Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Rækja Stóri kampalampi.
Rækja Stóri kampalampi.
Fræðsluhornið 17. apríl 2018

Ris og hnig rækjunnar

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Sú var tíðin að veiðar og vinnsla á rækju voru stór grein innan íslensks sjávarútvegs. Nú eru rækjuveiðarnar ekki nema svipur hjá sjón og framleiðsla rækjuafurða aðeins brot af því sem var þegar best lét. Frá síðustu aldamótum hefur rækjuiðnaðurinn byggst á innfluttu hráefni að verulegu leyti.

Rækjuiðnaðurinn hefur mikla sérstöðu innan íslensks sjávarútvegs vegna fjölbreytts uppruna hráefnis og leitun er að annarri grein sem gengið hefur í gegnum jafnmiklar sveiflur og rækjan.

Segja má að hráefni fyrir rækjuiðnaðinn hvíli á þrem stoðum. Í fyrsta lagi er rækja sem veidd er á grunnslóð, í öðru lagi úthafsrækja sem veidd er á Íslandsmiðum og í þriðja lagi rækja sem veidd er á ýmsum hafsvæðum í Norður-Atlantshafi. Sú rækja er að mestu veidd af erlendum skipum og flutt inn til vinnslu, svonefnd iðnaðarrækja.

Fór mest í 89 þúsund tonn

Rækjuveiðar við Ísland hófust á fjórða áratug síðustu aldar þegar farið var að veiða rækju í Ísafjarðardjúpi. Aflinn var lítill framan af, aðeins nokkur hundruð tonn. Hann jókst eftir að fleiri svæði á grunnslóð fundust. Lengi vel var heildarafli á grunnslóð þó aðeins 2 til 7 þúsund tonn á ári. Stóra stökkið kom ekki fyrr en veiðar á djúprækju og rækju utan landhelginnar komu til sögunnar.

Árið 1996 var metár í rækjuveiðum íslenskra skipa. Þá lönduðu þau alls rúmum 89 þúsund tonnum. Þar af voru rúm 55 þúsund tonn úthafsrækja, um 12.500 tonn rækja á grunnslóð og 21 þúsund tonn rækja frá Flæmingjagrunni sem er alþjóðleg veiðislóð austur af Kanada.

Eftir árið 1997 dróst rækjuaflinn nokkuð hratt saman og fór lægst niður í um rúm 2 þúsund tonn í heild árin 2006 og 2007. Veiðar á rækju á grunnslóð brugðust nær alveg þessi tvö ár, veiðum íslenskra skipa á Flæmingjagrunni hafði verið hætt og síðast en ekki síst vóg það þungt að margar útgerðir hættu veiðum á úthafsrækju vegna bágrar afkomu rækjuveiða. Einnig áttu verksmiðjurnar í erfiðleikum vegna styrkingar íslensku krónunnar á árunum fyrir hrun.

Aflinn jókst aftur og var kominn í 11 þúsund tonn árið 2013. Afkoman batnaði vegna veikingar krónunnar og verðhækkunar á erlendum mörkuðum en Adam var ekki lengi í Paradís. Útflutningstekjur hafa lækkað vegna þess að krónan hefur styrkst á ný sem kunnugt er, verðið fór niður og ástand rækjustofna hefur sjaldan verið verra.

Á árinu 2017 var aflinn aðeins um 4.300 tonn í heild, þar af rúm 1.200 tonn rækja á grunnslóð og 3.055 tonn úthafsrækja. Aflinn í fyrra varð þannig aðeins 4,6% af veiðinni metárið 1996.

Hrun víðast á grunnslóð

Rækja hefur verið veidd á alls átta svæðum á grunnslóð allt frá Eldey norður og austur um að Öxarfirði. Þar á milli eru þessi veiðisvæði: grunnslóð við Snæfellsnes, Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói, Skagafjörður og Skjálfandi. Þarna er um sjálfstæða rækjustofna að ræða á hverju svæði sem Hafrannsóknastofnun metur árlega og veitir í framhaldinu ráðgjöf um hámarksveiði.

Misjafnt er hvað hvert svæði hefur gefið. Að hámarki hefur ársaflinn á einu svæði verið um 3 þúsund tonn á einu ári, en flest hafa þau skilað í sæmilega góðum árum milli 1 og 2 þúsund tonnum eða meir. Á 10. áratug síðustu aldar var veitt úr öllum þessum stofnum. Mestur varð ársaflinn samanlagt á grunnslóð um 16.600 tonn árið 1994 en var kominn niður í um 1.200 tonn á síðasta ári eins og áður er getið.

Rækjustofnar á grunnslóð norðanlands hrundu á árunum 1997 til 2000 og hafa veiðar ekki verið leyfðar þar síðan nema á Skjálfanda í eitt ár. Engar veiðar voru leyfðar í Ísafjarðardjúpi á árunum 2002 til 2004 og í Arnarfirði 2005 til 2007. Á öllum þessum svæðum er talið að afrán þorsks og ýsu hafi átt verulegan þátt í hruni rækjustofnanna. Einnig lágu veiðar niðri við Eldey í meira en ártug en veiðar voru leyfðar á ný á árunum 2103 til 2016.

Í haust leit út fyrir engar veiðar yrðu heimilaðar á grunnslóð nema á rækju við Snæfellsnes en nú hafa veiðar í Ísafjarðardjúpi einnig verið leyfðar eftir endurteknar mælingar.

