Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Rannsókn ærdauða vorið 2015 – stoppum ruglið
Skoðun 27. nóvember 2015

Rannsókn ærdauða vorið 2015 – stoppum ruglið

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Á vef Matavælastofnunar (eftirleiðis nefnd MAST á sama hátt og LS, RML og BÍ verður notað um þær stofnanir sem flestir lesendur þekkja í klausunni hér á eftir) gefur að lesa eftirfarandi í útsendri frétt á vefnum: „Matvælastofnun, í samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændasamtökin og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum undirbýr áframhaldandi rannsókn á sauðfjárdauðanum sem olli miklu tjóni hjá bændum veturinn 2014/2015.“  
 
Þessi frétt vekur hjá mér viðbrögð um vissa hluti í tengslum við þetta mál sem ég tel að full þörf sé til að upplýsa hinn almenna borgara um. Við lifum á þeim  tímum að við krefjumst opinnar stjórnsýslu og eðlilegrar meðferðar á opinberu fé. Í þessu máli eru því miður of margir þættir sem mér virðist hafa verið farið þægilega á snið við slík vinnubrögð. Einu bið ég lesendur að veita athygli, ein stofnun, LBHÍ, er ekki kölluð til verka, líklega sú eina sem býr yfir þeirri faglegu þekkingu sem þarna þurfti. Eðli hlutanna samkvæmt get ég ekki fjallað um málið nema frá mínum sjónarhóli.
 
Rétt er að taka það fram að sambandi við BÍ hefur verið ákaflega takmarkað í þessu máli eftir þeim upplýsingum, sem ég hef þaðan, og um hlut Keldna hef ég ekki aflað mér upplýsinga nema það sem birtist í sjónvarpi landsmanna og síðar verður vikið að. 
 
Þetta mál varð mér fyrst ljóst um miðjan maí í vor þegar ég fór að heimsækja bændur til að fylgjast með sauðburði. Ég skýrði strax fyrir Sigurði Eyþórssyni, framkvæmdastjóra BÍ, hvers ég hefði orðið var, hverjar augljósar ástæður væru og hvað mundi gerast á næstu vikum miðað við mismunandi sviðsmyndir. Því miður þróaðist veður eins og versta sviðsmyndin setti upp með óveðri víða um land um 10. júní, sem því miður olli alltof mörgum bændum dreift um land en mest á Vestjörðum og Vesturlandi umtalsverðu tjóni. Á þessum tímapunkti var í raun liðið það langt á sauðburð að einhverjar stærri aðgerðir þá hefðu að mínu viti verið gagns- og tilgangslausar. Aftur á móti er augljóst að það eftirlitsstarf sem MAST er falið samkvæmt lögum hafði fullkomlega brugðist. Það kemur þessu máli þó tæpast við en verður þeim vonandi til einhvers lærdóms.
 
Síðari hluta maí fara hjólin að snúast. Formaður LS greinir frá óeðlilegum ærdauða í sjónvarpi og stjórn LS ákveður að snúa sér til MAST um frekari rannsóknir. Öll umræða í fjölmiðlum og annars staðar í þjóðfélaginu litaðist mjög af þessum atburðum og snerist mikið um það að hér væri kominn upp í landinu einhver óþekktur sauðfjársjúkdómur sem farinn væri að valda fjárbændum umtalsverðu tjóni. Þarna held ég að fyrsta og mesta vegvillan í þessu máli hafi orðið.
 
