Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Blóm passíuplöntunnar eru stór, 4 til 8 sentímetrar í þvermál, áberandi og flókin með 10 hvítum eða bláhvítum krónublöðum og 72 hvítum og bláum þráðum á rauðum blómbotni.
Blóm passíuplöntunnar eru stór, 4 til 8 sentímetrar í þvermál, áberandi og flókin með 10 hvítum eða bláhvítum krónublöðum og 72 hvítum og bláum þráðum á rauðum blómbotni.
Á faglegum nótum 26. júlí 2019

Passíublóm og pína Krists

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kristin táknfræði blóma passíu- eða píslarplantna er myndræn og stendur fyrir pínu Krists. Aldin plöntunnar er bragðgott og aldinkjötið mikið notað í safa. Tvö megin afbrigði plöntunnar eru í ræktun, Passiflora edulis f. edulis, sem gefur af sér rauðblá aldin og P. edulis f. flavicarpa sem ber gul og stærri aldin.

Áætluð heimsframleiðsla passíualdina í heiminum um þessar mundir er um 800 þúsund tonn. Lönd í Suður-Ameríku er stærstu framleiðendurnir.

Áætluð heimsframleiðsla passíualdina í heiminum um þessar mundir er um 800 þúsund tonn. Lönd í Suður-Ameríku eru stærstu framleiðendurnir. Af þeim fram­leiðir Brasilía um 530 þúsund tonn eða um 66% heims­framleiðslunnar, Ekvador og Kólumbía fylgja næst með tæplega 90 þúsund tonna ársframleiðslu. Kína er stærsti ræktandi passíualdins í Asíu en þar á eftir koma Taíland, Víetnam og Malasía. Auk þess sem talsvert er ræktað af aldininu í Kenía, Suður-Afríku, Simbabve og Ástralíu.

Frá Suður-Ameríku er mest flutt út af passíualdinum frá Ekvador, Kólumbíu og Perú þar sem stærsta hluta ræktunarinnar í Brasilíu er neytt innanlands.

Bandaríkin Norður-Ameríka og Evrópusambandið eru stærstu innflytjendur passíualdina í heimi og flytja inn mest frá löndunum í Suður-Ameríku og frá Suður-Afríku.

Ekki fundust upplýsingar um innflutning á passíualdinum til Íslands, hvorki fersk né í safaformi, á vef Hagstofu Íslands.

Ættkvíslin Passiflora og tegundin edulis

Um 500 tegundir blómstrandi plantna teljast til ættkvíslarinnar Passiflora og eru þær flestar upprunnar í Mið- og Suður-Ameríku. Auk þess sem fulltrúa ættkvíslarinnar er að finna í Suðurríkjum Bandaríkjanna Norður-Ameríku, Suðaustur-Asíu og Eyjaálfunni. Ný tegund, P. xishuangbannaensis, var greind í Kína árið 2005.

Flestar eru klifurplöntur en einnig teljast nokkrir runnar og tré til ættkvíslarinnar. Nokkrar tegundir innan ættkvíslarinnar eru ræktaðar til matar eða sem skrautjurtir. P. caerulea sem ræktuð er sem skrautjurt í löndunum við Miðjarðarhafið hefur náð góðri rótfestu á Spáni og vex þar eins og innfædd.

Passíublóm eru klifurplöntur með stakstæðum þriggja flipa blöðum.

Tegundin P. edulis sem gefur af sé passíualdin er sígræn klifurjurt sem finnst villt í suðurhluta Brasilíu, í Paragvæ og norðurhluta Argentínu. Auk þess sem tegundin hefur breiðst út frá ræktun víða í hitabeltinu.

Upp af trefjarót vex stöngull sem getur orðið allt að 15 metra langur í náttúrunni en er styttri í ræktun og notar plantan fálmara til að klifra með. Stöngullinn trénar með aldrinum. Blöðin á stilk, stakstæð 8 til 20 sentímetra löng. Ung blöð eru rauðleit en verða dökkgræn og gljáandi á efra borði en ljósari á neðra borði, með þremur stórum flipum og smátennt.

Blómin eru stór, 4 til 8 sentímetrar í þvermál, áberandi og flókin með 10 hvítum eða bláhvítum krónublöðum og 72 hvítum og bláum þráðum á rauðum blómbotni. Blómið er með fimm frævla og þrjár frævur sem standa á stilk sem er fjólublár neðan til en verður grænn með fjólubláum dröfnum er ofar dregur. Blómin eru sjálffrjóvgandi og í náttúrunni fer frjóvgun fram með hjálp skordýra en í ræktun getur reynst nauðsynlegt að frjóvga blómin með höndum.

