Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sæðingahrúturinn Ylur.
Sæðingahrúturinn Ylur.
Á faglegum nótum 16. september 2015

Orð um hluta sæðinga í sauðfjárræktarstarfinu

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Það munu flestir sem til mála þekkja viðurkenna að á síðustu áratugum hafa orðið heilmiklar framfarir í sauðfjárbúskapnum sem er árangur margra áratuga ræktunarstarfs í greininni. Þennan árangur má rekja til fjölmargra þátta sem tekist hefur að láta vinna vel saman. 
 
Einn þessi þáttur eru sauðfjársæðingar. Hér á eftir er ætlunin að fjalla um nokkur atriði sem tengjast því starfi. Sumt af þessu eru atriði sem ég held að ágætt sé fyrir fjárbændur að hugleiða aðeins á sama tíma og val ásetningslambanna stendur sem hæst. Það er þetta val sem öllu ræður um ræktunarárangurinn á hverju einstöku búi.
 
Efla ætti sæðingastarfsemina
 
Hlutverk sæðinganna hefur tekið ákveðnum breytingum í tímans rás. Ég held að enn eigum við í ljósi hinnar mjög svo jákvæðu reynslu að huga að því að efla þá starfsemi.
 
Fyrstu sæðingar hér á landi eru í raun þáttur í varnaraðgerðum gegn sauðfjársjúkdómum og höfðu þannig eins og mál þróuðust engin áhrif í ræktunarstarfinu. Þegar sæðingar hefjast frá Laugardælum 1956 eru þær nánast alfarið bundnar við Vesturland og Norðurland vestra. Þáttur þeirra var fyrst og fremst að koma nýju erfðaefni inn á lokuð fjárskiptasvæði. Þessar sæðingar urðu í sögulegu ljósi öðru fremur til að koma þingeysku fé inná þessi svæði og fljótt sagt varð reynsla þess það góð að síðan hefur það mjög víða orðið ráðandi stofn á meirihluta búa á þessum svæðum. Á einstaka stað fylgdi forystufé í kaupbæti. Um leið lét kollótta féð á mörgum stöðum á þessu svæði að sama skapi undan og mögulega hefur ræktun þess víða þar ekki verið sinnt sem skyldi.
 
Laust fyrir 1970 hefst hinn varanlega sæðingastarfsemi með líku sniði og við þekkjum í dag. Að vísu fékkst ekki í byrjun sæði dreift til allra landsvæða og sauðfjárveikivarnayfirvöld héldu með hástemmdum reglum sem oftast voru langt ofar skilningi okkar óguðlegra manna verndarhendi yfir vissum svæðum. Þeirri baráttu lauk þó á tínda áratugnum þegar leyfi fékkst loks til sæðinga í Árneshreppinn. Þessar bannaðgerðir held ég góðu heilli hafi engin varnaráhrif sést af og önnur áhrif ekki nema seinka ef til vill eitthvað ræktunarárangri á þeim svæðum sem þær bitnuðu á. Að vísu gerðu þær öllum ljóst hver valdið hafði.
 
Í byrjun höfðu sæðingar enn talsvert gildi við að breiða nýtt erfðaefni til nýrra svæða. Um leið varð fljótt ljóst að þær mátti nota sem gífurlega öflugt tæki í ræktunarstarfinu. Umfang sæðinganna var samt á flestum búum fremur takmarkað. Mjög algengt var að stefnt væri að því að sæða frekar fáar ær jafnvel aðeins með árabili en umfang sæðinganna var miðað við að fengjust nægjanlega mörg hrútlömb til endurnýjunar á hrútakosti búsins. Ræktunarlega held ég að tveir meginannmarkar hafi fylgt þessari stefnu og gert að hún skilaði minna en við átti að búast. Lömbin voru yfirleitt of fá til að góður grunnur fengist til raunverulega að velja af eðlilegum þunga úr lambhrútahópnum og því stundum valist sem hrútamæður ær sem tæplega stóðu undir þeirri vegtyllu (hlutfall úrvalsánna í stofninum var á þeim tíma miklu lægra en nú gerist). Hitt atriðið var að erfðayfirburðirnir sem fylgja eiga sæðingunum dreifast miklu hægar um stofninn en mögulegt er.
 