Hér er nauðsynlegt að fram komi að samkvæmt minni vitneskju var, áður en þetta gerist, formaður LS búinn að ræða út frá því sem ég veit við nokkra aðila um málið. Fyrirmyndarbændur höfðu bent höndum á að líklegt væri að fóðuröflunin sumarið 2014 væri nokkur sökudólgur þess ástands sem upp var komið. Einnig hafði formaður LS leitað upplýsinga hjá Jóhannesi Sveinbjörnssyni, fóðurfræðingi hjá LBHÍ, í sambandi við þessi mál og hann lýst þeirri skoðun sinni að hér gæti orsaka verið að leita í ýmsum vandamálum sem tengdust lélegum heyjum frá sumrinu 2014. Ég hef ekki minnstu efasemdir um að Jóhannes er færasti maður í öllum fræðum um fóðrun sauðfjár, hið minnsta á Norðurlöndunum. Sjálfur hitti ég formann LS fyrir tilviljun hér á göngunum í Bændahöllinni á þessum tíma. Greindi ég honum frá því sem ég hafði sjálfur séð í fjárhúsum og hvað ég taldi að væri að gerast. Ég gef mig að vísu ekki út fyrir að vera lærður fóðurfræðingur þó að ég viti að nám mitt á því sviði er talsvert umfram það sem flestir dýralæknar hafa. Hins vegar tel ég af áratuga starfi að ég þekki ögn til á fjárbúum og hafi meðal dómgreind um suma hluti þar. Með þessar upplýsingar velur stjórn LS þá leið að hunsa alveg okkar ábendingar en treysta þess í stað að öllu leyti á að um sé að ræða útbreiðslu þekkts eða áður óþekkts sjúkdóms. Mín skoðun er að með þessu sé troðið rækilegar á faglegri þekkingu hér á landi en ég tel mig áður þekkja og vitna ég þar til viðvörunarorða félaga minna sem að framan er getið. Eðlilegt að mín þekking sé lítils metin, þó sárnaði mér að dómgreind mín var líka að engu höfð. Hugmyndirnar um sjúkdómaútbreiðslu finnst mér hins vegar svo stórkostlegar að þær ættu skilið stórt ritverk. Ljóst var samkvæmt þeim að upp var komið smitefni sem hugsaði sjálft. Þegar það gerist  þá held ég að menn verði einfaldlega hreint ráðalausir.
 
Fyrstu viðbrögð MAST í málinu voru að senda rafrænan spurningalista til bænda til upplýsingaöflunar og safna dauðum kindum til krufningar.
 
Víkjum fyrst að spurningalistanum. Þar tel ég mig vera faglega á heimavelli þar sem ég hef líklega meira komið að slíkum spurningalistarannsóknum og athugunum en flestir starfsmenn landbúnaðarstofnana í dag og kunna nokkuð meira um tölfræðilega meðferð slíkra gagna en sumir. Ég kom þeim skilaboðum til LS að ég væri tilbúinn til að aðstoða við tölfræðilega úrvinnslu gagnanna vegna þess að mér var fullljóst strax og ég sá spurningalistann á Netinu hve illa hann var unninn og gaf tilefni til að menn lentu á tölfræðilegum blindgötum sem oft gerist þegar farið er t.d. að vinna úr hlutfallslegum niðurstöðum eins og þarna þurfti mikið að gera.Lesendum er bent á að skýrslu um úrvinnsluna er að finna á vef MAST með frétt 9. júlí. Efnið geta menn lesið sér til skemmtunar en ætli þeir að leita þar einhverra svara varðandi ástæður ærdauðans fara þeir í geitarhús að leita ullar. Heldur vart að spurningalistinn gæfi heldur möguleika til slíks. Að sjálfsögðu var aldrei rætt við mig einu orði í sambandi við úrvinnslu. Ég var hér að störfum í Bændahöllinni þegar spurningalistinn mun hafa verið saminn en aldrei leitað til mín um að leggja þar hönd að verki. Fljótt eftir að fyrstu svör við spurningalistunum fóru að koma fór yfirdýralæknir að birtast með yfirlýsingar í kvöldfréttum sjónvarpsins sem margar hverjar voru þannig að unglingar með barnaskólakunnáttu úr tölfræði hefðu ekki vogað sér að bera slíkt á borð.
 