Aldinið sem telst vera ber er hnatt- eða egglaga, um 5 sentímetrar í þvermál, rauðblá eða gul eftir afbrigðum og með þykka húð. Að innan er aldinið mjúkt og með um 250 fræjum sem hvert um sig er um 2,4 millimetrar að lengd og umlukið safaríkri húð.

Tvö megin afbrigði af P. edulis eru í ræktun, P. edulis f. edulis, sem gefur af sér rauðblá aldin og P. edulis f. flavicarpa sem ber gul og stærri aldin. Auk þess sem til er fjöldi yrkja af báðum afbrigðum. Blá aldin eru að jafnaði 35 grömm að þyngd en þau gulu 80 grömm og ræktun þeirra mun meiri en þeirra rauðbláu.

Tvö megin afbrigði af P. edulis eru í ræktun, P. edulis f. edulis, sem gefur af sér rauðblá aldin og P. edulis f. flavicarpa sem ber gul og stærri aldin.

Útbreiðsla og saga

Vitað er að passíualdin voru ræktuð af innfæddum í Mið- og Suður-Ameríku í þúsundir ára áður en að Evrópumenn sigldu yfir Atlantshafsála til álfunnar. Lítið er aftur á móti vitað um hvernig passíualdin barst út um heiminn annað en að Spánverjar fluttu það með sér til Evrópu eftir að Kólumbus fann Nýja heiminn.

Fyrstu heimildir um passíualdin eru frá 1553 og skráð af spænska landvinningamanninum Cieza de Leon sem fór um Perú. Spænski læknirinn og grasafræðingurinn Nivolas Monarder skrifaði nákvæma lýsingu á plöntunni um 1570 og segir að hún vaxi víða í Suður-Ameríku þrátt fyrir að hann hafi aldrei komið þangað. Monarder mun hafa verið fysti maðurinn sem kenndi plöntuna við þjáningar Krists.

Snemma á nítjándu öld var ræktun aldinsins hafin í Ástralíu, í Suður-Afríku, á Indlandi og í Ísrael svo dæmi séu tekin.

Vitað er að plantan barst til Havaíeyja 1880 og varð fljótlega vinsæl sem skrautplanta í görðum þar sem hún barst út í náttúruna og dafnar vel. Árið 1955 var ákveðið að hefja stórræktun á passíualdinum á Havaí og þremur árum seinna var plantan ræktuð á tæpum 500 hekturum víðs vegar um eyjarnar. Ræktunin stóð ekki undir væntingum þar sem vírussýkingar herjuðu á plönturnar og ræktun hennar hrundi. Í dag er mikið magn af passíualdinssafa flutt inn til Havaíeyja og eyjaskeggjar sagðir neyta hans manna mest í heiminum.

Passíublóm nutu mikilla vinsælda sem skrautblóm á Bretlandseyjum í tíð Viktoríu drottningar á nítjándu öld en það dró úr vinsældum plöntunnar þegar kom fram á tuttugustu öldina. Fyrsta ræktunarafbrigði passíuplöntunnar var kynnt á Bretlandseyjum árið 1820 og hlaut heitið P. x violacea.

Nafnaspeki

Ættkvíslarheitið Passiflora kemur úr latínu passio eða passus og þýðir pína og flora eða flor eða flos sem þýðir blóm. Uppruni tegundarheitisins edulis þýðir að plantan sé æt. Þýðing afbrigðaheitisins flavicarpa er flavi á latínu sem þýðir gult eða gullið og carpo á gríski sem þýðir aldin.

Upprunalega munu það hafa verið spænskir kaþólikkar og trúboðar í Suður-Ameríku á sextándu öld sem gáfu plöntunni heitið flor das cinco chagas eða blóm hinna fimm sára. Munu þeir þar hafa verið að vísa til pínu Krists eða sáranna fimm á líkama hans.

Heitið flor das cinco chagas, eða blóm hinna fimm sára, vísa til pínu Krists eða sáranna á líkama hans. / Mynd The Passion of the Christ.

