Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ráðherra rökstyður endurskoðun á samráðshópi um búvörusamninga
Fréttir 16. febrúar 2017

Ráðherra rökstyður endurskoðun á samráðshópi um búvörusamninga

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bændasamtökin sendu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra bréf 1. febrúar síðastliðinn þar sem farið er fram á rökstuðning fyrir breyttri skipan í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.

Í bréfi BÍ kemur fram að samtökin telji að lagalega hafi verið staðið rétt að fyrri nefndarskipan og að hún hafi verið í samræmi við nefndarálit Alþingis og þá samninga ríkis og bænda sem áður voru samþykktir.

Í ljósi þess að tilgreint var í lögum um skipan nefndarinnar settu Bændasamtökin fram spurningar varðandi breytingarnar á nefndinni, sem þau óska svara við, í fjórum liðum sjá hér.

Svar ráðherra

Landbúnaðarráðherra hefur sent Bændasamtökunum eftirfarandi svar við athugasemdum BÍ um skipun samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga.

Vísað er til bréfs yðar dags. 1. febrúar 2017 þar sem óskað er eftir skýringum ráðherra á þeim breytingum sem gerðar voru á skipun samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Skýringar og rökstuðning má finna undir viðeigandi töluliðum í samræmi við erindi yðar.

I.
Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga var fyrst skipaður þann 17. nóvember 2016. Við undirbúning við skipun nefndarinnar var óskað tilnefninga aðila í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við búvörulög nr. 99/1993. Tilnefningar sem ráðuneytinu bárust uppfylltu í nokkrum tilvikum ekki óskir ráðuneytisins, þar sem m.a. var óskað að tilteknir aðilar tilnefndu saman fulltrúa í nefndina og þá gættu ekki allir tilnefningaraðilar að 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008. Með vísan til þess ákvað því þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa tiltekna fulltrúa án tilnefningar í hópinn en við val á þeim fulltrúum var tekið mið af þeim skilyrðum sem ákvæði til bráðabirgða í búvörulögum mælti fyrir um. Var því upphafleg skipun samráðshópsins í samræmi við lög.

Ráðherraskipti urðu þann 11. janúar 2017 og tók þá til starfa ný ríkisstjórn sem starfar samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Í stefnuyfirlýsingunni er að finna tilteknar áherslur og markmið sem urðu til þess að núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók ákvörðun um að breyta skipun þeirra fulltrúa sem skipaðir voru af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra án tilnefningar.

Í stefnuyfirlýsingunni segir m.a.: „Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Jafnframt verði horft til samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi vegna legu landsins, veðurfars og takmarkaðra landgæða. Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda.“

Að mati ráðherra vantaði í samráðshópinn sjónarmið sem vörðuðu m.a. hagsmuni og valfrelsi neytenda, umhverfi, loftlagsmál og atvinnulíf. Með vísan til álits meirihluta atvinnuveganefndar frá 29. ágúst 2016 benti nefndin á að breiðari samstöðu væri þörf um starfsskilyrði í landbúnaði og nauðsynlegt að fleiri aðilar hefðu tækifæri til að koma að þróun landbúnaðarstefnunnar. Meðal þeirra úrlausnarefna sem nefndin lagði til að liggja ættu til grundvallar stefnumótunarinnar voru loftlags- og umhverfismál, svo sem minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði, áætlun um endurheimt votlendis, sívirkt rannsóknar-, mats-, og vöktunarkerfi með ástandi og þróun gróðurauðlinda, skógrækt, uppgræðsla lands og umhverfisráðgjöf til bænda. Þá var einnig meðal úrlausnarefna sem meirihluti nefndarinnar bendir á, upplýsingagjöf til neytenda, þar sem brýnt er að neytendur fái skýrar og réttar upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem boðin eru til sölu. Tryggt verði að neytendur hafi upplýsingar um innihald, framleiðsluhætti og uppruna matvæla og geti með góðu móti borið vörur saman. Þá benti meirihluti nefndarinnar einnig á heimildir ráðherra til að takmarka eða banna innflutning og dreifingu dýraafurða sem framleiddar eru í andstöðu við lög um velferð dýra.