Um líkt leyti birtist einnig krufningadýralæknir á Keldum í fyrrnefndum kvöldfréttum og sagði þau tíðindi að mögulega væri kominn upp í landinu smitandi sauðfjársjúkdómur. Ákaflega nærgætin, kurteisleg og hughreystandi yfirlýsing við þessar aðstæður til sauðfjárbænda. Sigurður Sigurðarson, fyrrverandi dýralæknir sauðfjársjúkdóma, sem flestir bændur bera ákaflega mikið traust til, kom um þetta leyti til mín og skýrði mér frá því að margir bændur hefðu á þeim tíma leitað til sín um krufningu gripa.
Sjúkdómsástæðan sagði hann að hefði verið skýr og augljós við fyrsta grip og aldrei sést minnstu merki smitsjúkdóma. Sagðist hann hafa skýrt fyrrum félögum sínum á Keldum frá þessu öllu. Þeir munu hins vegar, öfugt við flesta aðra sem að málinu koma, hafa lært af reynslunni og hafa heiður fyrir.
 
Varla væri ástæða til að nefna nema vegna þess að ég er að rekja málið af mínum sjónarhóli að um þetta leyti birti Bændablaðið eftir mig grein sem nefndist „Að liðnu löngu vori“. Greinin fór til yfirlestrar hjá mínum yfirmönnum og samstarfsmönnum nokkrum og fékk ég ströng fyrirmæli um að þetta bull yrði ég að birta í eigin nafni en ekki undir nafni nokkurrar stofnunar sem ég tengdist. Það kom mér að óvart, þó að ég hefði skynjað frá bændum að bull fjölmiðla og MAST hvíldi verulega orðið á ýmsum bændum, að við þessari grein fékk ég meiri viðbrögð en við nokkru sem ég fyrr eða síðar hef skrifað. Öll eru þau á einn veg nema eitt. Ég hef í viðtölum, símtölum og tölvupóstum fengið þakkir svo hundruðum skipta og það meira segja frá dýralæknum sem mögulega eiga að geta einir manna tekið eitthvað til sín í þessum skrifum og þótti mér sérstaklega vænt um það og þakka þeim aðilum sérstaklega. Eini aðilinn sem hefur í mín eyru látið í ljós óþægindi af völdum þessa er framkvæmdastjóri RML. Verð ég hér með opinberlega að biðja hann afsökunar vegna þessara óþæginda. 
 
Hefst þá gamanþáttur þessarar umfjöllunar. Það voru „rannsóknir“ sem fóru fram með blóðsýnatöku úr ám sem hlaupnar voru upp um fjöll og firnindi til sýnatöku. Var þá mikill kappakstur dýralækna um sveitir landsins. Rannsóknaráætlun sem að baki lá hef ég ekki séð (þrátt fyrir loforð þar um) en hún hlýtur að hafa átt að byggja á góðu sambandi við þá himinbjargafeðga. Líklega hefur sambandið verið slæmt því að samkvæmt fréttinni sem vikið er að í upphafi fengust engar niðurstöður úr þessari rannsókn. Viðbrögð bænda voru þau að nokkrir hringdu í mig og lýstu aðgerðum og spurðu hvort þetta væri það sem kallaðist vísindi fyrir sunnan. Víst er það mjög jákvætt að starfsmenn MAST séu farnir að vekja ánægju bænda vegna þess að manni hefur aðeins þótt á slíkt skorta.
 
Fjármögnun þessar „rannsókna“ virðist mér vera mál sem ástæða væri til að upplýsa betur um. Ég hef leitað upplýsinga. Svör forstjóra MAST veit ég voru rétt en hann hafði ekki komið að málinu þannig að hann gæti gert grein fyrir þessu nákvæmlega. Frá öðrum hef ég fengið ákaflega misvísandi upplýsingar en samt ljóst að fjármagn kemur að einhverju leyti frá landbúnaðarráðuneyti, en mér hefur þar bæði verið vísað á nefndir, sem enginn möguleiki virðist að finna á nefndarlista ráðuneytisins er mér fannst samt það langur að þeir gætu verið stoltir af. Aðrir aðilar hafa verið að nefna ráðherra sjálfan, sem að vísu er dýralæknismenntaður, en sýnist fráleitt að úthluti fé á þennan hátt. 
 