Þegar rómverski presturinn og kirkjusagnfræðingurinn Gaiacomo Bosio var að skoða myndir af og þurrkuð eintök af passíublómum árið 1609 útfærði hann þá hugmynd enn frekar að nota plöntuna sem líkingu við pínu Krists og auka þannig skilning innfæddra í Suður-Ameríku á kristindómnum. Samkvæmt Bosio tákna þræðirnir í blóminu þyrnikórónu Krists og krónublöðin hina tíu dyggu lærisveina, Júdas og Páll eru ekki með. Frævurnar þrjár standa fyrir naglana þrjá og frævlanir fimm sárin sem Kristur hlaut. Klifurfálmarar plöntunnar svipuhöggin og blómskálinn hinn heilaga kaleik. Seinna var svo bætt við að himinblár litur í krónublöðunum vísar til skikkju Maríu meyjar.

Samkvæmt Bosio var lögun passíublómsins óræk sönnun þess að dýrð Guðs væri einnig á finna í Nýja heiminum og nauðsynlegt að snúa innfæddum til hins eina sanna Guðs hvað sem það kostaði. Reyndar er rétt að geta þess að kirkjunnar menn fóru fram á að komið væri fram við innfædda eins og menn sem ættu rétt á að kynnast náð Guðs. Það voru landvinningamenn og herir þeirra sem drápu þá minskunnarlaust í græðgisofsa sínum í leit að auði.

Svíinn Carl von Linnaeus breytti heitinu á Flos passionis í Passiflora upp á latínu árið 1745.

Á ensku kallast aldinið golden passion fruit, passion fruit, passionfruit eða purple passion fruit, á hollensku passiebloem eða passievrucht, á spænsku maracuyá, frönsku fruits de la passion, grenadille og maracuja, á þýsku maracuja og passionsfrucht en á ítölsku frutto della passione, maracuia og maracuja. Á finnsku kallast aldinið passion hedelmä en dönsku passononfrugt.

Á króatísku kallast blóm passíuplöntunnar Isusova kruna eða kóróna Krists. Japanir líta öðruvísi á blómið og kalla það klukkublóm vegna þess að þeir segja það líkjast klukku.

Fyrst eftir að aldinið barst til Íslands var það kallað ástaraldin eða ástríðualdin og mun það heitið tengjast enska orðinu passion sem stendur fyrir sterkar tilfinningar eins og ást. Ekki svo slæmt heiti í sjálfu sér en samt öfugsnúið þar sem latínuheitið tengist ekki á neinn hátt ást eða ástarhvetjandi áhrifum heldur pínu og þjáningu. Einnig þekkist heitið píslarblóm á íslensku.

Passíualdin í málaralist

Á frægu málverki hollenska endur­reisnarmálarans Joos van Cleve sem uppi var í lok fimmtándu og upphafi sextándu aldar má sjá Maríu sitja undir Jesúbarninu. Á myndinni, sem var máluð á árunum 1530 til 1535, heldu María annarri hendinni um barnið en í hinni heldur hún á blómi.

Á málverki Joos van Cleve sem uppi var í lok fimmtándu og upphafi sextándu aldar má sjá Maríu sitja undir Jesúbarninu og halda á sékennilegu blómi. 

Blómið í hendi Maríu olli mönnum lengi vel vandræðum og erfitt þótti að skýra hvernig guðsmóðirin gæti haldið á blómi sem málarinn hefði aldrei séð og ólíklega heyrt um. Blómið sem um ræðir sprettur upp úr miðjunni á rauðri nelliku og líkist passíublómi.

Seinni tíma rannsóknir á mál­verkinu sýna að það var lagað um það bil 100 árum eftir að það var málað og er líklegast talið að sá sem sá um lagfæringuna hafi málað passíublómið inn á málverkið til að auka á kristilega táknmynd þess.

Samkvæmt kristinni táknfræði blóma stendur rauð nellikan fyrir sanna trú og tár Maríu við krossinn en passíublómið pínu Krists við krossfestinguna.

Fyrsta þekkta evrópska mál­verkið sem sýnir passíublóm er frá 1625 og málað af Jesúítanum Daniel Seghers. Á myndinni sést passíublóm meðal annarra blóma í blómsveig sem umkringir engla.

Af þessu má sjá hversu nauðsynleg þekking í grasafræði og táknfræði blóma er til að auka lærdóm og skilning á trúarbragða- og listasögu.

Ræktun

Afbrigði sem bera gul aldin eru hitakærari en þau sem gefa af sér blá. Gul aldin eru því mest ræktuð í löndum í hitabeltinu en þau bláu í löndum heittempraða beltisins.Lágmarks hiti í ræktun 16° á Celsíus. Plöntunum líður best í frjósömum og sandblendnum moldarjarðvegi en þrífast í margs konar jarðvegi.

Vaxtarhraði plöntunnar í ræktun er mikil, fjórir til sex metrar á ári, og því þarf hún öflugan og góðan stuðning. Hæfilegt bil milli plantna er tveir til fimm metrar eftir aðstæðum.

