Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Heimsókn í Skaftholt þar sem lífræn ræktun var skoðuð. Gunnþór Kristján Guðfinnsson og Guðfinnur Jakobsson frá Skaftholti, dr. Pius Floris frá Plant Health Cure, Jóhann Ísleifsson og  Sigríður Eiðsdóttir frá Vege ehf.
Heimsókn í Skaftholt þar sem lífræn ræktun var skoðuð. Gunnþór Kristján Guðfinnsson og Guðfinnur Jakobsson frá Skaftholti, dr. Pius Floris frá Plant Health Cure, Jóhann Ísleifsson og Sigríður Eiðsdóttir frá Vege ehf.
Skoðun 30. júlí 2018

Ræktum jarðveginn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jarðvegsvinur og Plöntunærir eru ný gerð af lífrænt vottuðum áburði og jarðvegsbæti á markaði hér á landi sem ætlað er að örva starfsemi jarðvegslífvera, bæta heilsu jarðvegsins og auka vöxt og uppskeru plantna.

„Undirstaða þess að hægt sé að stunda lífræna ræktun er að jarðvegurinn sem notaður er til ræktunarinnar sé lifandi og heilbrigður,“ segir doktor Pius Floris, sérfræðingur í lífrænni ræktun.

Floris var staddur hér á landi fyrir skömmu til að kynna lífrænan áburð og jarðvegsbæti sem hann framleiðir undir heitinu Plant Health Cure. Með Floris í för var Hjörtur Grétarsson, einn eigenda Vege ehf., sem flytur inn vörur frá PHC og markaðssetur undir heitunum Plöntunærir og Jarðvegsvinur sem er lífrænt vottaður áburður og jarðvegsbætir.

Uppskera í Evrópu fer minnkandi

Hjörtur segir að samstarf Vege ehf. og Floris hafi staðið í fimm ár og að tilgangur þess hafi verið að finna jarðvegsbætandi efni sem hægt væri að nota til lífrænnar ræktunar og framleiðslu hér á landi. „Þekking og reynsla dr. Floris og fyrirtækis hans, Plant Healt Cure, er mikilvæg fyrir okkur á Íslandi. Það er gott að byggja á áratuga reynslu rannsókna og þróunar á lífrænni ræktun sem hefur miðað að því að auka framleiðslu, heilbrigði plantna og hafa jafnframt jákvæð áhrif á umhverfið.“

Floris segir að landbúnaður í dag standi frami fyrir mörgum og sífjölgandi vandamálum. „Uppskera við hefðbundinn landbúnað fer víða minnkandi og á öðrum stöðum í Evrópu stendur hún í stað og það hlýtur að vera vísbending um að það sé ekki allt í lagi. Þessu er öfugt farið þar sem er lögð stund á lífrænan landbúnað þar sem uppskera hefur verið að aukast.“

Ástæða samdráttar í uppskeru, að sögn Floris, er sú að í tæpa öld hafi menn notað tilbúinn áburð og önnur efni til að ná hámarks uppskeru. „Þetta hefur gengið eftir en nú er komið að skuldadögunum og kolefnið í jarðveginum að mestu uppurið. Slíkt á ekki síst við í jarðvegi sem inniheldur mikið af steinefnum og lítið af lífrænum efnum eins og víða er á Íslandi.

Ég sé því fyrir mér að Íslendingar eigi að leggja meiri áherslu á að auka magn lífrænna efna í jarðvegi frekar en steinefna þar sem lífið í jarðveginum skiptir í raun meira máli en steinefnainnihald hans til langs tíma.

Ókostur þess er að þegar jarðvegur er efnagreindur að það fást einungis upplýsingar um steinefnainnihald hans en engar upplýsingar um innihald lífrænna efna í honum.“

Heilbrigði jarðvegs undirstaða góðrar uppskeru

Floris segir að með því að stuðla að heilbrigði jarðvegs verði plönturnar hraustari og uppskeran bæði meiri og betri. „Plant Health Cure framleiðir jarðvegsbæti úr pressuðu vínberjahrati sem breytt er í lífrænan jarðveg. Ferlið tekur níu mánuði og eftir það má dreifa bætinum yfir jarðveginn til að auka heilbrigði hans,“ segir Floris. Slagorð Plant Health Cure er Við ræktum jarðveg.

Lifandi Jarðvegsvinur

Hjörtur segir að jarðvegsbætirinn sem Vege ehf. flytur inn kallist annars vegar Jarðvegsvinur og sé ætlaður til að rækta örverugróður í jarðveginum eins og til dæmis svepparætur og um leið að stuðla að auknu heilbrigði hans. Hins vegar er það Plöntunæririnn sem ætlaður er til að auka plöntuvöxt og uppskeru.

„Jarðvegsvinurinn er ótrúlega fljótvirkur og getur aukið lífið í jarðveginum og um leið gæði hans á tveimur til þremur árum. Rannsóknir sýna einnig að jarðvegur sem meðhöndlaður er með Jarðvegsvininum helst betur á næringarefnum.

Ég sé því fyrir mér að efnið geti reynst vel þar sem hætta er á að næringarefni leki út í vatnsból eða vötn eins og til dæmis Mývatn og annars staðar þar sem vatnskerfi eru í hættu vegna mengunar af völdum tilbúins áburðar,“ segir Hjörtur.

Floris segir að Jarðvegsvinurinn hafi það fram yfir annan lífrænan áburð að í honum sé auk steinefna lífræn efni eins og fólinsýrur og önnur lífræn sambönd.

„Til þess að jarðvegur teljist heilbrigður verður C/N, kolefnis og köfnunarefnishlutfall hans, að vera í jafnvægi. En með því að ausa köfnunarefni eða nitri í jarðveginn, eins og hefur verið gert undanfarna áratugi til að auka uppskeruna, hefur þessu jafnvægi verið riðlað. Mikil notkun á tilbúnum áburði dregur úr starfsemi jarðvegalífvera auk þess sem þeim fækkar. Jarðvegur þolir ekki þess konar meðferð nema í takmarkaðan tíma og að lokum tapast næringarefnin og fram kemur jarðvegsþreyta og jarðvegshrun.“

Mikil möguleikar á notkun

„Framleiðsla PHC er mikið notuð af þeim sem stunda lífræna ræktun í Evrópu og tel ég að framleiðslan ætti að geta nýst hér á landi líka. Bæði fyrir þá sem leggja stund á lífræna ræktun og í hefðbundnum landbúnaði þar sem bændur vilja stuðla að auknu heilbrigði jarðvegsins. Jarðvegsvinurinn og Plöntunæririnn henta reyndar við hvaða ræktun sem er, hvort sem það er fyrir pottaplöntur í stofuglugga, heimilismatjurtagarðinn, garðyrkju, landbúnað eða  golf- og íþróttavelli,“ segir Hjörtur. 

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...