Ég þekki það að um langt árabil hefur það verið virt vinnulag í sambandi við útdeilingu á fé til rannsókna af opinberu fé á þessum vettvangi að rannsóknaráætlanir kæmu til umsagnar hjá Fagráði í sauðfjárrækt þar sem t.d. væri hægt að stöðva fjárveitingar til andafunda. Formaður þess hefur tjáð mér að um  þetta mál hafi Fagráðinu aldrei borist svo mikið sem einn stafur.
 
Stofnanir í landbúnaði hafa eins og  flestar aðrar opinberar stofnanir í landinu búið við ákaflega skertar fjárveitingar á síðari árum og búi við hreina sveltistefnu, ekki síst flaggskipið LBHÍ. Við slíkar aðstæður verða stofnanir eins og MAST ekki ásakaðar fyrir að sækja opinbert fé hafi því verið haldið að þeim, þó að verkefnunum hefði getað fylgt heldur meiri faglegur metnaður en að framan er fjallað um. Öllum væri fyrir bestu að þessi fjármál væru opinberuð.
 
Ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna lít ég á það sem algerlega siðlausa framkomu að deila áfram opinberu rannsóknarfé í þá endaleysu sem að framan er lýst. Ég tel að dýralæknayfirvöld innan MAST þurfi ekki langt út fyrir túnagarðinn hjá sér til að sjá margfalt brýnni verkefni, sem ekki hafa verið ofhlaðin fé síðustu misserin. Bendi ég þar á rannsóknir lungnasjúkdóma hjá sauðfé sem illu heilli eru of mikið og vaxandi vandamál. Þá hefur vofa garnaveikinnar verið of nærgöngul síðustu misserin og sýnist veruleg þörf fyrir fé til úrbóta í þeim efnum. Þannig má lengja listann mikið. Að verja peningum  í kukl eins og rætt er að framan er því í mínum huga fullkomið siðleysi og ögrun við heilbrigða skynsemi.
 
Vonandi er ljóst að í þessu máli hafa orðið ýmis hörmuleg mistök. Sumir lærðu strax af reynslunni og eiga heiður skilið vegna þess. Aðrir læra vonandi af mistökunum. Fyrir þá sem ekki geta horfst í augu við þau og viðurkennt á ég því miður engin ráð.
 
Ég tel mig vita að nær allir bændur óska þess af heilum huga að umræðu um vandræði síðasta vetrar og vors linni og kukli í þeim málum um leið. Þessi mál hef ég rætt við hundruð bænda um allt land síðastliðið sumar og í haust. Í öllum tilvikum virðast menn sammála um hvað gerðist síðasta vetur og vor, nema í örfáum tilvikum þar sem ljósar voru beinar sjúkdómsástæður sem skýrðu málin. Slík tilvik koma alltaf fyrir á einu og einu búi um allt land á hverju ári. Meginástæðan var hins vegar alltof slæmt fóður eftir erfitt heyskaparsumar og ýmsar afleiðingar þess víða um land sumarið 2014.
 
(Ástæðulaust virðist að taka fram að þessi pistill lýsir að öllu leyti eigin skoðunum en að engu leyti þeirra stofnana sem ég tengist enda kemur þar fram að þeirra hlutur er lítið til að miklast af í þessu máli.)
Fresta banni við endurnýtingu
Fréttir 21. maí 2024

Fresta banni við endurnýtingu

Bændum verður heimilt að endurnýta örmerki í sláturtíð 2024 og nota þau til 1. n...

Stjórnvaldssekt staðfest
Fréttir 20. maí 2024

Stjórnvaldssekt staðfest

Bændur á Vesturlandi telja jafnræðis ekki hafa verið gætt þegar Matvælastofnun (...

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...