Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fyrir uppskeru árið 2009 voru plönturnar yfir metri að stærð. Myndin er tekin 21. september 2009 og fyrirsætan heitir Þórkatla Júlíana Jónsdóttir.
Fyrir uppskeru árið 2009 voru plönturnar yfir metri að stærð. Myndin er tekin 21. september 2009 og fyrirsætan heitir Þórkatla Júlíana Jónsdóttir.
Mynd / Jón Hallsteinn Hallsson
Fréttir 23. júní 2017

Ræktun Inkakorns í þróun á Íslandi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Inkakorn (Chenopodium quinoa Willd.), eða kínóa, er planta af skrauthalaætt (Amaranthaceae). Hún á uppruna sinn í Andesfjöllum Suður-Ameríku þar sem hún hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem matjurt í um 6000 ár.?Inkakorn er ræktað víða um heim við fjölbreytileg skilyrði, allt frá fjallgörðum til sjávarmáls, og býr að gríðarlegum genafjölbreytileika.  
 
Uppskera getur numið allt að 4 tonnum á hektara við kjöraðstæður. Afurðir plöntunnar eru helst tvær; fræið og laufblöðin. Laufblöðin eru æt og því nýtileg sem fóður og sem salat. Fræið er einnig nýtt bæði til manneldis og sem skepnufóður. Próteinmagn þess er hátt, um 14%, og samsetningin heppileg með tilliti til lífsnauðsynlegra amínósýra. Þar við bætist að fræ inkakorns er laust við glúten. Sá eiginleiki er ekki síst ástæða mikillar eftirspurnar til inkakorns í hinum vestræna heimi á undanförnum árum. Framleiðsla hennar hefur því aukist til muna víða um heim.  
 
 
Með hliðsjón af fjölbreyttum eiginleikum og aðlögunarhæfni plöntunnar tilnefndi Alþjóðamatvælastofnunin (FAO) Inkakorn sem eina af mikilvægustu matjurtum heims til að stuðla að fæðuöryggi á næstu öldum. 
 
Fyrstu heimildir frá 1958
 
Fyrstu heimildir um ræktun Inkakorns á Íslandi eru frá 1959, en í ársriti Garðyrkjufélags Íslands segir Einar I. Siggeirsson frá ræktun Ólafs Þorgrímssonar hæstarréttarlögmanns. Árið 1958 sáði Ólafur fræjum fimm afbrigða plöntunnar sem öll voru ættuð úr Andesfjöllunum, en þau hafði hann fengið send frá landbúnaðarráðuneytinu í Perú. 
 
„Fræinu var sáð hér 25. maí og spíraði fljótt og vel. Kom það upp 6–10 dögum eftir sáningu. Það óx vel og varð 80–110 cm á hæð, þvermál stönglanna 2–12 mm, sem fór nokkuð eftir afbrigðum. Blöðin voru stór, þétt og safarík. Kornið blómstraði 26. júlí til 5. ágúst, en náði ekki alveg fullum þroska um haustið,“ segir í Garðyrkjuritinu. 
 
Starfsmenn Bændaskólans á Hvanneyri stóðu að prófunum á ræktun Inkakorns á Íslandi árið 1993. Þremur afbrigðum var sáð 4. júní en plöntur komu upp 18. júní. Nokkrar plöntur voru aldar upp í gróðurhúsi og var þeim plantað út 28. júní. Segir í tilrauna­skýrslu Bændaskólans á Hvanneyri að blómgun plöntunnar hafi verið að byrja 10. og 11. ágúst þegar mikið frost gerði í tvær nætur. Eyðilögðust þá blómvísarnir og ekkert varð úr uppskeru.  
 
Uppskorið fræ
 
Árin 2008 og 2009 framkvæmdu starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands prófanir á danskri kynbótalínu á Korpu í Reykjavík. Arfgerðin hafði gefið góða raun á norðlægari slóðum og fengust vaxtarlegar plöntur og spírandi fræ úr prófunum bæði árin. Framreiknað fræmagn uppskeru ársins 2009 samsvaraði 2,2 tonnum á hektara. Árið 2010 var fræjum frá uppskeru LbHÍ 2009 sáð á tilraunastöð skólans á Möðruvöllum í Hörgárdal en hún skilaði ekki ásættanlegri uppskeru.   
 
