Reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu felld brott frá 1. nóvember
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð þar sem felld er brott reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Reglugerðin tekur gildi 1. nóvember 2015.
Í tilkynningunni segir orðrétt:
Ástæður þess að umrædd reglugerð er felld úr gildi eru m.a. að ekki hefur verið reglubundið eftirlit með þeim aðilum sem hafa fengið vistvæna vottun. Þá hafa frá gildistöku reglugerðarinnar verið sett margvísleg lög og reglur sem gera ítarlegri kröfur til framleiðslu landbúnaðarafurða, en gamla reglugerðin um vistvæna landbúnaðarframleiðslu gerir.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskaði eftir athugasemdum vegna brottfalls reglugerðarinnar á heimasíðu ráðuneytisins þann 4. september sl. Frestur til athugasemda var til 28. september 2015. Ráðuneytinu bárust engar athugasemdir.