Með vísan til framangreinds var ákvörðun um breytingu á skipun tiltekinna fulltrúa í nefndina tekin. Ekki er óeðlilegt að nýr ráðherra í embætti leggi á það sjálfstætt mat hvort t.d. skipanir nefnda séu í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar eða áherslur ráðherra til þess málefnasviðs sem hann fer með. Enda ber ráðherra lagalega ábyrgð á fyrirmælum stjórnsýslunnar. Að mati ráðherra var með ákvörðun um breytingu á skipun samráðshópsins ekki verið að hnekkja skipun fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í heild sinni enda eins og rakið er hér að framan var hópurinn að mati ráðherra upphaflega skipaður í samræmi við ákvæði til bráðabirgða við búvörulög.

II.
Í bráðabirgðaákvæði við búvörulög segir: Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019. Skulu bændur eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga.

Félag atvinnurekenda á ekki aðild að Samtökum atvinnulífsins og gætir félagið hagsmuna ýmissa fyrirtækja í atvinnulífinu sem standa utan þeirra samtaka. Svo tryggð sé fullnægjandi aðkoma atvinnulífsins að samráðshópnum samkvæmt bráðabrigðaákvæði við búvörulög var að mati ráðherra nauðsynlegt að félagið fengi skipaðan fulltrúa í nefndina. Þá er einnig rétt að benda á að Félag atvinnurekenda hefur lögbundið hlutverk samkvæmt ákvæðum búvörulaga ásamt Bændasamtökum Íslands, Neytendasamtökum og Samtökum verslunar og þjónustu, en framangreindir aðilar eiga allir sinn fulltrúa í samráðshópnum. Til að gæta jafnræðis og í samræmi við framangreind markmið meiriluta atvinnuveganefndar var fulltrúi Félags atvinnurekenda skipaður í hópinn. Einnig er rétt að benda á að aðrir aðilar sem nefndir eru í erindi yðar, þ.e. samtök í ferðaþjónustu, Landvernd, samtök heimavinnsluaðila eða samtök lífrænna framleiðenda og neytenda, eiga sinn fulltrúa í samráðshópnum í gegnum tiltekin hagsmunafélög eða tiltekna einstaklinga sem skipaðir hafa verið í hópinn.

III.
Við gerð búvörusamninga og við meðferð þeirra fyrir Alþingi á árinu 2016 var ítrekað bent á að ekki hafi verið tryggt nægjanlegt samráð og samtal um búvörusamninga við hina ýmsu hagsmunaaðila. Með því að skipa samráðshópinn og breyta skipun hans að hluta telur ráðherra að brugðist hafi verið við þeirri gagnrýni og tryggt sé með fullnægjandi hætti að sjónarmið sem flestra komi að endurskoðun samninganna. Þannig verði tryggt gott samráð og samtal hagsmunaaðila um búvörusamninga. Með því móti náist betri sátt um þá stefnu sem kveðið verði á um í búvörusamningunum að endurskoðun þeirra lokinni. Það er von ráðherra að slík sáttaniðurstaða frá svo breiðum hópi hagsmunaaðila sé líkleg til árangurs í atkvæðagreiðslu meðal bænda.

IV.
Þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á skipun samráðshópsins þá gilda búvörusamningar sem undirritaðir voru 19. febrúar 2016 og tóku gildi 1. janúar sl. enda hafa samningarnir hlotið staðfestingu Alþings með lögum nr. 102/2016 um breytingu á búvörulögum og fleira. Hlutverk samráðshópsins er afmarkað í tilteknum ákvæðum búvörusamninganna og halda þau ákvæði gildi sínu líkt og samningarnir sjálfir. Verði niðurstaða samráðshópsins á þá leið að ráðast þurfi í tilteknar breytingar á  ákvæðum búvörusamninga fer slík tillaga til umfjöllunar samninganefndar ríkisins og Bændasamtaka Íslands skv. 30. gr. búvörulaga og slíkt samkomulag þarf ávallt staðfestingu Alþingis til að hljóta gildi. Ráðherra getur þannig ekki einhliða breytt búvörusamningum án aðkomu samningsaðila og Alþingis.

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...