: Guðni Ágústsson
Á miklum uppgangstímum í efnahagsmálum landsins er ekki hægt að sætta sig við þá stöðu sem sauðfjárbændur búa nú við, verðfall afurða er staðreynd og gjaldþrot bænda, verði ekkert að gert. Tilboð land­búnaðar­ráðherrans var smán­arlegt og minnti á slátur­tíðina en ekki framtíðina. Skipun hennar á Þórólfi Matthíassyni í verðlagsnefnd búvöru er síðan stríðshanski og pólitískur gjörningur til að skapa illdeilur milli bænda og neytenda. 
 
Það hlýtur að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að kosningum loknum að setjast niður með sauðfjárbændum og vinna að lausn vandans til að forðast kollsteypu í byggðum landsins.  
 
Verðum að byggja landið allt
 
Við verðum að byggja landið allt, ekki síst nú þegar ferðamannastraumurinn gefur tækifæri til að efla landsbyggðirnar og byggja upp nýja atvinnumöguleika. Erlendir markaðir hafa fallið og gefa minna í aðra hönd, ekki síst við ofris krónunnar, útflutningur á lambakjöti stendur því höllum fæti. 
 
Á meðan allt er á uppleið hafa lífskjör og afkoma sauðfjárbænda versnað ár frá ári, haustið 2015 var meðalafurðaverð til bænda ca 600 kr. á kílóið. Haustið 2016 lækkaði verð enn um 10% til bænda og var 543 kr. kílóið. Og nú haustið 2017 hrapar verð til bænda enn og gert er ráð fyrir 35% lækkun afurðaverðs og þá verður kílóverðið á úrvalslambakjöti komið niður í 353 kr. á kílóið. Það er eitthvað bogið við þessa verðlagningu og eitthvað sem hlýtur að vera hægt að gera betur og öðruvísi, bæði af hálfu bænda, verslana  og afurðastöðvanna.  
 
Ríkið er ekki heldur stikkfrí í málinu, markaðir hafa tapast vegna stjórnvaldsaðgerða, og öll ríki Vesturlanda koma að landbúnaði sínum með einum eða öðrum hætti. Hins vegar hefur neysla á lambakjöti aldrei verið meiri en síðustu mánuði eftir að erfiðleikarnir komu til umræðu sem sýnir þjóðarviljann, hann er sauðfjárbændum hliðhollur. 
 
Fréttir berast af því að birgðir séu miklu minni en talið var og verð til bænda er byrjað að hækka á ný.
 
Hefur markaðssetning og sölumennska brugðist? 
 
Á dögunum skrapp ég til Akureyrar, á flugvellinum í Reykjavík ákvað ég að kaupa rúnstykki með osti og skinku og einn kaffibolla. Ég mátti borga fyrir þetta 880 krónur. Berum nú saman verðið á rúnstykkinu og kílói af lambakjöti, verðið á lambakjöti til bóndans er nú boðað 353 krónur en rúnstykkið sem ekkert er 880 kr., hver trúir þessu?  Svo þegar heim kom þurfti ég að kaupa eina ljósaperu, hún kostaði 370 kr., var dýrari en kílóverðið af lambakjötinu.  
 
Magnið sem bændur framleiða umfram innanlandsmarkaðinn og fluttur er til útlanda er ekkert magn, tvö til þrjú þúsund tonn, ég hef margrætt þá stöðu bæði sem landbúnaðarráðherra og eftir það, að lambið beri að selja aðeins á sælkeramörkuðum erlendis eða í verslanir sem leita eftir gæðum og borga fyrir gæði og náttúrulega afurð hærra verð. Ferskt kjöt er þar í sérflokki í sláturtíðinni. Afurðastöðvarnar og sauðfjárbændur eru að selja þetta litla magn með ærnum tilkostnaði um víða veröld  til, Japan, Kína, Evrópu og Bandaríkjanna, ekki ætla ég að gera lítið úr þessu starfi. En ég minnist þess að á mínum tíma sem ráðherra opnaði Baldvin Jónsson með styrk sínum og færni í sölumennsku hliðið að Whole-Foods Market í Bandaríkjunum. Þar erum við Íslendingar enn með okkar afurðir einir Norðurlandanna, lambakjöt, skyr, smjör og osta, súkkulaði og bleikju. Lambið opnaði þennan markað en það voru og eru Samherjamenn sem fylgdu bleikjunni eftir og eru þeir nú stærstu framleiðendur og sölumenn á bleikju í veröldinni.
 
Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig og hvað hefði gerst ef íslenskir sauðfjárbændur hefðu falið Samherja að annast alla sölumennsku á lambakjöti og fylgja henni eftir í þessum búðum? Bleikjusalan eykst ár frá ári, væri það eins með lambakjötið og mjólkurvörurnar í þeirra höndum, ég spyr? 
 
Ísland er einstakt matvælaframleiðsluland 
 
Það er mikilvægt að leita allra leiða til að fórna ekki sauðfjárbúskapnum við tímabundna erfiðleika. Tvennt á eftir að eflast hér ef rétt verður haldið á málum, þ.e. matvælaframleiðsla bænda við einstakar aðstæður í landi hreinleikans og án lyfja og eiturefna. Hitt er sala á fersku vatni innan skamms tíma, þar eigum við ein­staka auðlind saman sem er vatnið og það er meira magn sem rennur til sjávar af vatni hér en í öllum löndum Vestur-Evrópu. Vatnið verður stærsta gjaldeyrisauðlind Íslands í framtíðinni. 
 
Hér hélt erindi á dögunum, á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Dominic Barton, einn æðsti stjórnandi McKinsey&Company. Hann boðaði skýra sýn um að landbúnaðurinn og vatnið yrðu í öndvegi atvinnusköpunar næstu áratuga. Það er því mikilvægt að grípa til aðgerða sem styrkja en veikja ekki grunnstoðir íslensks landbúnaðar, bændur verða að vinna sína heimavinnu með stjórnmálamönnunum og atvinnulífinu, móta stefnu sem tendrar ljós, vilja og bjartsýni. Stefnu sem setur framtíðina í öndvegi og blómleg bú. 
 
Ísland er gott landbúnaðarland og býður kosti sem fá eða engin þjóð önnur getur státað af í matvælaframleiðslu. Burt með fordóma og minnimáttarkennd, íslenskur landbúnaður er einn besti landbúnaður í heimi enn fjölskylduvænn og kominn í tísku eins og lopapeysan.
 
Guðni Ágústsson,
fyrrv. landbúnaðarráðherra.
Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...