Orkugerðin gefur bændum 100 tonn af kjötmjöli til áburðarnota
Í tilkynningu frá Orkugerðinni ehf. kemur fram að stjórn hennar hafi ákveðið að gefa bændum samtals 100 tonn af kjötmjöli til áburðarnota í kynningarskyni. Nota verður kjötmjölið fyrir 1. nóvember.
Tilkynningin frá Orkugerðinni er svohljóðandi:
„Orkugerðin ehf. rekur verksmiðju í Flóanum sem tekur við lífrænum afurðum og framleiðir úr þeim fitu og kjötmjöl. Með þessum hætti eru sköpuð verðmæti úr afurðum sem ella þyrfti að urða með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á umhverfið.
Fitan er notuð til að kynda verksmiðjuna auk þess sem hluti hennar er seldur til lífdiesel framleiðslu.
Kjötmjölið er selt sem áburðarmjöl til uppgræðslu og sem áburður. Kjötmjöl hefur reynst ákaflega vel sem áburður í þeim tilfellum sem hæg losun áburðarefna er æskileg. Þetta gildir um landgræðslu, skógrækt, golfvelli og endurvinnslu túna.
Strangar reglur gilda um notkun á kjötmjöli. Það má aðeins nota á lönd sem nota á til fóðurgerðar ef notkunin er fyrir 1. nóvember ár hvert og landið skal friðað fyrir beit til 1. apríl á eftir. Kaupendur verða að undirrita skuldbindingu um að fylgja þessum reglum. Mjölið skal geymt þannig að ekki sé hætta á að skepnur komist í það.
Í mjölið er blandað áburðarkalki til að það nýtist ekki sem fóður.
Til að kynna kjötmjöl til áburðarnotkunar hefur stjórn Orkugerðarinnar ákveðið að gefa bændum samtals 100 tonn af kjötmjöli til notkunar samkvæmt þessum skilmálum. Mjölið verður afhent við dyr verksmiðju á næstu vikum og er hámarksmagn 10 tonn á hvern aðila.
Eigendur Orkugerðarinnar eru Sláturfélag Suðurlands, Sláturhúsið á Hellu, Reykjagarður, Sorpstöð Suðurlands og Ísfugl.“