 
Vitað er um tvo garðyrkjumenn sem hafa prófað að rækta Inkakorn í heimagörðum sínum á undanförnum árum. Jón Guðmundsson, garðyrkjufræðingur á Akranesi, sáði tveimur yrkjum, sem hann keypti frá Bretlandi, í aprílmánuði árið 2014. Plönturnar spíruðu inni en voru síðan færðar út í kalt en frostfrítt gróðurhús. Um tíu plöntum var síðan plantað út í matjurtagarð í byrjun júní, og að sögn Jóns urðu þær um 80 cm að hæð. Um haustið uppskar hann nokkra tugi gramma af Inkakorni.  
 
Þá sáði Tómas A. Ponzi kólumbísku fræi í óupphitað gróðurhús í Mosfellsdal árið 2016.
„Plantan varð um 2 metrar á hæð með mikið af blómum sem aldrei náðu að blómstra þegar komið var fram á haust og rakinn tók völdin,“ segir Tómas. 
 
Áframhaldandi prófanir í sumar
 
Þó prófanir á inkakorni hérlendis hafi ekki verið miklar má þó draga einhvern lærdóm af þeim. Þær prófanir sem farið hafa fram hér á landi sýna að velja þarf þær arfgerðir sem aðlagaðar eru tempruðu loftslagi til þess að ná fram spíruðu fræi við lok vaxtartíma, sem er um 100 dagar. Lengd vaxtartíma hefur í sumum tilfellum komið í veg fyrir þroskun fræja en veðurskilyrði hérlendis hafa þó vænkast og mögulegur ræktunartími hefur lengst í báða enda. 
 
 
Í sumar stendur Landbúnaðar­háskóli Íslands, með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Framleiðnisjóði landbúnaðarins, fyrir áframhaldandi prófunum á þessari spennandi matjurt. Markmiðið með verkefninu er að þróa leiðir til ræktunar á Inkakorni á norðurslóðum, varpa ljósi á erfðafræðilega þætti aðlögunar og leggja þannig grunn að frekari kynbótum, ræktun og framleiðslu hérlendis og á sömu breiddargráðum erlendis.   
 
Hægt er að fylgjast með framgangi rannsóknarinnar á Facebook-síðu jarðræktarannsókna LbHÍ: facebook.com/Akuryrkja.
Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir
Fréttir 18. janúar 2022

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir

Gengið var frá kaupsamningi undir lok síðasta árs um jörðina Kálfaströnd (Kálfas...

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins
Fréttir 18. janúar 2022

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins

Það hefur vakið athygli að Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, h...

Áburðareftirlit Mast árið 2021
Fréttir 18. janúar 2022

Áburðareftirlit Mast árið 2021

Á árinu 2021 fluttu 24 fyrirtæki inn áburð og jarðvegsbætandi efni alls 368 tegu...

Endurnýja starfsleyfi Ísteka
Fréttir 18. janúar 2022

Endurnýja starfsleyfi Ísteka

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á starfsleyfi Ísteka ehf. Í star...

Stórátak í riðuarfgerðagreiningum
Fréttir 18. janúar 2022

Stórátak í riðuarfgerðagreiningum

Mikil gerjun hefur átt sér stað á síðustu misserum í málum tengdum rannsóknum á ...

Mikil aukning í ræktun á vínviði og vínframleiðslu
Fréttir 18. janúar 2022

Mikil aukning í ræktun á vínviði og vínframleiðslu

Ræktun á vínviði og vínframleiðsla á Bretlandseyjum hefur aukist mikið undanfari...

Stjórnlaus skógareyðing
Fréttir 17. janúar 2022

Stjórnlaus skógareyðing

Þrátt fyrir allt tal stjórnvalda í Brasilíu um verndun skóga sýna loftmyndir að ...

Viðurkennd verndandi arfgerð gegn riðu finnst í sex einstaklingum
Fréttir 17. janúar 2022

Viðurkennd verndandi arfgerð gegn riðu finnst í sex einstaklingum

Sex einstaklingar fundust fyrir skemmstu með tiltekna verndandi arfgerð (ARR) ge...