Samstilling gangmála
 
Notkun samstillinga gangmála sem Ólafur R. Dýrmundsson rannsakar og kemur í notkun á þessum árum hafði að vísu nokkur áhrif til að bæta hrútsmæðravalið. Á síðari árum hefur bæði verðlag á þessari tækni og enn frekar afleit áhrif bæði á árangur og lambafjölda við sæðingarnar gert að þessari aðferð verður varla mælt með lengur til þessara nota af fólki með fullu viti.
 
Þegar ég fer að hafa afskipti af þessum málum vil ég meina að minn meginboðskapur hafi verið að auka umfang sæðinganna, þannig treystum við best framfarirnar frá þeim. Þar sá ég bæði fyrir mér að fá stærri lambhrútahópa til að velja úr. Meiri áhrifa vildi ég samt vænta af auknu hlutfalli ásetningsgimbra sem væru tilkomnar við sæðingar. Þannig mundu framfarirnar skila sér af enn meiri hraða. Oft hef ég á áróðursfundum sæðingastöðvanna sagt að bændur ættu að setja sér það markmið að 25–50% ásetningsgimbranna væru tilkomnar við sæðingar (lægra hlutfalli á stærri búum sem hafa raunhæfa möguleika til að prófa hrúta sem ærfeður). Þetta finnst mér að skili sér vel hjá bændum vegna þess að margir bændur hafa hlýtt þessu kalli. Þeir sem farið hafi vel yfir mörkin sýnist mér að hafi yfirleitt ekki skaðast.
 
Beinar mælingar höfum við fáar á beinhörðum áhrifum sæðinganna í stofninum þó að nægar séu vísbendingar um árangurinn til að benda á. Ávani minn við val er mikið að skoða ætterni gripanna auk beinharðra talna. Þess vegna sýndist mér að einföldustu mælinguna væri einfaldlega að fá með að meta hve hátt hlutfall erfðavísa hjá gripnum væri tilkomið með sæðingum.
 
Ég tók mig því til og skoðaði rúmlega 100 bú víða um land. Valdi tilviljunarkennt 20 ásetningsgimbrar haustið 2014 (forystufé var sleppt og sótt önnur kind í þess stað þar sem ég taldi mig vissan um ættir forystufjárins)  og um leið fjóra ásetningshrúta frá sama hausti (í örfáum tilvikum reyndust þeir ekki nægjanlega margir og var þá sóttur 2013 fæddur hrútur). 
 
Með einföldu ættartré í LAMB taldi ég síðan hve stór hluti erfðavísanna í fyrstu fjórum ættliðum kæmu úr sæðingum. Þetta var því talið í 16 hlutum og hámark sæðinganna 15/16  eða 93,8%.  Lesendur þurfa að átta sig á því að væru ættir raktar áfram þá gæti hlutdeild sæðinganna aðeins vaxið. Ég hef ekki sannreynt það en er nær fullviss að væru þær raktar áfram t.d. að tíunda lið væri sæðingahlutdeild genanna yfirleitt komin yfir 90%. Á hverju svæði sem skoðað var þá voru skoðaðar ættir 100 gimbra og 20 hrúta þ.e. fimm bú á svæði, þannig að samtals eru 1120 ær og 224 hrútar í heild að baki skoðuninni. Gripir frá Hesti voru síðan skoðaðir sér en í hugum margra bænda er það eina landsfjárbúið og því ágætur samanburður.
 
Niðurstöðurnar eru dregnar saman í töflu sem sýnir áhrifin eftir svæðum og síðan stöplaritum fyrir hrúta og ær sem sýnir birtingu áhrifanna hjá hvoru kyni um sig. Fyrir mig voru fáar eða engar niðurstöður sem komu að óvart en samt held ég séu nokkur atriði sem rétt sé að skýra frekar.
 