Passíualdin á akri.

Almennt eru passíualdinplöntur ræktaðar af fræi en einnig er hægt að fjölga þeim með trjákenndum græðlingum, með þremur til fjórum brumum, og með ágræðslu. Aldinþroski er 70 til 80 dagar eftir frjóvgun og falla aldinin af þegar þau hafa náð fullum þroska.

Líkt og í annarri ræktun herjar fjöldi meindýra, sveppa, baktería og vírusa á passíualdinakra og ýmiss konar efnahernaði beitt til að draga úr uppskerutapi af þeirra völdum.

Næringargildi og nytjar

Passíualdin er 73% vatn, 22% kolvetni, 2% prótein og 0,7% fita. Í 100 grömmum af aldininu eru um 36% af ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni, 42% af trefjum og um 11% af B-vítamíni. Auk þess sem aldinið er ríkt af járni.

Aldinanna er neytt ferskra eða þau eru pressuð í safa sem vegna súrs bragðs er oftast blandað við annars konar ávaxtasafa. Ferskt aldinið er bragðgott og sterkt og aðeins súrt á bragðið.

Sagt er að aldinkjötið, laufið og blómin hafi róandi áhrif séu þau drukkin sem te. Aldinið er leysandi og gott við hægðatregðu og í Brasilíu er það sagt gott við bronkítis og astma. Úr fræjunum má vinna olíu til matargerðar og sem bindiefni fyrir liti.

Best er að neyta passíualdina eftir að húðin á því er orðin hrukkótt.

Aldinkjötið er víða notað með ís og annars konar desert. Í Suður-Afríku er það blandað með mjólk eða í áfenga drykki. Indverjar eru hrifnir af passíualdinum með sykri en í Mexíkó er stráð chili og lime kreist yfir aldinkjötið.

Passíublóm hefur í seinni tíð orðið að tákni um samkynhneigð meðal ungra Japana.

Passíualdin á Íslandi

Fyrsta umfjöllun hér á landi þar sem minnst er á passíu- eða öllu heldur ástaraldin að einhverju ráði var í Morgunblaðinu í nóvember 1990. Þar segir „ástaraldin (passion fruit) eru upprunnin í Brasilíu. Börkurinn verður harður og hrukkóttur þegar ávöxturinn er fullþroska. Mikið er af fræjum í þessum ávexti en þau eru borðuð ásamt kjötinu. Þegar ástaraldin er borðað hrátt er það skorið í tvennt og borðað með skeið. Þetta þykir einn sætasti og mest ilmandi allra suðrænna ávaxta enda er hann oft notaður sem bragðefni í eftirrétti eða í drykkjarblöndur ýmiss konar.“

Í sama blaði tveimur árum seinna birtir Gísli Jónsson í þætti sínum Íslenskt mál, númer 647, bréf frá Axel Sigurðarsyni þar sem segir meðal annars: „Hin seinni ár hefir mjög aukist flutningur til Íslands á framandi ávöxtum úr ýmsum heimshornum og ekki eiga þeir sér íslenskt heiti, sem von er. Á þessu sviði er þó sem innflytjendur og verslanir hafi sett metnað sinn í að finna á þá íslensk nöfn, sem sjá má á spjaldmerkingum og í kynningarbæklingum.

Ein er sú nafngift, sem fljótt komst í umferð og virtist falla fólki vel í geð, enda nafnið fallegt og höfðar til hinna háleitari tilfinninga. Þetta er nafnið ástaraldin sem á ensku heitir passion fruit.

Þó gremst mér ákaflega í hvert sinn er ég sé eða heyri þetta fallega nafn nefnt, vegna þess að það er byggt á vanþekkingu, bæði á enskri tungu og þeirri sögu, sem á bakvið liggur. Á ensku hefir orðið passion fleiri en eina merkingu. Ein þeirra á við píslarsögu Krists og þjáningar Hans á krossinum. Vanþekkingin felst í að vita ekki að ávöxturinn vex á klifurjurt, af ætt, sem grasafræðingar nefna Passifloraceae. Margar þeirra blómstra fallegum blómum (flores passionis), sem í orðabók Menningarsjóðs eru kölluð píslarblóm eða passíublóm.“

Tilefni bréfsins segir Axel vera að lagt hafi verið til að nefna aldinið brímaber sem hann telur vera enn vitlausara heiti en ástaraldin. 

Te sem búið er til úr safa passíualdins er sagt róandi.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...