Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ruslið er jafn mikið og öll álframleiðsla Íslendinga
Mynd / BBL
Fréttir 8. júní 2017

Ruslið er jafn mikið og öll álframleiðsla Íslendinga

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar féllu til 850.147 tonn af úrgangi á landinu öllu árið 2015, þar af voru 137.842 tonn flutt úr landi til endurvinnslu, eða 16,2%, og þar af 1.149 tonn af spilliefnum.
 
Allt sorp sem til féll eftir Íslendinga á árinu 2015 var jafn mikið og allt ál sem framleitt var á Íslandi 2015, samkvæmt tölum Samáls.
 
Rúmlega þriðjungur af heimilisúrgangi er flokkaður 
 
Af heildarsorpmagninu, rúmlega 850 þúsund tonnum, var heimilis­sorp samtals 193.372 tonn. Af því voru 74.147 tonn flokkuð, eða 38,3%. 
 
Þetta eru nýjustu fáanlegar samantektartölur, en heildartölur af landinu öllu fyrir árið 2016 munu samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun ekki vera fyrirliggjandi. Þeirra er ekki að vænta fyrr en undir árslok. 
 
Aðeins ein sorpbrennslustöð
 
Nú er einungis starfandi ein sorpbrennslustöð í landinu, en það er Sorpeyðingarstöð Suðurnesja í Helguvík. Þar voru brennd  10.769 tonn af úrgangi á árinu 2015. Þar fyrir utan voru 3.358 tonn af sorpi send úr landi til brennslu. 
 
Bændablaðið hefur vitneskju um að einhverju af sorpi sé enn brennt í opnum brennslustæðum á einstaka stöðum úti um land þótt í litlum mæli sé. Þá áætlar Umhverfisstofnun að 1.700 tonnum af timbri hafi verið brennt á áramótabrennum á árinu 2015.  
 
179.405 tonn af iðnaðar- og ökutækjaúrgangi
 
Ef skoðað er hvað var verið að senda utan í endurvinnslu af þeim 137.842 tonnum sem send voru 2015, kemur í ljós að mest var um úrgang frá iðnaði, eða 54.941 tonn. Síðan voru flutt út 34.556 tonn af málmúrgangi. Þá voru flutt út 6.149 tonn af málmum úr afskrifuðum og ónýtum ökutækjum og 858 tonn af  hjólbörðum og gúmmíi. Samtals gera þetta 179.405 tonn sem koma frá iðnaði og ökutækjanotkun. 
 
Af pappírsumbúðum, eða bylgjupappa og sléttum pappa, voru flutt út til endurvinnslu 15.315 tonn á árinu 2015. 
 
Af öðru en umbúðapappír voru flutt út 14.653 tonn. Þá var 181 tonn af pappír notað til jarðgerðar hér heima. 
 
7.740 tonn af málm- og plastumbúðum
 
Af málmumbúðum (áli og járni) voru í heild flutt út 1.502 tonn. Þar af voru 825 tonn af álumbúðum. 
Þá voru flutt út 5.413 tonn af plastumbúðum til endurvinnslu erlendis á árinu 2015.
 
Gler að jafnaði ekki flutt út til endurvinnslu
 
Gler sem fólk fær greitt skilagjald fyrir á móttökustöðvum hefur að jafnaði ekki verið flutt út til endurvinnslu. Á árinu 2015 var þó gerð tilraun til þess með útflutningi á 30 tonnum af gleri.
 
Tvær meginskýringar eru á því, samkvæmt heimildum Bændablaðsins, af hverju gler er ekki sent utan til endurvinnslu. Þær eru mikill flutningskostnaður og sú staðreynd að gler er ódýrt í framleiðslu og auðveldara að stýra framleiðslu á gleri með því að bræða kísil- eða kvartssand sem víða er að finna í miklu magni. Hluti af því gleri sem skilað hefur verið á undanförnum árum hefur farið til urðunar í Álfsnesi. Eitthvað hefur farið í aðrar landfyllingar og einnig hefur verið rætt um að nýta það til vegagerðar. 
 
1.149 tonn af spilliefnum flutt úr landi
 
Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar eru spilliefni nokkuð víðtækt hugtak yfir margs konar úrgang sem getur innihaldið hættuleg efnasambönd og þungmálma. Má nefna margvísleg spilliefni frá iðnaði, eins og olíuefni af ýmsum toga, málningu og fleira. 
 
Af rafhlöðum og rafgeymum voru flutt út 910 tonn árið 2015. Þar af voru 879 tonn sem flokkast sem spilliefni en 31 tonn af efnum í rafgeymum og rafhlöðum sem fluttar voru út flokkkast ekki sem spilliefni. 
 
Þá voru flutt út 3.515 tonn af raflagna- og rafeindatækjaúrgangi. Þar af voru 270 tonn flokkuð sem spilliefni, en 3.245 tonn voru það ekki og er þar væntanlega um að ræða málma og plast. 
 
Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...