Að meðaltali er genahlutdeildin úr sæðingum 60% hjá hrútunum og 54,5% hjá gimbrunum. Þetta má sjá enn skýrar á stöplaritunum fyrir hrútana og ærnar. Hjá ánum virðist dreifingin vera nokkuð mikið í átt að því sem við köllum normaldreifingu sem við ættum alls ekki að sjá miðað við núverandi notkun sæðinga nema verulegur úrvalsþungi sé fyrir genin sem koma úr sæðinu. Hjá hrútunum er dreifingin enn önnur, þar er verulegur þungi gripa á bilinu 65–85% sæðingagen. Bæði er það vegna hærra hlutfalls hrúta beint úr sæði og þess að margir þeirra eiga til viðbótar móður tilkomna á sama hátt. Enginn hrútanna sem kom til skoðunar rakti sig ekki til sæðinga í fyrstu fjórum ættliðunum. Örfáar gimbrar fundust þannig en fullvissa má lesendur um að hefði verið rakið ögn lengra hefðu þær allar náð slíkum tengslum, þær voru ekki rótlausar. Stöplaritin sýna líka að allnokkrir gripir náðu hámarksgildinu 15/16 hlutum sem þýðir það að þeir eru tilornir með endurteknum sæðingum í síðustu fjórum kynslóðum. Þessa gripi er að finna vítt og breitt um allt land.
 
Áður en ég vík aðeins að svæðamun vil ég geta hæstu og lægstu mælinga á einstökum búum. Það er sama búið sem sýnir hæsta hlutdeild sæðingagena bæði hjá hrútum og gimbrum. Þetta er Litlu-Reykir í Flóa með 90% hlutdeild hjá hrútum og 81,9% hjá ánum. Þetta er frekar lítið fjárbú. Snillingur Páll Þórarinsson við hrútastöðina í Þorleifskoti mun hins vegar hafa haldið sæðingum nokkuð þétt að bróður sínum síðustu árin. Ég sá fé þarna síðasta haust en hafði ekki séð um nokkurt árabil. Ég fékk ekki séð að Palli hefði valdið bróður sínum neinum stórskaða með ráðleggingum sínum. Þetta held ég hins vegar nokkuð af allmörgum búum sem ekki eru fjármörg en með sæðingunum er skapað svigrúm til að vera á fullri ferð í ræktuninni eins og þau hafa mörg gert. Nokkur landsþekkt fjárræktarbú víða um land sóttu að vísu fast að Litlu-Reykjum. Lítum síðan til búanna þar sem sæðinga­áhrifin mældust minnst. Hjá hrútunum voru áhrifin minnst hjá Guðjóni á Heydalsá eða 23,3%. 
 
Notkun sæðinga á búunum við sunnanverðan Steingrímsfjörð hefur verið lítil allra síðustu árin og er það öðru fremur það sem þarna mælist. Þeir sem þekkja ræktun á kollótta fénu þekkja hins vegar þá tugi úrvalshrúta sem stöðvarnar hafa sótt á þetta bú um áratuga skeið.  Þannig hefði ekki þurf að rekja ættir nema nokkra ættliði lengra aftur til að ná hlutfalli sæðingagena í hæðir. Fyrir lægsta gildið hjá gimbrunum leitum við líka norður á Strandir eða til Guðlaugs í Steinstúni í Árneshreppi þar sem sæðingahlutdeild mælist aðeins 14,3%. Ástæðurnar eru þær sömu og hjá Guðjóni, litlar sæðingar norður þangað á flesta bæi allra síðustu árin. Lengra rakið eru sæðingahrútar í hrönnum. Auk þess hefur Guðlaugur verið ákaflega heppinn með búshrúta allra síðustu árin, hefur verið að nota hrúta sem hafa verið undir smásjá stöðvanna og því eðlilegt að hann noti þá hressilega til undaneldis.
 