Bágborið ástand á úthafsrækju

Veiðar á úthafsrækju á Íslandsmiðum hófust um miðjan áttunda áratuginn. Helstu veiðisvæðin eru djúpt norður af landinu. Veiðar á úthafsrækju urðu fljótt umfangsmeiri en veiðar á grunnslóð. Afli úthafsrækju varð mestur 62.400 tonn árið 1997. Hann minnkaði síðan og var kominn niður í 15.400 tonn árið 2004.

Enn seig á ógæfuhliðina og úthafsrækjan gaf einungis 600 tonn árið 2006. Veiðarnar glæddust eftir það og námu rúmum 7 þúsund tonnum bæði árin 2012 og 2013. Um tíma voru veiðarnar frjálsar en voru svo settar í kvóta á ný. Aflinn minnkaði aftur og varð rúm 3 þúsund tonn árið 2017. Ástand úthafsrækjunnar er bágborið. Afrán þorsks á rækju er mikið og hefur farið vaxandi undanfarin ár. Kvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári er 5.000 tonn.

Á fyrri hluta 9. áratugarins hófu íslensk skip að veiða rækju á Dohrnbanka sem er við miðlínu milli Íslands og Grænlands. Mest hafa skipin veitt þar tæp 2.900 tonn árið 1997.

Rækjuveiðar á alþjóðlegum hafsvæðum

Á 10. áratugnum færðu íslensk skip út kvíarnar og hófu veiðar á rækju á alþjóðlegum svæðum. Hér er einkum um að ræða veiðar á Flæmingjagrunni.

Þær veiðar voru stundaðar á árunum 1993 til 2006. Ársaflinn var oftast á milli 2 þúsund til 9 þúsund tonn en árið 1996 skar sig þó úr. Þá veiddist þar tæpt 21 þúsund tonn. Íslendingar komu einnig að veiðum á rækju á Flæmingjagrunni í gegnum eignaraðild að hluta til á nokkrum útgerðum í Eystrasaltsríkjunum. Afli Eystrasaltsskipanna var að stærstum hluta unninn hér á landi. Engar rækjuveiðar eru nú heimilaðar á svæðinu vegna bágs ástands stofnsins.

Undir lok tíunda áratugarins hófust veiðar á rækju í smáum stíl á Miklabanka sem er nálægt Flæmingjagrunni. Einnig fóru íslensk skip í Barentshafið til rækjuveiða og hófust þær árið 1997. Mestur afli íslenskra skipa þar var rúm 2.300 tonn árið 1999. Þessar veiðar lágu niðri á árunum 2001 til 2010 en hafa eitthvað verið stundaðar eftir það með hléum þó.

Vinnslu haldið uppi með innfluttu hráefni

Á sama tíma og rækjuveiðum hnignaði ört var rækjuvinnslu innanlands haldið uppi með innfluttu hráefni. Um er að ræða rækju sem fryst er um borð í erlendum veiðiskipum. Auk þess að fá rækju frá togurum Eystrasaltsríkja hafa íslenskar verksmiðjur keypt iðnaðarrækju frá Noregi, Grænlandi og Kanada.

Strax í kringum aldamótin 2000 var meira flutt inn af rækju til vinnslu hér en íslensk skip veiddu. Eftir því sem á leið varð innflutt rækja í yfirgnæfandi meirihluta. Til dæmis voru tekin tæp 70 þúsund tonn af rækju til vinnslu hér á landi árið 2004, þar af voru rétt rúm 53 þúsund tonn innflutt rækja og tæp 16 þúsund tonn rækja af íslenskum skipum. Innflutningur nam því um 76% af hráefninu.

Frá árunum 2005 og 2006 harðnaði á dalnum hjá rækjuverksmiðjunum, bæði vegna þess að veiðar íslenskra skipa drógust enn meira saman og innflutt hráefni minnkaði einnig. Á síðasta ári voru tekin til vinnslu rúm 17 þúsund tonn af rækju, þar af voru um 13 þúsund tonn innflutt iðnaðarrækja.

Fækkun verksmiðja

Rækju af Íslandsmiðum er aðallega landað ferskri og er hún pilluð, soðin og pakkað í rækjuverksmiðjunum. Innflutt iðnaðarrækja er öll frosin. Frystiskipin íslensku meðan þau voru og hétu lönduðu afla sínum sem iðnaðarrækju en þau fullunnu einnig rækjufurðir um borð, einkum úr stærstu og verðmestu rækjunni.

Víða um land voru rækjuverksmiðjur snar þáttur í atvinnusköpun. Á tíunda áratug síðustu aldar voru um og yfir 20 verksmiðja starfandi. Þrátt fyrir að innflutt hráefni bjargaði miklu þegar veiðar drógust saman fækkaði verksmiðjunum. Árið 2000 voru þær 18, árið 2004 voru þær 15 og í lok árs 2005 var fjöldi þeirra kominn niður í 8. Á síðasta ár voru starfandi 6 rækjuverksmiðjur, frá Grundarfirði að Siglufirði. Var lokun verksmiðja mikið högg í hverju byggðarlagi, einkum á minni stöðum eins og Bíldudal og Súðavík.

Þessi þróun, þverrandi hráefni og fækkun verksmiðja, endurspeglast í samdrætti í útflutningi rækjuafurða. Íslendingar fluttu út tæp 32 þúsund tonn af rækjuafurðum á árinu 2002 en árið 2017 voru aðeins flutt út um 7.900 tonn. Samdrátturinn í magni nemur um 75%. Verðmæti útfluttra rækjuafurða var 9,9 milljarðar árið 2016 en 7,2 milljarðar í fyrra.

Rækjuafurðir eru aðallega fluttar út til Bretlands og eru þær notaðar meðal annars í rækjukokteila sem Bretar eru svo sólgnir í.

Skylt efni: veiðar | Rækja

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...