Munur milli svæða
 
Örfá orð um mun á milli svæða. Hér eru það stóru ræktunarsveitirnar á Ströndum sem mest skera sig úr. Hlutfall sæðisgens í hrútastofninum í Árneshreppi mælist að vísu 50% og er það vegna lítillegra notkunar sæðinga þar þetta árið en meira samt sökum þess að þangað voru sóttir margir hrútar fyrir stöðvarnar haustið 2014 og heimamenn ólu nokkurn fjölda sona þeirra. Árneshreppur er það sveitarfélag þar sem sæðingar hófust síðast af öllum í landinu. Áður höfðu stöðvarnar sótt mikið af úrvalshrútum þangað og þeir skilið eftir sig mikið heima áður þannig að áhrif sæðingagena eru talsvert miklu meiri en hér mælist en engu að síður eru líklega áhrif sæðinga minni í fjárstofninum þar í sveit en á öðrum svæðum. Í Steingrímsfirði mælast einnig fremur lítil áhrif sæðinganna á stofninn. Þetta eru hins vegar mælingar á litlum sæðingum allra síðustu árin á þessu svæði. Grunnurinn þar er miklu meira mótaður af sæðingum. Urmull hrúta var sóttur þangað fyrir stöðvarnar, margir eftir mikla notkun heimafyrir, þannig að ég er viss um að ekki þarf að rekja marga ættliði til viðbótar til að komast í 60–70% hlutdeild sæðinga. Því miður hefur nær fullkomlega mistekist að finna kollótta hrúta fyrir sæðingastöðvarnar sem geri nokkurt gagn í ræktuninni norðurfrá þrátt fyrir margra áratuga starf. Þrátt fyrir það held ég að Strandamenn mundu ekki skaða sig neitt með heldur meiri notkun hrútanna sem þangað eru sóttir fyrir stöðvarnar síðustu árin. Yfirleitt hafa þeir sýnt góða yfirburði þar heimafyrir áður.
 
Öxarfjörður og Þistilfjörður koma í eins konar milliflokk með sæðingaáhrif. Ég veit að vísu að stutt þarf að rekja til að hækka þau áhrif umtalsvert. Þarna eru að jafnaði stærri bú en á öðrum sveitum. Á mörgum búum er því það mikill hrútakostur og fjöldi það mikill að raunhæft er að fá mat á nokkra þeirra sem ærfeður. Þess vegna er alveg eðlilegt að sæðingagen flæði aðeins hægar inní stofninn þar en þar sem bú eru minni. Að lokum vil ég nefna Öræfin. Þar hefur ekki verið minni fjársala en úr þeim sveitum sem áður eru nefndar. Þarna eru áhrif sæðinga hins vegar hvað mest á landinu. Þykist ég vita að það á sinn hlut í kostum og vinsældum þessa fjár. En það þýðir að skyldleiki þess við fé í öðrum héruðum er umtalsverður og sú ástæða sem ég hef alloft heyrt hjá fjárkaupendum þar að þeir séu að leita í óskylt fé ein mesta firra sem mögulegt er að setja fram.
 
Að lokum vil ég enn halda fram þeirri skoðun minni að ræktunarlega hafa margir bændur enn nokkuð að sækja í að auka notkun sæðinga. Ein meginforsenda þess er að sjálfsögðu sú að áfram verði á stöðvunum að finna hrútastofn sem hefur umtalsverða yfirburði yfir aðra hrúta í landinu. Það hlutverk verður hins vegar erfiðara með hverju ári eftir því sem stofn kynsterkra og öflugra hrúta stækkar með hverju ári. Erfiðara verkefni er hins vegar aðeins til að takast á við og láta skila árangri. Þarna held ég t.d. að ákveðinn rammi um skiptingu nýliðunar hrútanna á hverju ári inná stöðvarnar megi koma að gagni. 

4 myndir:

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...